Fara í efni
Pistlar

Friðartákn – Um ólífur í goðsögum, trúarbrögðum og menningu

TRÉ VIKUNNAR - XXXVIII

Í táknfræði eru ólífugreinar þekktar sem friðartákn og því viðeigandi að fjalla aðeins um þær í aðdraganda gleði- og friðarjóla.

Eins og kunnugt er hafa ólífur lengi verið ákaflega mikilvægar í matarmenningu við Miðjarðarhafið og tengjast þar líka allskonar goðsögum og trúarbrögðum á margvíslegan hátt. Má halda því fram að þau séu samtvinnuð menningu þeirra þjóða sem búa við Miðjarðarhafið. Þar með talið eru þær þjóðir sem búið hafa og búa enn á Biblíuslóðum. Í pistli vikunnar fjöllum við um þessi tengsl en í seinni pistli okkar um ólífur beinum við sjónum okkar að grasafræði tegundarinnar og skyldum hlutum. Því verjum við ekki tíma í slíkar lýsingar í þessum pistli.

Eitt af fjölmörgum málverkum eftir Vincent van Gogh af ólífutrjám málað 1889. Ólífur tengjast menningu á margan og mismunandi hátt.

Friður sé með yður 

Óhætt er að fullyrða að ekki finnist önnur tré í heiminum sem tengjast friði jafn áþreifanlega og ólífutré. Vel má vera að það tengist sögunni um örkina hans Nóa. Hún er það vel þekkt að óþarfi er að endursegja hana alla. Við minnum þó á að þegar gamli Nói hafði verið um borð í örkinni í tæpar sex vikur hafði rignt látlaust í fjörutíu daga og fjörutíu nætur. Það kallast sumar á Íslandi en í sögu Gamla testamentisins olli það flóði sem náði yfir allan heiminn. Einn góðan veðurdag, þegar loksins hafði stytt upp, sendi Nói dúfu í flugferð og kom hún til baka með ólífugrein í goggnum. Þá vissu allir um borð að flóðið var tekið að sjatna. Síðan hafa hvítar dúfur með ólífugreinar í nefinu verið táknmynd friðar.
 
 

Friðardúfa eftir Picasso. Takið eftir að laufin eru gagnstæð (nema endablaðið). Þannig á það að vera ef greinin er af ólífutré. Um það fjöllum við frekar í næsta ólífupistli.

Salómon konungur og ólífutrén 

Til er þjóðsaga um Salómon konung og ólífutrén. Þetta er sá sami Salómon og fjallað er um í Gamla testamentinu og því tengist hann öllum Abrahamstrúarbrögðunum.
 
 

Akur af ólífutrjám í Palestínu. Myndin fengin frá Wikipediu en hana tók بدارين

Það vita það ef til vill ekki margir en Salómon konungur var svo merkilegur að hann gat talað öll tungumál heimsins. Þar á meðal hafði hann á valdi sínu tungumál trjáa. Það hefur reyndar alveg steingleymst að geta þessa hæfileika í Biblíunni en þó eru ýmiss afrek Salómons tiltekin í þeirri ágætu bók. Þegar Salómon konungur að lokum andaðist þótti öllum trjám í heiminum það afar sorglegt og til að sýna sorg sína létu þau lauf sín falla. Öll nema ólífutrén. Þessu tóku hin trén eftir og spurðu ólífutrén hverju þetta sætti og af hverju þau sýndu ekki sorg sína eða hvort þau væru ekki jafn sorgmædd og aðrar lifandi verur? Ólífutréð svaraði að það væri alveg jafn sorgmætt og önnur tré en héldi sorginni í hjarta sér en þætti óþarfi að sýna hana. „Ég mun lifa lengur en þið öll“ sagði ólífutréð „og á þeim tíma mun ég búa til góð aldin til að heiðra minningu Salómons konungs.“

Þessi saga mun ættuð frá Druze fólkinu (Spadea 2022) sem er trúarhópur innan Abrahamstrúarbragðanna eins og gyðingar, múslimar og kristnir. Til þeirra tilheyra um 800.000 til ein milljón iðkanda ef marka má Wikipediu. Það þarf ekki að koma á óvart að enn þann dag í dag planta bæði múslimar og kristnir menn ólífutrjám við grafir ættingja sinna sem tákn um eilíft líf.

