Fara í efni
Pistlar

Reynirjóðrið í Vaðlaskógi

TRÉ VIKUNNAR - XXIX
 

Vaðlaskógur er einn af ellefu skógarreitum í umsjá Skógræktarfélags Eyfirðinga. Af reitum félagsins er Kjarnaskógur mest sóttur en allir hafa þeir sinn sjarma og við leggjum metnað okkar í að sinna þeim öllum eins og fjárráð og tími leyfa. Allir reitirnir eru afrakstur margra áratuga starfs þar sem framsýni, ósérhlífni og hugsjónir fyrir bættu umhverfi var leiðarstef mikillar sjálfboðavinnu.

Við viljum að skógarreitirnir séu mismunandi og hver og einn hafi sína sérstöðu. Á heimasíðu okkar má sjá hvar þessa reiti er að finna. Gott er að hafa í huga að þetta eru skógarreitir en ekki skrúðgarðar og umhirða er í samræmi við það og miðast við það fjármagn sem félagið hefur yfir að ráða. Hlutverk okkar er að vernda þessa skóga, bæta þá, efla og viðhalda. Þar verðum við að passa að skyndigróði ásamt vaxtar- og hagvaxtarkröfum séu ekki alltaf sett ofar öðru gildismati. Við höfum einnig það hlutverk að kynna þessa skóga fyrir almenningi svo að sem flestir geti nýtt sér þá til andlegrar og líkamlegrar heilsu. Öllum er heimil umferð um skógarreiti Skógræktarfélags Eyfirðinga.

 
Reyniber í Reynirjóðrinu í Vaðlaskógi. Mynd: Sig.A.

Fjölmargir sækja Vaðlaskóg heim til að njóta þar útivistar. Þar er fjölbreyttur skógur með yfir 40 trjátegundum og göngustígum sem eru í nokkuð mismunandi ástandi. Mismunandi stígar gera það að verkum að upplifun af göngu um skóginn er allt önnur en þar sem allir stígar eru vandaðir og góðir. Þarna fær fólk frekar á tilfinninguna að það sé í villtum skógi, þótt trjánum hafi verið plantað. Nú er kominn nýr hjólreiða- og göngustígur sem eykur aðgengið að norðanverðum skóginum. Stígurinn nær frá nýju jarðgöngunum (töluvert utan við okkar skóg) og að bílastæðum Skógræktarfélagsins á móts við Skógarböðin. Upphaflega voru þau gerð til að bæta aðgengi að skóginum í kjölfar þess að þjóðvegur númer 1 var lagður í gegnum skóginn. Nú hafa þessi bílastæði verið malbikuð í tengslum við gerð Skógarbaðanna. Þau standa að sjálfsögðu öllum gestum skógarins til boða, hvort sem þeir ætla í bað eða ekki, enda eign Skógræktarfélagsins.

 
Innkoman í reynirjóðrið frá suðri. Reynibeltið við endann. Mynd: Sig.A.

Staðsetning reynirjóðursins

Í skóginum er að finna nokkur ágæt rjóður þar sem gott er að setjast niður og gæða sér á nesti eða njóta umhverfisins. Norðan við eitt af þessum rjóðrum hefur verið plantað áberandi belti af reynivið, Sorbus aucuparia. Þess vegna hefur þetta rjóður verið kallað Reynirjóðrið. Það er skammt sunnan og ofan við Skógarböðin sem eru áberandi kennileiti í skóginum. Hægt er að ganga að rjóðrinu, hvort sem er að sunnan eða norðan. Ef gengið er að því að norðan má ganga upp hjá þyrlupallinum sem reistur hefur verið í óleyfi og þrengir að einum stígnum sem þarna er að finna. Þar má þó vel ganga. Einnig er hægt að koma að rjóðrinu úr suðri. Þá er hægt að ganga frá bílastæðinu sem Skógræktarfélagið á í suður eftir nýlögðum og góðum göngustíg. Það eru eigendur Skógarbaðanna sem lagt hafa þennan stíg. Á einum stað skiptir stígurinn um lit. Verður dökkur í stað þess að vera ljós. Þar er hægt að ganga af stígnum og er þá fljótlega komið að litlum skógarstíg sem liggur beint upp að rjóðrinu.

