Fara í efni
Pistlar

Chelsea

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 80

Gunni bróðir hélt með Leeds þegar ég var um það bil að komast til vits og ára, en það merkti raunar í mínu tilviki að ég hafði ekki öðlast þroska til að velja mér lið í enska fótboltanum.

En ég var níu ára. 1970. Vikugamall bikarúrslitaleikur var sýndur eins og hvert annað svarthvítt sjónvarpsefni í viðtækjunum heima í stofu, og Gunni bróðir hafði haft á orði, fyrr um daginn, að hans menn myndu taka slaginn.

Svo ég fór að velta fyrir mér hinu liðinu á skjánum heima í Espilundinum, þangað sem familían var nýflutt að ystu mörkum Akureyrarbæjar. Því það væri bragur að því að halda með þeim gaurunum, andstæðingum Gunna bróðir, enda gæti ég ekki verið svoleiðis rola að styðja sama lið og eldri guttinn á heimilinu. Því þetta var spurning um sjálfstæði, að veðja á sjálfan sig.

Og mótherjinn var Chelsea. Það varð raunar lið mitt upp frá því, enda vann það þennan úrslitaleik með Peter Osgood í fararbroddi og nafna hans Bonetti í vígum girtu markinu. Gott ef Charlie Cooke, Ron Harris og John Hollins hafi ekki líka verið með á miðsvæðinu, og assgoti atkvæðamiklir.

En svona er líf manns. Að mestu tilviljun. Og röð þeirra fram eftir ævinni. Því maður er það sem hendir og fellur fyrir fætur manns.

Verst var samt á þessum fyrstu árum enska boltans í íslensku ríkissjónvarpi að maður átti ansi erfitt með að gera greinarmun á liðunum sem voru að spila þessa vikugömlu leiki í sauðalitunum á litlum og óskýrum skjánum, sem áttu það til að frjósa á bestu augnablikunum inni í teig. En þá vissi maður ekki heldur hvort liðið hafði skorað, eða hver náði að pota boltanum í mark.

En það varð bara að geta í eyðurnar. Leikurinn hlaut að hafa farið einhvern veginn. Því annað var eiginlega óhugsandi.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SKÚRINGAR

Kattaraugun

Jóhann Árelíuz skrifar
18. maí 2025 | kl. 06:00

Ofvirkir unglingar að æpa á róandi?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
17. maí 2025 | kl. 09:00

Hvernig koma á Skoda upp brekku

Orri Páll Ormarsson skrifar
16. maí 2025 | kl. 15:00

3+30+300

Sigurður Arnarson skrifar
14. maí 2025 | kl. 09:20

Export

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
12. maí 2025 | kl. 11:30

Með hæla í rassi

Jóhann Árelíuz skrifar
11. maí 2025 | kl. 06:00