Fáni Sameinuðu þjóðanna sýnir jörðina þar sem norðurpóllinn er í miðju. Utan um heiminn eru tvær greinar af ólífum til að tákna frið.

Ólífur í Kóraninum 

Í ýmsum trúarritum er minnst á ólífur. Þær koma til dæmis bæði fram í Gamla testamentinu og í Kóraninum. Wells (2010) tiltekur dæmi úr Kóraninum (24;35) „Allah er ljós himins og jarðar. Ljós hans er sem ljós lampa. . . sem tendrað er í blessaðri ólífuolíu ólífutrésins“. Sjálfsagt mætti þessi þýðing okkar vera betri og biðjum við alla múslima afsökunar ef rangt er með farið. Í grein Vilmundar Hansen (2015) kemur fram að víðar er fjallað um ólífur í Kóraninum þótt ekki séu dæmi tiltekin.
 

Akur af ólífutrjám í Yanoun á Vesturbakkanum í Palestínu. Myndin fengin héðan.

Ólífur í Biblíunni 

Gamla testamentið er fullt af umfjöllun um ólífur. Við höfum þegar minnst á ólífugreinina í sögunni um gamla Nóa sem lesa má í Fyrstu Mósebók og undir myndinni af skjaldarmerki Ísrael er ein tilvitnun í Biblíuna. Reyndar má sjá vísanir í þessa ágætu bók víðar í þessari grein. Annars virðist það vera svo að í Biblíunni, rétt eins og í Kóraninum, er frekar talað um ólífuolíu en ólífutré. Einnig er þar á nokkrum stöðum talað sérstaklega um ólífuviðargreinar. Þeim var meðal annars komið fyrir í musterinu.
 

Gabríel erkiengill er stundum sýndur með ólífugrein i höndunum eins og hér má sjá. Sennilega er þó algengara að sjá hann með liljur eða sverð. Myndin fengin héðan.

Í 30. kafla, 2. Mósebókar er uppskrift að smurningarolíu. Hún er svohljóðandi: „Taktu þér hinar ágætustu ilmjurtir, fimm hundruð sikla af fljótandi myrru, helmingi minna, eða tvö hundruð og fimmtíu sikla, af ilmandi kanel, tvö hundruð og fimmtíu sikla af ilmandi kalmus og fimm hundruð sikla miðað við þyngd helgidómssikils af kassía og eina hín af ólífuolíu. Úr þessu skaltu gera heilaga smurningarolíu, ilmsmyrsl, að hætti smyrslagerðarmanna. Þetta skal verða heilög smurningarolía.“

Einföld leit á biblían.is segir okkur að fjallað sé um ólífur eða ólífuolíu í 35 köflum Gamla testamentisins. Þetta má sjá hér. Í Nýja testamentinu er víða talað um olíu án þess að nefna sérstaklega að hún sé úr ólífum en sennilega er það samt þannig samanber uppskriftina hér að ofan. Þetta hefur bara verið svo augljóst að óþarfi var að nefna það sérstaklega. Það má líka nefna að samkvæmt Nýja testamentinu varði Jesús sinni síðustu nótt á jörðinni í bænahald í garðinum Getsemane. Samkvæmt Wells (2010) merkir nafnið Olíupressugarðurinn eða eitthvað álíka. Í Lúkasarguðspjalli er í þessu sambandi talað um Olíufjallið. Þarna er greinilega vísað í ólífutré þótt þau séu ekki nefnd sérstaklega. Svo er að sjá sem samkvæmt kristinni trúfræði njóti ólífuolía sérstakrar guðsblessunar ásamt brauði og víni. Bæði tréð og ávöxtur þess tákna „frið og velsæld, hollustu og farsæld, ódauðleika“ samkvæmt bók Sölva Sveinssonar frá 2011 sem heitir Táknin í málinu. Til að undirstrika mikilvægi olíunnar má nefna að Messías merkir hinn smurði.

