Fara í efni
Pistlar

Fannfergi

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 20

Frá því upp úr 1960, og allan þann rífa aldarfjórðung sem á eftir kom, reið litla ísöld yfir Akureyri, en líklega einkanlega á Syðri Brekkunni.

Því litlu íbúðarhúsin hurfu undir snjó. Frá því í nóvember og fram í apríl. Og ef það var ekki kafaldsbylur, kyngdi kófinu niður í norðlensku logni, en þá var gónt á hundslappadrífuna dansa fyrir sjónum manns út um stofugluggann á kvöldin.

Svo var að moka sig út á morgnana. Heilu skaflarnir stóðu fyrir dyrum. Stundum upp fyrir þær. Og alla leiðina á húsþakið. En það var alvanaleg sjón. Og því þurftu heimilisfeðurnir að moka sig út svo þeir kæmust til vinnu, farandi um á snjóþrúgum eða þaðan af rennilegri gönguskíðum á milli hverfa, því ekki sást lengur í heimilisbifreiðina í innkeyrslunni.

Og seinnipartinn, þegar karlinn var kominn heim, og tveggja daga gamall Tíminn var teygður á milli tveggja handa, var kveðið upp úr með það að við krakkarnir ættum að fara út og merkja fyrir bílum, því til þess hefðum við bæði táp og fjör.

En þar var komin samfélagsábyrgðin. Í allri götulengjunni væri akstursflotinn kominn undir snjó, og við litlu kvikindin hefðum lítið annað að gera, eftir að örþreyttur húsbóndinn hafði skilað sér heim, en að taka með sér skíðastafina út úr skúrnum, og pota þeim niður í mjöllina þar sem bílar stæðu undir. Og með því lagi fengju snjóruðningskapparnir pata af kaffærðum blikkbeljunum.

Í ljóslifandi endurminningunni standa leðurbundnir bambusstafirnir upp úr snjóalögum götunnar á hverjum einasta vetrarmorgni þegar tilkynnt var um það símleiðis, enn einn daginn, að skólahald félli niður vegna ófærðar og fannfergis.

En þá fyrst var fjör í götunni. Því það var kallaður saman hópur og henst í gallann, þykkan og skjólgóðan, svo klifra mætti upp á þak á næstu húsum, og helst þeim hæstu í hverfinu, til að henda sér ofan í næturfallinn púðursnjóinn.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: LONNÍETTUR

Úrillt og ráðvillt trippastóð

Orri Páll Ormarsson skrifar
28. nóvember 2025 | kl. 10:00

Strandrauðviður

Sigurður Arnarson skrifar
26. nóvember 2025 | kl. 20:00

Hvalastrandið

Jóhann Árelíuz skrifar
23. nóvember 2025 | kl. 06:00

Þið kannist við jólaköttinn ...

Pétur Guðjónsson skrifar
22. nóvember 2025 | kl. 16:00

Um nöfn og flokkunarkerfi. Seinni hluti

Sigurður Arnarson skrifar
19. nóvember 2025 | kl. 12:00

Hreyfing hreyfingarinnar vegna

Guðrún Arngrímsdóttir skrifar
18. nóvember 2025 | kl. 06:00