 

Gamalt kort af Vaðlaskógi. Reynirjóðrið er merkt við kennileitið Grástein en er ekki nafngreint á kortinu. Mynd: Skógræktarfélag Eyfirðinga/Bergsveinn Þórsson.

Verklegt reynibelti

Hér að framan er talað um reynibeltið sem gefur rjóðrinu nafn. Því er rétt að minnast aðeins á það. Vel má vera að það hafi verið hugsað sem skjólbelti en nú er birki þarna allt í kring svo það gegnir því hlutverki ekki lengur. Svo getur verið að á sínum tíma hafi unnið að gróðursetningunni góðir menn sem vildu að gróðursetningin væri „verkleg“ eins og það var kallað. Það þótti ekki öllum verklegt að planta óreglulega, en beinar línur voru taldar þeim mun verklegri. Þetta var hugsunarhátturinn á þeim tíma. Má sem dæmi nefna að Sigurður heitinn Blöndal, sem var skógræktarstjóri frá 1977 til ársloka 1989, hefur sagt frá því að einu sinni átti að gera tvo akvegi, upp í gegnum Hallormsstaðaskóg frá þjóðveginum. „Til þess að þeir væru örugglega samsíða voru þeir teknir með kompás“ sagði Sigurður. „Annars var hætta á að þeir sem væru handan við Fljótið tækju eftir því og teldu að þetta væri ekki nógu verklegt“ sagði Sigurður – og kímdi við yfir þessum vinnubrögðum. Nú eru vinnubrögðin önnur og í skógrækt er víðast hvar reynt að forðast beinar línur svo skógurinn hafi sem náttúrlegast yfirbragð.

 

Verklegt reynibelti við Reynirjóðrið. Mynd: Sig.A.

Aðalfundur

Þegar aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn á Akureyri árið 2000 fóru gestir fundarins í eftirminnilega göngu um skóginn og enduðu í kaffi heima hjá þáverandi formanni félagsins, Vigni Sveinssyni. Í ferðinni var komið við í þessu rjóðri og nokkrum ágætum en fágætum trjátegundum plantað. Því miður fór það svo að næstu vikur á eftir komu ákaflega óvæntar holur í skóginn þar sem sum hinna nýrri trjáa stóðu áður og trén hurfu með öllu. Úr þessu getum við lítið sagt við því nema hvað við vonum að hinir nýju eigendur trjánna njóti þeirra sem best og hugsi hlýlega til félagsins.

Þessi tegund gengur undir nöfnunum rauðelri eða svartelri. Það þekkist frá öðru elri á snubbóttum laufum eins og sjá má á seinni myndinni. Myndir: Sig.A.

Ekki var þó öllum trjánum stolið. Þarna er nú að finna stórglæsilegt degli, Pseudotsuga menziesii. Eldri degli eru til í norðurhluta skógarins en það verður að segjast eins og er að þetta er miklu fallegra tré en þau. Framan við deglið í reynirjóðrinu stendur fallegt elritré. Er það af tegundinni rauðelri sem einnig hefur verið nefnt svartelri, Alnus glutinosa. Myndir af þessum trjám er að finna hér í greininni. Frá þessum tíma er einnig ein hengibjörk, Betula pendula, sem stendur alveg við annað birki, efst í rjóðrinu og er ekki mjög áberandi, enn sem komið er. Þessi tré eru án efa hluti af mörgum perlum sem finna má í skóginum.

 

Deglið í reynirjóðrinu er ákaflega formfagurt. Mynd: Sig.A.  

Smellið hér til að lesa allan pistil Sigurðar

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

     

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30

Mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu

Sigurður Arnarson skrifar
10. apríl 2024 | kl. 11:00

Sparksleði

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. apríl 2024 | kl. 11:30