Næturmynd af ólífutrjám við Betlehem. Myndin fengin úr þessu myndbandi.

Aþena og ólífurnar 

Samkvæmt grískri þjóðsögu hefur Aþena, höfuðborg Grikklands, ekki alltaf borið þetta nafn. Upphaflega hét hún Atteka. Þá fékk Seifur þá flugu í höfuðið að gefa einu goði borgina. Úr varð að hann hélt samkeppni á milli gyðjunnar Aþenu og sjávarguðsins Póseidons. Keppnin var í því fólgin að það þeirra sem gæti fært íbúum borgarinnar mikilvægari gjöf fengi að hreppa borgina. Af visku sinni bjó Aþena til hið fyrsta ólífutré. Það gæti gefið borgarbúum mat, lyf og ljós jafnframt því að vera tákn fyrir frið. Þannig gæti ólífutré veitt borgarbúum hamingju. Ekki eru allar sögurnar sammála um hvað það var sem Póseidon ákvað að búa til. Sumir segja að hann hafi sýnt styrk sinn með því að búa til fyrsta hrossið í heiminum. Við Íslendingar litum lengi vel á hestinn sem þarfasta þjóninn en Póseidon sá hann sem tákn fyrir styrk borgarinnar og íbúa hennar. Að auki sá hann fyrir sér að þeir væru prýðilegir í hernaði. Nú kom að borgarbúum að velja. Þeir völdu frið fram yfir stríð og þannig vann Aþena samkeppnina og borgin ber nafn hennar æ síðan. Aþenubúinn Theophratus, sem var uppi á fjórðu öld fyrir Krist, segir að þetta fyrsta ólífutré, sem sjálf Aþena skapaði, standi enn við hof hennar á Akrópólishæð (Spadea 2022). Sölvi Sveinsson (2011) segir í bók sinni að olíu úr fyrstu uppskeru hvers árs hafi verið „brennd til heilla mönnum og í þakklætisskyni við þann guð sem skapaði ólífutréð.“
 
 

Ólífutré á Akrapólishæð í Aþenu. Myndin fengin héðan.

Lundurinn Akademe  

Rétt utan við Aþenu var í sinni tíð frægur ólífulundur sem gefinn var Akademusi sem bjargað hafði Helenu hinni fögru eins og fram kemur í frásögnum af Trójustríðinu. Á fjórðu öld fyrir okkar tímatal bjó sjálfur Platon rétt hjá þessum ólífulundi sem þá bar nafn Akademusar. Hann gekk gjarnan með nemendum sínum um lundinn og ræddi þar heimspeki. Skáldið John Milton mærði fegurð lundarins í Paradísarmissi sínum. Heiti staðarins, þar sem lærdómsmenn gengu um ólífulund, færðist yfir á lærdómssetur almennt sem enn eru nefnd academy á mörgum tungumálum (Wells 2010). Hér á Akureyri höfum við til dæmis AkureyrarAkademíuna.

Ólífutré sem stofublóm (nema þetta sé eldhúsblóm). Það væri vel viðeigandi að koma slíkri plöntu fyrir í húsakynnum AkureyrarAkademíunnar. Myndin fengin héðan.

Herkúles og ólífutrén 

Önnur grísk sögn segir frá dálæti Herkúlesar á ólífutrjám. Hann kunni vel að meta hversu sterkur viður þeirra trjáa er. Hann lét sér ekki muna um að dauðrota ljón og önnur dýr með spýtu úr ólífutré og þótti ljómandi gott að berja frá sér með kylfum úr ólífuvið.

