Fara í efni
Pistlar

Akureyri.net býður í bíó á fimmtudag

Sýningar á kvikmyndinni 5. september (September 5) hefjast í Sambíóunum á fimmtudaginn, meðal annars á Akureyri. Í myndinni er fjallað um hörmulegan atburð á Ólympíuleikunum í München árið 1972 sem eldri kynslóðir muna án efa eftir. Sagan er sögð frá sjónarhóli fréttateymis bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar ABC og meðal annars af því tilefni býður Akureyri.net lesendum í bíó.

Fyrstur kemur, fyrstur fær! 

  • Sýningin á fimmtudaginn hefst kl. 20.00 og verður í stærri sal kvikmyndahússins
  • Fyrirkomulagið er þannig að áhugasamir fara í bíóið og sækja sér miða
  • Miðasalan er opnuð kl. 17.00 alla daga þannig að hægt er að næla sér í miða strax í dag

Í myndinni er fjallað um það þegar palestínskir hryðjuverkamenn tóku ísraelska íþróttamenn í gíslingu á Ólympíuleikunum í München 1972, þann 5. september, með hörmulegum afleiðingum. Að morgni dags gerðu bandarísku fréttamennirnir – íþróttafréttateymi frá ABC – ráð fyrir að fjalla um sund og hnefaleika en annað kom á daginn.

Í kynningu á myndinni hefur verið nefnt að framganga umræddra fréttamanna hafi breytt sjónvarpsumfjöllun til frambúðar og má til sanns vegar færa. Var það góð breyting eða slæm? Um það verður hver og einn og dæma en nærvera fréttateymisins og bein útsending hafði til dæmis afgerandi áhrif á mikilvægu augnabliki – en rétt er að fjalla ekki nánar um það hér, fyrir þá sem ekki þekkja málið en vilja skella sér í bíó.

Bandarískt fréttateymi á sumarólympíuleikunum í München í Þýskalandi árið 1972 þarf að beina athyglinni að dramatískri gíslatöku þar sem ísraelskum íþróttamönnum er haldið föngnum. Ungur framleiðandi, sem óvænt lendir í því að segja fréttir í beinni útsendingu, þarf að taka erfiðar ákvarðanir þegar klukkan tifar, orðrómur breiðist út og líf gíslanna hangir á bláþræði.

Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í ágúst á síðasta ári. Hún hefur hlotið afbragðs viðtökur og var m.a. tilnefnd sem besta kvikmynd á Golden Globe verðlaunahátíðinni og til Óskarsverðlauna fyrir besta handrit.

Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs er hryllilegt um þessar mundir eins og allir vita. Sumir þeirra gagnrýnenda sem lokið hafa lofsorði á myndina hafa einmitt nefnt það, eins og nærri má geta, en jafnframt að myndin sé mjög áhugaverð – ekki síst ef bíógestir geti tímabundið leitt hugann frá hörmungum á Gaza og setji hana ekki í  pólitískt samhengi við nútímann.

Leikstjóri myndarinnar er Tim Fehlbaum og aðalleikarar Peter Sarsgaard, John Magaro, Ben Chaplin og Leonie Benesch.

Gróðurhússbruninn

Jóhann Árelíuz skrifar
03. ágúst 2025 | kl. 06:00

Þessi þjóð er á tali

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
02. ágúst 2025 | kl. 06:00

Ótilhlýðileg framkoma í eitruðu starfsumhverfi

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
01. ágúst 2025 | kl. 09:30

Einkennisbarrtré suðurhvelsins

Sigurður Arnarson skrifar
30. júlí 2025 | kl. 09:00

Atlavík

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. júlí 2025 | kl. 11:30

Timburmenn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
27. júlí 2025 | kl. 06:00