Fara í efni
Pistlar

Bergfuran við Aðalstræti 44

TRÉ VIKUNNAR - 127

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Í Innbænum á Akureyri eru mörg fögur tré, enda hófst trjárækt þar fyrir mjög mörgum árum. Hafa sum þessara trjáa ratað í þessa litlu pistlaröð og sjálfsagt eiga mörg eftir að gera það síðar.
 
Í húsinu við Aðalstræti 44 býr Anna Kristveig Arnardóttir. Anna Kristveig sinnir garði sínum í kringum húsið af mikilli alúð og eins og sumir nágrannar hennar, þá hugar hún einnig að gróðrinum ofan við lóðarmörkin. Þar hefur hún grisjað stafafuru eins og þarf og fært þangað gróður úr garði sínum þegar hún hefur þurft að grisja og hreinsa til. Að auki hefur hún endurnýjað húsið og byggt við það af mikilli smekkvísi. Viðbyggingin er aftan við húsið og breytir því götumyndinni mjög takmarkað en annars fellur viðbyggingin vel að húsinu og umhverfi þess.
 

Neðst í garðinum, í suðvesturhorninu, alveg við götuna, er stæðileg bergfura. Svona stæðilegar bergfurur eru ekki margar í bænum og því veljum við hana núna sem tré vikunnar.

 
 

Kortasjáin

Við í Skógræktarfélaginu höfum auðvitað dáðst að þessari furu í nokkurn tíma. Þess vegna er hún merkt inn á kortavefsjá félagsins eins og svo mörg falleg og merk tré í Eyjafirði. Sjá má kortasjána hér. Í henni eru trén flokkuð í þrjá flokka. Sum eru stórmerkileg og falla í fyrsta flokk á meðan önnur eru merkileg og eru sett í annan flokk. Að lokum eru sum sögð vera efnileg. Þau falla í þriðja flokk. Allt er þetta teygjanlegt en tré vikunnar er í síðast talda flokknum. Þessi fura telst vera efnilegt tré.

Kortasjáin byggir meðal annars á bæklingi sem gefin var út í tilefni af 75 ára afmæli félagsins og sjá má hér. Bæklingurinn heitir Merk tré á Akureyri og eins og nafnið bendir til fjallar hann einmitt um tré sem teljast merk og finnast á Akureyri. Þegar hann var gefin út var bergfuran í garðinum við Aðalstræti 44 varla nema stór runni og því rataði hún ekki inn í bæklinginn. Nú hefur hún stækkað og vaxið og telst til efnilegra trjáa.

Rétt er að geta þess að það er Bergsveinn Þórsson sem ber veg og vanda af þessari kortasjá. Hún stækkar smám saman um leið og trén í bænum. Við tökum fagnandi við hverskyns athugasemdum er kortasjánni viðvíkur.

 
Mynd Bergsveins Þórssonar af hinni efnilegu furu sem birt er í kortasjánni.
Mynd Bergsveins Þórssonar af hinni efnilegu furu sem birt er í kortasjánni.

Tegundin

Við höfum áður sagt frá því að flokka má furur á Íslandi í þrjá flokka. Í einum þeirra eru furur sem hafa fimm langar nálar í hverju nálaknippi. Í öðrum eru svokallaðar broddfurur. Þær hafa fimm stuttar nálar í hverju knippi. Í þriðja flokknum eru svo furur sem hafa tvær eða þrjár fremur stuttar nálar í hverju knippi. Bergfurur fylla þann flokk ásamt nokkrum öðrum tegundum. Mest ræktaða fura landsins er stafafura. Hún tilheyrir sama flokki og geta þessar frænkur stundum verið nokkuð líkar. Ef vafi leikur á má skoða brumin. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru brum bergfurunnar ljósbrún að lit en brum stafafuru eru rauðbrún og gjarnan umlukin trjákvoðu.

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Eyrarland, gamla íbúðarhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
19. ágúst 2025 | kl. 10:00

Strandir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. ágúst 2025 | kl. 11:30

Í hita leiksins

Jóhann Árelíuz skrifar
17. ágúst 2025 | kl. 14:00

Steinvalan í öldugangi Öskjuvatns

Rakel Hinriksdóttir skrifar
17. ágúst 2025 | kl. 12:00

Gervisáli

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 18:00

Á fjöllum erum við öll í sama liði

Rakel Hinriksdóttir skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 14:00