Fara í efni
Pistlar

Hástig líffjölbreytni: Skóglendi

TRÉ VIKUNNAR - 144

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Um langa hríð hefur tegundin maður valdið sífellt hraðari og víðtækari breytingum á vistkerfi jarðar sem að stórum hluta eru óafturkræfar. Því er ekki að undra þótt mikið hafi verið ritað um líffræðilegan fjölbreytileika undanfarin misseri. Hugtakið er nokkuð langt og stirt. Þess vegna hefur það verið stytt niður í líffjölbreytni í seinni tíð.
 

Þrátt fyrir að flestir séu sammála um hnignun líffræðilegrar fjölbreytni virðist ekki vera fullur einhugur um hvernig meta beri ástandið eða hvaða kvarða eigi að nota til að meta það. Vistkerfi breytast bæði í tíma og rúmi. Sumir líta á breytingarnar sem ógn við líffjölbreytileika, en aðrir telja í fyllsta máta eðlilegt að framvinda eigi sér stað í vistkerfum og að þau taki breytingum með tímanum. Það er ekki samasemmerki á milli breytinga á vistkerfum og hnignunar þeirra. Ef vel er staðið að skógrækt geta skógar aukið líffjölbreytni vistkerfa. Það lítum við á sem jákvæða þróun. Því fögnum við aukinni skógrækt. Líta má á þennan pistil sem framhald af pistlinum Líffjölbreytileiki í skógum sem við birtum 22. október 2025.

 
Víða um heim er plantað skjólbeltum og skógarreitum til að mynda skjól og auka líffræðilega fjölbreytni. Hér má sjá fjölbreyttar tegundir trjáa og runna í Skotlandi sem afmarka graslendi og akra. Líta má á svona belti sem vegi dýranna. Sjá má sauðfé á beit í afgirtu hólfi efst til vinstri. Mynd: Sig.A.
Víða um heim er plantað skjólbeltum og skógarreitum til að mynda skjól og auka líffræðilega fjölbreytni. Hér má sjá fjölbreyttar tegundir trjáa og runna í Skotlandi sem afmarka graslendi og akra. Líta má á svona belti sem vegi dýranna. Sjá má sauðfé á beit í afgirtu hólfi efst til vinstri. Mynd: Sig.A.

Í þessum pistli segjum við frá því að hástig líffjölbreytni í heiminum er að jafnaði að finna í skógum. Þá erum við ekki bara að tala um trjátegundirnar sjálfar eða annan gróður sem finna má í skógum enda nær líffjölbreytni til allra lífvera. Okkar hlutverk er ekki eingöngu að vernda líffjölbreytileikann þar sem það á við og í því ástandi sem hann er í á hverjum tíma, heldur að stuðla að aukningu hans svo hann eflist og dafni. Sérstaklega á þetta við um svæði þar sem gróðri og líffélögum hefur verið eytt eða hrakað stórkostlega eins og gerst hefur á Íslandi. Við teljum ekki sérstaka ástæðu til að varðveita manngerðar eyðimerkur eða hnignunarsamfélög sem orðið hafa til vegna rányrkju undanfarinna alda.

Þar sem hægt er að endurheimta vistkerfi er það hið besta mál. Stundum er mögulegt að fara í aðgerðir sem ætlað er að endurheimta vistkerfi á forsendum náttúrunnar sjálfrar. Kallast það vistheimt. Við viljum alls ekki gera lítið úr slíkum verkefnum en þar sem vistkerfi eru síkvik getur þetta verið strembið og stundum óvíst hvaða mælistikur ber að nota til að meta árangur verkefnanna. Þegar vel tekst til með slíka vistheimt er eins og landið, sem til verður, hljóti alltaf að hafa verið þannig. Má nefna endurheimt sumra votlendisvistkerfa sem dæmi. Einnig er endurheimt birkiskóga í Leyningshólum og friðun Krossanesborga af sama meiði.

 
Dæmi um velheppnaða endurheimt votlendis. Höfðavatn á Héraði og nærliggjandi mýrlendi var endurheimt með stíflu sem sést neðst á myndinni. Nú er eins og skógarnir og votlendið hafi verið þarna alla tíð. Í ásunum ofan við vatnið fannst blæösp þegar beitaránauð létti. Eykur hún enn á líffjölbreytni svæðisins. Mynd: Þröstur Eysteinsson.
Dæmi um velheppnaða endurheimt votlendis. Höfðavatn á Héraði og nærliggjandi mýrlendi var endurheimt með stíflu sem sést neðst á myndinni. Nú er eins og skógarnir og votlendið hafi verið þarna alla tíð. Í ásunum ofan við vatnið fannst blæösp þegar beitaránauð létti. Eykur hún enn á líffjölbreytni svæðisins. Mynd: Þröstur Eysteinsson.

