Fara í efni
Pistlar

Skimun

Fræðsla til forvarna - XX

Skimun (screening) er það kallað þegar leitað er markvisst að sjúkdómum sem enn hafa ekki gefið einkenni eða einkennum sem ekki hafa vakið nægilega eftirtekt til þess að meðferð sé hafin. Mest umræða er um skimun krabbameina en skimað er fyrir mörgum fleiri sjúkdómum. T.d. skima heimilislæknar og geðlæknar fyrir geðsjúkdómum í löngun til þess að finna dulin einkenni sem fólk áttar sig ekki á sjálft eða til að geta hafið meðferð snemma. Slík skimun fer fram í viðtali eða með sérstökum spurningalistum.

Markvissar skimunaraðferðir eru verkfæri læknisfræði og lýðheilsufræði með aðstoð tölfræði. Um þetta er mikil þekking og margþætt reynsla. Að bjóða ómarkvissa heilskimun hljómar í eyrum þeirra sem þessa þekkingu hafa eins og að einhver opnaði hjartaskurðstofu í bílskúrnum hjá sér.

Skimun snýst ekki bara um líðan og líf heldur líka um kostnað. Það er mikill sparnaður í að greina og hefja meðferð snemma. En það gengur ekki að eyða óendanlega miklu í að finna sjaldgæfa sjúkdóma sem svo engin meðferð er til gegn ennþá. Vegna örar þróunar þekkingar í erfðafræðilegum skimunum er þetta leyst með samkomulagi um að leita aðeins að ákveðnum arfgerðum (actionable genotypes) sem líklegast er að gagnist best í forvörnum.
Það er til ágæt tækni til þess að greina Alzheimer sjúkdóm snemma og það er gert í heilbrigðiskerfinu. En það er ekki lagt í kostnaðarfreka skimun úti í samfélaginu vegna þess að enn eigum við ekki nægilega góðar meðferðir.

Nýgengi geðklofa er um 100 einstaklingar á ári. Það væri hægt að lækka það örlítið með snemmgreiningu. Skimun með geðskoðun í samfélaginu væri vel möguleg tæknilega séð en væri óhemju kostnaðarsöm og betra að leggja fjármagnið í meðferðir þegar sjúklingarnir greinast (án skimunar) eða forvarnir gegn geðklofa.

Skimun er nátengd forvörnum. Besta forvörnin er að fara vel með heilsuna og vanda samskipti. Öflugasta aðgerð hvers og eins og mætti kalla „eigin skimun“ er að fræðast og auka heilsulæsi og leita síðan til heilsugæslu ef einkenni koma fram eða breyting sem skoða þarf betur. Þess vegna er líka tíma heilsugæslulækna betur varið í viðtöl og skoðanir en yfirferðir á ómarkvissum rannsóknum.

Það er vel gerlegt að skima fyrir kulnun og öðrum forstigum sjúklegrar streitu með spurningalistum eða læknisskoðun. En við þurfum þess ekki. Við vitum að algengi þessarra sjúkdóma eykst á aðventunni. Í framtíðinni er vel mögulegt að það verði hægt að skima fyrir alvarlegri streitu með einhvers konar heila skanna eða erfðafræðilegri skimun. En það myndi líklega ekki skila miklu því forvarnirnar snúast um að fólk breyti bæði hegðun sinni og hugsun og það er álíka erfitt og að hætta að reykja.

Og í þessu tilefni leyfi ég mér að minna á að þið reynið af öllum mætti að draga úr álagi næstu vikurnar og notið tímann til endurhleðslu.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Hrossakjöt í þriðja hvert mál

Orri Páll Ormarsson skrifar
20. september 2024 | kl. 06:00

Skógar sem vatnsdælur

Sigurður Arnarson skrifar
18. september 2024 | kl. 10:30

Temjum tæknina III: Uppfærð kortasjá og ný heimasíða

Magnús Smári Smárason skrifar
17. september 2024 | kl. 14:15

Skemman

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. september 2024 | kl. 13:00

Víti til varnaðar

Jóhann Árelíuz skrifar
15. september 2024 | kl. 06:00

Hrós

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. september 2024 | kl. 11:00