Fara í efni
Pistlar

Export

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 79

Enginn ilmur var betri og meiri í endilangri æsku minni en sá sem gufaði upp úr kaffibætisbaukunum hjá ömmum mínum í Gilsbakkavegi og Helgamagrastræti. Í sjálfri endurminningunni er sem maður hafi tekið til fótanna, þegar komið var að húsum þeirra, því það stytti tímann inn í eldhús þar sem lokið var tekið af dósunum í einum grænum hvelli, svo anda mætti að sér alsælunni, yfirmáta góðum export, svari alls sem nefið fengi að njóta.

En þetta var náttúrlega á haftaárunum – og Ísland enn þá afkróað í einsemd sinni í heimi hér. Innflutningur var ýmist bannaður eða í blóra við sjálfsmynd nýfrjálsrar þjóðar sem trúði því að hún væri einfær um alla hluti.

Svo aðkeypt kaffi úr allt öðrum álfum var auðvitað svo dýrt, að drýgja varð það með einverjum ráðum, ef menn ætluðu sér að leyfa sér það hvunndags jafnt sem helgidaga. Og koma þar til sögu hylki Ludvigs David sem kunni öðrum betur að þurrka, rista og mylja sikkorírót sem þótti bragðbæta baunakaffið að miklum mun, svo eftir sat á tungu manna töfradrykkurinn sanni, búinn til af sitt af hvoru tagi, eins og alþekkt varð í vísunni.

Mér var ungum kennd kúnst uppáhellingarinnar af ömmum mínum báðum, hagsýnum og harla regluföstum. En ef ég stæði á kollinum við eldhúsbekkinn og hjálpaði þeim við að láta renna í könnuna, væru hlutföllin þessi; fjórar skeiðar af brenndum baunum – og aldrei meira – á móts við fjórðungspart af kaffibætisplötu sem brotin væri tvisvar sinnum í tvennt, en aldrei minna.

En það myndi enginn kvarta yfir svoleiðis kaffidrukk á efri Brekkunni.

Svo var öllum bréfunum utan af kaffibætinum haldið vandlega til haga í efstu kommóðsskúffunni í svefnherbergi gömlu kvennanna. Þeim var strokið á kinnar þeirra ef mikið stóð til, enda kinnalitur í eðli sínu, sem ekki mátti fara til spillis.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: CHELSEA

Með hæla í rassi

Jóhann Árelíuz skrifar
11. maí 2025 | kl. 06:00

Hús dagsins: Aðalstræti 62

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
11. maí 2025 | kl. 06:00

Örlítið brot frá unglingsárum

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. maí 2025 | kl. 06:00

Barkarbjöllur – ógn við íslenska skóga

Sigurður Arnarson skrifar
07. maí 2025 | kl. 08:45

Serie A

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
05. maí 2025 | kl. 11:30

Uppá eldhússkápnum

Jóhann Árelíuz skrifar
04. maí 2025 | kl. 10:00