Fara í efni
Pistlar

Arnold Arboretum

TRÉ VIKUNNAR - 129

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Eitt af því sem vér Íslendingar gerum svo gjarnan er að fara til útlanda. Þær ferðir má nýta til að víkka sjóndeildarhringinn á einn eða annan hátt. Fyrir áhugafólk um gróður og garða er tilvalið að heimsækja grasagarða sem víða er að finna. Hver þeirra hefur sín sérkenni og þar sem gróður er misjafn eftir árstíðum er oft vel þess virði að heimsækja suma þeirra eins oft og kostur er.
 
Inngangur inn í The Arnold Arboretum.

Inngangur inn í The Arnold Arboretum.

Við mælum með því að heimsækja sem flesta garða í útlöndum til að skoða tré og annan gróður. Kosturinn við grasagarðana er meðal annars sá að þar eru flest trén að jafnaði merkt með fræðiheiti tegundanna. Sum okkar átta sig þá strax á ættkvíslinni og stundum má rekast á óvænta kunningja í heimi trjáa. Það er ekki ósvipuð tilfinning og að rekast á gamla vini. Upplagt er að taka myndir af fallegum eða sérkennilegum trjám og taka einnig myndir af skiltunum með merkingunum. Þá er hægt að skoða myndirnar seinna og fletta upp tegundunum og finna um þær upplýsingar. Annar kostur við grasagarða er sá að þar er hægt að skoða líkar og skyldar tegundir. Plöntum og trjám er raðað eftir kerfum sem auðvelda gestum samanburðinn. Þessi pistill er sá fyrsti í umfjöllun okkar um erlenda grasagarða. Ef móttökurnar eru góðar þá verða þeir fleiri.

Röð af hvíteik, Quercus alba, í Arnold Arboretum í Boston í Bandaríkjunum.
Röð af hvíteik, Quercus alba, í Arnold Arboretum í Boston í Bandaríkjunum.

Lifandi safn

Eins og flesta grasagarða má líta á The Arnold Arboretum of Harvard University, eins og hann heitir fullu nafni, sem lifandi safn. Garðurinn er í Boston og er 113,7 hektarar að stærð. Til samanburðar má nefna að Lystigarðurinn á Akureyri er 3,7 hektarar. Því má ætla sér góðan tíma til skoðunar. Rétt er þó að geta þess að ekki eru allir þessir hektarar samliggjandi. Garðurinn er hluti af kennslu- og rannsóknargögnum Harvard háskóla sem leggur metnað sinn í að gera hann sem aðgengilegastan og fróðlegastan fyrir allan almenning jafnt sem nemendur og fræðimenn við skólann.

Mikill fjöldi hlyntegunda og -yrkja er í garðinum. Þær eru sérstaklega áberandi þegar fer að hausta. Myndirnar sýna Acer shirasawanum frá Japan sem heitir stjörnuhlynur á íslensku eftir laufblöðunum.

Grasafræðingar og nemar á vegum háskólans eru stundum sendir heimshorna á milli til rannsókna og þegar þeir taka með sér sýnishorn til baka er þeim gjarnan komið fyrir í garðinum. Við sögðum frá dæmi um slíka söfnun í pistli okkar um næfurhlyn. Í þeim pistli má sjá nokkrar myndir sem teknar eru í garðinum.

Auðvelt er að taka lest úr miðbænum að garðinum. Aðgangur að honum er ókeypis fyrir allan almenning og boðið er upp á dagskrá fyrir alla aldurshópa.

Acer triflorum tilheyrir sérstakri deiild innan hlynættkvíslarinnar. Kallast hún trifoliata. Við höfum áður sagt frá henni í þessum pistli.

Hvað er í garðinum?

Í garðinum er eitt stærsta safn trjáa og runna í heimi af tegundum sem þrífast í tempraða beltinu. Sérstök áhersla er lögð á plöntur frá austurhluta Norður-Ameríku og austur Asíu. Auk lifandi gróðurs eru þarna bókasöfn og skjalasafn til að styðja við rannsóknarhlutverk garðsins. Þangað koma fræðimenn hvaðanæva að úr heiminum en fyrir okkur almenning er alveg nægilegt að njóta garðsins.

Sá sem þetta ritar var svo heppinn að fá að heimsækja þennan garð 2. október árið 2012. Þá var sem garðurinn logaði í glæsilegum haustlitum. Sérstaklega voru það nokkrar hlyntegundir, bæði frá Ameríku og Asíu, sem voru ótrúlega glæsilegar. Allar myndirnar í þessari grein eru úr þeirri heimsókn. Við verðum einnig að geta þess að í nokkrum pistlum okkar um tré höfum við birt myndir úr garðinum af tilteknum trjám.

Frá vinstri til hægri: Japanshlynur, Acer palmatum, í rauðum haustlitum, súrstré, Oxydendrum arboreum, frá austurhluta Norður-Ameríku er í miðið og skartar gulum og grænum litum. Meðst áberandi er  yrki af japanshlyn, Acer palmatum, sem kallast  'Burgundy Lage'.
Frá vinstri til hægri: Japanshlynur, Acer palmatum, í rauðum haustlitum, súrstré, Oxydendrum arboreum, frá austurhluta Norður-Ameríku er í miðið og skartar gulum og grænum litum. Meðst áberandi er yrki af japanshlyn, Acer palmatum, sem kallast 'Burgundy Lage'.

 

Meira á vef Skógræktarfélagsins. 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

50 kall

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
01. september 2025 | kl. 11:30

Legið í gottinu

Jóhann Árelíuz skrifar
31. ágúst 2025 | kl. 06:00

Björgum heilsunni hið snarasta

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
30. ágúst 2025 | kl. 06:00

Elri. Hjálplegt, gagnlegt og fallegt

Sigurður Arnarson skrifar
27. ágúst 2025 | kl. 08:00

Númer

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. ágúst 2025 | kl. 11:30

Sól um hádegisbil

Jóhann Árelíuz skrifar
24. ágúst 2025 | kl. 06:00