Birkismugur

TRÉ VIKUNNAR - 125
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _
Af þessum tegundum er ilmbjörkin mest ræktuð. Reyndar er hún mest ræktaða trjátegund landsins og sú eina sem myndaði hér samfellda skóga við landnám. Nú lætur nærri að af öllu skóg- og kjarrlendi landsins séu þrír hlutar af hverjum fjórum vaxnir birki. Sumt af því hefur áberandi mikið af erfðaefni fjalldrapa í genamengi sínu.
Þegar tekið er tillit til þess hversu lengi birkið hefur verið á Íslandi og hversu mikið er ræktað af því er ekki að undra að ýmsir hópar skordýra hafi komist upp á lag með að nærast á því. Við höfum nú þegar birt sérstaka yfirlitsgrein um þessa skaðvalda en nú skoðum við nýjustu viðbótina í þessari fánu.

Sérstaða íslensks birkis
Íslenska birkið er í ýmsu frábrugðið því birki sem vex í nágrannalöndum okkar. Fyrir það fyrsta er að sjá sem erfðaflæði milli birkis og fjalldrapa hafi verið hér heldur meira en í nágrannalöndunum. Er það sjálfsagt liður í aðlögun að sauðfjárbeit og annarri ósjálfbærri nýtingu í ellefu aldir.
Ýmsar trjátegundir geta framleitt ýmis varnarefni til að verjast afræningjum. Slík framleiðsla kostar orku. Ef afræningjar eru ekki til staðar þjónar ekki nokkrum tilgangi fyrir trén að framleiða þau. Náttúruvalið sér þá um að sortera þau frá. Þess vegna var íslenska birkið sérlega illa varið fyrir beit spendýra þegar þau bárust hingað, en fjalldrapinn er minna étinn. Ef til vill stafar það af því að hann er svo lágvaxinn að fuglar á jörðu niðri geta étið hann. Því var meiri akkur í því fyrir fjalldrapa en birki að vera bragðvondur. Þetta kann að vera ein ástæða þess að þegar grasbítar úr hópi spendýra voru fluttir inn gaf náttúruvalið blendingum þessara tegunda betri tækifæri en víða í kringum okkur. Þeir gátu svo bakvíxlast við venjulegt birki. Þannig hefur erfðaefni fjalldrapa borist inn í erfðamengi birkisins.

Þegar þessir nýju skaðvaldar, sem þessi grein fjallar um, bárust til landsins voru hér engir náttúrulegir óvinir sem gátu slegið á stofninn og litlar líkur á að birkið framleiddi einhver varnarefni. Aftur á móti virðast allar þessar tegundir sækja mikið frekar í birkið en fjalldrapann. Hann virðist vera ólystugri í munni þessara lirfa. Svo getur verið að lauf fjalldrapans séu einfaldlega of lítil til að lirfurnar geti náð réttu þroskastigi með því að nærast á því.
Komið hefur í ljós að birkið er misjafnlega næmt fyrir þessum pöddum. Vel kann að vera að það stafi af mismiklu erfðaefni frá fjalldrapa. Því virðist það vera svo að birki sem hefur minna erfðaefni frá fjalldrapa, eða er jafnvel alveg laust við það, verður frekar fyrir skemmdum en blendingarnir. Hreint birki þekkist meðal annars á því að lauf þess eru að jafnaði stærri en hjá þeim trjám sem hafa meira af erfðaefni fjalldrapa í genamengi sínu. Hreint birki vex þar að auki hraðar og meira. Þetta leiðir til þess að það eru fyrst og fremst flottustu trén sem verða fyrir skaða enda hafa þau að jafnaði minna erfðaefni frá fjalldrapa. Þess finnast dæmi að birkismugur hafi drepið birkitré með samstilltum og endurteknum árásum. Þegar það gerist eru það fyrst og fremst kynbætt og glæsileg birkitré með stór laufblöð og ljósan stofn sem falla.

Nýir skaðvaldar
Nýjasta viðbótin í hópi skaðvalda birkis eru tegundir sem þróast hafa þannig að þær lifa inni í sjálfum laufunum og halda sig á milli efra og neðra borðs þeirra. Þess vegna stingum við upp á að kalla þær birkismugur. Komið hefur í ljós að nú hafa þrjár tegundir birkismuga numið hér land sem haga sér svona en fyrir árið 2005 var íslenska birkið laust við slíka óværu. Ein þeirra er fiðrildategund, en hinar tvær eru blaðvespur. Frá sjónarhóli skaðvaldanna getur það verið heilmikill kostur að lifa inni í laufblöðum. Þar geta þeir athafnað sig í rólegheitunum þar sem þeir eru tiltölulega vel varðir fyrir afræningjum eins og fuglum. Fiðrildalirfan er mest áberandi snemma á vorin þegar birkið er að hefja vöxt en blaðvespulirfurnar taka svo við. Þetta eykur verulega á tjónið sem þær valda því samanlagður lífsferill þessara lirfa inni í laufum birkitrjáa spannar nánast allan vaxtartíma birkisins.
Þegar lirfurnar éta laufin innan frá verða ystu lög blaðsins eftir og hanga á birkinu eins og brúnir pokar. Það segir sig sjálft að brún laufblöð eru án blaðgrænu og því ljóstillífa þau ekki. Hvaða áhrif getur það haft á birki ef það verður svipt stórum hluta laufa sinna ár eftir ár? Hversu lengi geta slík birkitré lifað af?
Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Brynja Hrafnkelsdóttir er sérfræðingur hjá Landi og skógum. Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn


Gróðurhússbruninn

Þessi þjóð er á tali

Ótilhlýðileg framkoma í eitruðu starfsumhverfi

Einkennisbarrtré suðurhvelsins
