Nú árið er liðið …
Árið birtist í meðvitund mannsins ekki aðeins sem mæld tímalengd eða hugtak heldur höfum við innri tímamynd sem mótast af minningum, líkamsklukku, hefðum og menningu. Þessi tímamynd sem við upplifum eða sjáum fyrir okkur, mismikið meðvituð, getur haft ólík form. Sumir sjá þetta fyrir sér sem texta á blaði. Það sem er til vinstri er liðið, það til hægri er framundan. En þeir sem eru ólæsir sjá tímann frekar sem víðáttu eða landslag. Margir skynja árið sem beina línu, sem leiðir áfram og inn í framtíðina. Aðrir sjá árið fyrir sér sem hring og skynja þá sterkar endurtekningu árstíðanna og hringrás náttúrunnar. Og stundum er hringurinn örlítið beyglaður eða sporöskjulaga. Það er áhugavert hvernig tímaskyn okkar er nátengt rúmskyni, ekki síst í ljósi þess að geimvisindamenn segja okkur að tími (time) og rúm (space) séu nátengd fyrirbæri.
Já, hvernig upplifir þú árið innra með þér?
Þessi upplifun er nátengd meðvitund og vöku og er samsett úr virkni frumna í framheila sem sjá um spá og framtíðarsýn. Þær tengjast svo minnisfrumum nálægt yfirborði hliðarhluta heilans og tilfinningasvæðum í djúpheilanum sem móta upplifun okkar á tímanum, t.d. hvort hann leið hraðar eða skemur. Núvitund, hugleiðsla og þegar staldrað er við tímamót, eins og áramótin, gerir okkur meðvitaðri um tímann. Um það sem er liðið, gamalt og gott. Og vekur spurningar, tilhlökkun og væntingar til þess sem er framundan. Þegar þannig stendur á er líka fróun í að kveðja tímabil sem var erfitt og fagna nýju sem ber með sér von um betri tíma.
Gleðilegt ár!
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir
Jólin í eldgamla daga – Svanhildur Anna
Jólahefðirnar mínar – Sigrún Dania
Jólahefðirnar mínar – Ýma Rúnarsdóttir
Jólahefðirnar mínar – Þórdís Sunna