Gömul skreyting á grískum vasa sem sýnir Herkúles með kylfu úr ólífuvið berjast við marghöfða hýdru. Myndin fengin héðan.

Í pistli okkar um sigurtáknið lárvið sögðum við frá því að sigurkransar hafa lengi verið búnir til úr lárviðargreinum. Sá siður þekkist líka að búa til sigurkrans úr ólífugreinum og er það talið tengjast Herkúlesi. Sigurkransar í kraftaíþróttum voru því oft úr ólífugreinum. Ekki hefur alltaf verið gerður greinarmunur á þessu tvennu í sögum og myndum. Þá getur verið heppilegt að minna á það sem stendur hér ofar með laufin á ólífutrjám. Þau eru alltaf gagnstæð. Ef þú, lesandi góður, skoðar myndir af alnetinu af sigurkrönsum má greina hvort þeir eru úr lárvið eða ólífum með því að athuga hvort laufin eru gagnstæð eða ekki. Oft er það svo að þegar talað er um lárviðarkransa eru þeir hreint ekki úr lárvið, heldur ólífugreinum.

Krýning sigurvegari á Ólympíuleikum til forna. Kransinn er með gagnstæðum blöðum. Því er þetta krans úr ólífum en ekki lárvið.

Mars og ólífur 

Rómverjar tóku upp marga gríska siði og löguðu þá að sínum hefðum. Þeir vissu að ólífur tengdu Grikkir við styrk og frið en þeir litu á tréð sem táknmynd fyrir stríðsguðinn Mars. Það er einmitt í marsmánuði sem ólífur blómstra, en það er ekki meginástæða þessarar tengingar. Mars er nefnilega ekki bara stríðsguð. Hann hafði bæði vald til að hefja stríð og ljúka þeim. Þar komu ólífugreinarnar sterkar inn. Þar sem að auki mátti líta á ólífutré sem tákn styrkleika var þetta prýðisgott fyrir stríðsguðinn Mars. Við þetta má bæta að grískar hetjur sofnuðu gjarnan undir ólífutrjám. Það endurspeglar glögglega gildi trjánna sem friðartákna. Aftur á móti báru rómverskir hermenn ólífugreinar í sigurgöngum sínum í Róm til merkis um sigur og frið, Pax Romana.
 

Ólífur og börn

Gömul grísk hefð mælir svo fyrir að þegar barn fæðist skuli planta ólífutré. Tréð og barnið munu svo vaxa upp saman. Þegar barnið verður sex ára gamalt mun tréð fara að gefa af sér aldin. Það mun vaxa með fjölskyldunni, lifa í gleði og sorg fjölskyldunnar og enn standa þegar barnið verður gamalt og kveður að lokum þennan heim. Þá mun tréð halda áfram að gefa ávöxt og vera óður til lífsins og minning um hinn fallna (ABEA 2015). Sölvi Sveinsson (2011) nefnir líka þennan sið en tengir það aðeins sonunum. Hann segir að feður hafi gjarnan plantað ólífutrjám þegar synir þeirra fæddust. Þá gætu þeir farið að njóta ávaxtanna um það leyti sem börn þeirra komust á legg ef friður ríkti í landinu. „Ef hernaður ríkti í landinu gerðu menn sér far um að eyðileggja ólífutré og þótti það grimmilegt“ segir Sölvi. 

Smellið hér til að sjá allan pistil Sigurðar

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Kunningi frænda míns

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. maí 2024 | kl. 14:00

Dagur læknisins

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
17. maí 2024 | kl. 18:00

Kolefnissugur og endurskinshæfni gróðurlenda

Sigurður Arnarson skrifar
15. maí 2024 | kl. 13:30

Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 35 (Fagrastræti 1)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
15. maí 2024 | kl. 08:00

Þúfnaganga

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. maí 2024 | kl. 13:30

Fagurt er til fjalla

Sverrir Páll skrifar
12. maí 2024 | kl. 11:30