Fara í efni
Pistlar

Bláminn á barrinu

TRÉ VIKUNNAR - 126

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Hátt uppi í Himalajafjöllum vex himalajaeinir. Hann er frægur fyrir sitt bláa barr.

Hátt uppi í Klettafjöllum vex broddgreni ásamt blágreni og fjallaþin. Öll þessi tré eiga það sameiginlegt að barrið á trjánum er vaxborið og getur verið nokkuð bláleitt.

Hátt uppi í Himalajafjöllum vex bláleitur sedrusviður. Náskyld tegund af bláum sedrusviði vex í Atlasfjöllum Norður-Afríku. Þar vex líka sýprus sem er blárri á litinn en annar sýprus nálægt Miðjarðarhafi.

Ofangreindar tegundir eru allar fremur vinsælar í garðrækt, sumar hér á landi, aðrar erlendis og enn aðrar bæði hér á landi og í útlöndum. Getur það verið hrein tilviljun að hátt uppi í fjöllum vaxi barrviðir af ólíkum tegundum, ættkvíslum og jafnvel ættum sem eiga það sameiginlegt að barrið á þeim er blátt, frekar en grænt? Hvað veldur þessum bláa lit? Þessar spurningar eru kveikjan að pistli vikunnar.

Blátt barr á himalajasedrus, Cedrus deodara, hátt í Himalajafjöllum. Af hverju eru svona margir barrviðir með bláleitt barr hátt til fjalla? Eins og sést eru þarna einnig tré sem eru ekki með neina bláa tóna. Myndin er fengin héðan.
 
Blátt barr á himalajasedrus, Cedrus deodara, hátt í Himalajafjöllum. Af hverju eru svona margir barrviðir með bláleitt barr hátt til fjalla? Eins og sést eru þarna einnig tré sem eru ekki með neina bláa tóna. Myndin er fengin héðan.

Aðlögun að þurrki eða kulda?

Fólk hefur lengi velt því fyrir sér hvernig á þessum bláma standi. Líklegt er að þetta tengist á einhvern hátt erfiðari lífsskilyrðum svona hátt uppi, eitthvað sem veldur álagi, stressar plönturnar og veldur keimlíkri þróun þeirra. En hvaða stressvaldur er þetta?

Sumir hafa látið sér detta í hug að þetta gæti verið aðlögun að þurrki. Ef það er rétt, þá liggur ekki fyrir af hverju þetta gerist ekki á þurrum svæðum á láglendi.

Aðrir hafa stungið upp á að þetta tengist kulda í fjöllunum. Ef það er rétt ætti þessi blámi að vera algengur á norðurslóðum þar sem kuldinn er engu minni. Má nefna að hvítgreni getur tekið upp svona bláma hátt til fjalla (hugsanlega vegna erfðaflæðis frá blágreni) en gerir það ekki á norðurslóðum. Þetta bendir til þess að einhver annar orsakavaldur en kuldi eða þurrkur sé drifkraftur þessarar þróunar. Stundum virðist þrýstingur á tiltekna þróun stafa af fleiri en einum þætti. Því má vel vera að kuldi eða þurrkur eigi hlut að máli, en meira þarf þó til.

 
Getur blái liturinn á barri himalajaeinis (fyrri mynd) og sumum þintegundum (seinni mynd) verið vörn gegn kulda eða þurrki? Fyrri myndin er tekin í frosti í garði á Akureyri en sú seinni að vetrarlagi í Lystigarðinum. Myndir: Sig.A.

Rétt er að taka fram að þurrkar og kuldi tengjast nánum böndum í háfjöllum. Það er vel þekkt að sígræn tré hylja nálar sínar með vaxhúð sem dregur úr vatnstapi gegnum nálarnar sem verður til þess að sykurmagnið eykst í vefjum trjánna. Það eykur frostþol þeirra. En það er ekki þannig að vaxhúðin sé alltaf svona bláleit. Þurrkarnir, sem hrjá gróður á köldum stöðum, geta stafað af því að vatnið er frosið. Þar með getur gróður ekki nýtt sér það. Ef að auki blæs hraustlega, þegar allt vatn er frosið, geta barrtré tapað vatni um loftaugu barrnálanna án þess að mögulegt sé að endurnýja það með vatni úr jarðvegi. Þetta getur þurrkað upp greinar og jafnvel heilu trén. Þannig má segja að þurrkur og kuldi geta verið greinar af sama meiði. Því er algengt að sjá því haldið fram að bláleit vaxhúð á barrtrjám hljóti að vera vörn gegn þurrkum. Það er rétt, svo langt sem það nær.

Ljóstillífun og hinn græni litur

Við höfum áður fjallað um ljóstillífun plantna í vikulegum pistlum okkar um tré og tengd málefni. Má nefna pistlana Afleiðingar hins græna lífsstíls, Af hverju er skógurinn grænn? og Hverfulleiki haustlitanna.

Allar plöntur á landi eru afkomendur grænþörunga sem námu land fyrir ákaflega mörgum árum eins og við segjum frá í pistlinum Um þróun örvera til trjáa. Þar má fræðast um að græni liturinn er plöntum sérlega mikilvægur. Ljóstillífun plantna fer fram í hinum græna hluta plöntunnar, nánar tiltekið í grænukornum í þeim hluta laufa og barrs sem við köllum laufgrænu. Ljóstillífun byggist á því að nýta koltvísýring (CO2) og vatn ásamt uppleystum steinefnum til að búa til sykrur. Ferlið þarfnast orku og hún kemur úr sólinni. Plönturnar nýta allt hið sýnilega litróf ljóss til ljóstillífunar, nema græna hlutann. Plantan varpar frá sér hinum græna lit og þess vegna sjáum við plönturnar sem grænar. Ef plöntur gætu nýtt allt hið sýnilega litróf ljóss til tillífunar gætu þær ekki varpað frá sér sýnilegu ljósi. Þá væru þær svartar á litinn. Ef það væri svo að plöntur vörpuðu frá sér öðrum litum, svo sem bláu, þá nýttist orkan í bláa ljósinu ekki til ljóstillífunar. Þess vegna má vænta þess að bláar plöntur eigi erfiðara með ljóstillífun en grænar plöntur. Samt hefur þróun ólíkra ætta barrtrjáa leitt til blárra tóna. Þrýstingur til slíkrar þróunar hlýtur að hafa einhvern ávinning í för með sér sem vegur upp á móti minni ljóstillífun, nema plöntunum hafi tekist að koma sér upp sérstakri tækni sem nýti ljósið betur til tillífunar. Það er ekki útilokað.

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Ekki „gervigreind“ heldur upplýsingaverksmiðjur

Magnús Smári Smárason skrifar
12. ágúst 2025 | kl. 14:30

Sana

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
11. ágúst 2025 | kl. 11:30

Leynimakk í dúkkuhúsi

Jóhann Árelíuz skrifar
10. ágúst 2025 | kl. 06:00

Að vera öðruvísi

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. ágúst 2025 | kl. 06:00

Þessi þjóð er fitusprengd

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
09. ágúst 2025 | kl. 06:00

Þegar ég var hugguleg stúlka

Orri Páll Ormarsson skrifar
08. ágúst 2025 | kl. 22:00