Vandasamt getur verið að finna viðmið fyrir svona endurheimt. Það vakna til dæmis spurningar um við hvaða tíma sé rétt að miða. Má nefna sem dæmi að á Íslandi eru allskonar plöntur, sveppir og dýr sem ekki voru hér fyrir landnám. Því vakna upp spurningar um hvort hindra eigi sumar lífverur á endurheimtum svæðum en aðrar ekki. Hvaða lífverur komast þá í gegnum það nálarauga og hvernig á að dæma þær hæfar eða óhæfar? Varla dugar að setja það viðmið að lífverur sem komu hingað á undan hreindýrunum séu æskilegar en þær sem komu á eftir þeim séu vondar og óæskilegar? Við getum nefnt að í Krossanesborgum má finna ýmsar tegundir plantna sem hafa slæðst þangað úr ræktun. Má nefna viðju, lerki, stafafuru og alaskalúpínu sem dæmi. Allt eru þetta innfluttar tegundir.

Annar möguleiki er að reyna að auka líffjölbreytileikann þar sem það er hægt frekar en að endurheimta glötuð vistkerfi. Því miður hefur stundum borið á þeim málflutningi að skógrækt með innfluttum trjátegundum geti á einhvern hátt dregið úr líffjölbreytileika. Við getum ekki séð að verndun líffræðilegrar fjölbreytni sé best tryggð með því að Ísland haldist áfram því sem næst skóglaust og að sem fæst tré fái að vaxa á landinu. Líffjölbreytni getur ekki haft það að leiðarljósi að fjölda tegunda lífvera skuli haldið í lágmarki. Því hljóta flestir að fagna aukinni skógrækt, einkum ef vistkerfisþjónustan eykst í leiðinni. Þannig verður líffræðileg fjölbreytni best tryggð. Um vistkerfisþjónustu skóga verður fjallað í sérstökum pistli í fyllingu tímans en nú höldum við áfram að skoða áhrif skóga á líffjölbreytni eins og við gerðum í pistlinum sem við nefndum í inngangi.

 
Birkið í Leyningshólum hefur ekki alltaf verið svona vöxtulegt og þétt eins og hér má sjá. Hér er lýsing sem skrifuð var árið 1950: „Eini skógurinn, sem velli hefir haldið í öllu héraðinu, [Eyjafirði] er skógurinn í Leyningshólum. Skógurinn liggur í hlíðarbrekkum suður og upp frá bænum Leyningi og suður undir Torfufellsá. Ekki er þar þó um samfelt skóglendi að ræða, heldur er skógurinn í torfum og autt land á milli.  Sunnan að skógartorfunum liggja örfoka melar, og er sýnilegt, að þar hefir uppblástur fylgt fast eftir, þegar skógurinn hefir eyðst. Var honum mikil hætta búin af uppblæstri, enda höfðu torfurnar gengið saman í tíð núlifandi manna. Skógræktarfélag Eyfirðinga lét girða mestan hluta þessa skóglendis á árunum 1937-1938. Flatarmál hins girta svæðis er um 50 ha, en af því eru um 35 ha alvaxnir skógi.“ (Steindór Steindórsson frá Hlöðum 1950).
Birkið í Leyningshólum hefur ekki alltaf verið svona vöxtulegt og þétt eins og hér má sjá. Hér er lýsing sem skrifuð var árið 1950: „Eini skógurinn, sem velli hefir haldið í öllu héraðinu, [Eyjafirði] er skógurinn í Leyningshólum. Skógurinn liggur í hlíðarbrekkum suður og upp frá bænum Leyningi og suður undir Torfufellsá. Ekki er þar þó um samfelt skóglendi að ræða, heldur er skógurinn í torfum og autt land á milli. Sunnan að skógartorfunum liggja örfoka melar, og er sýnilegt, að þar hefir uppblástur fylgt fast eftir, þegar skógurinn hefir eyðst. Var honum mikil hætta búin af uppblæstri, enda höfðu torfurnar gengið saman í tíð núlifandi manna. Skógræktarfélag Eyfirðinga lét girða mestan hluta þessa skóglendis á árunum 1937-1938. Flatarmál hins girta svæðis er um 50 ha, en af því eru um 35 ha alvaxnir skógi.“ (Steindór Steindórsson frá Hlöðum 1950). 

Alfa, beta, gamma

Fyrirsögnin sýnir okkur nöfnin á þremur fyrstu stöfunum í gríska stafrófinu. Heiti þeirra hafa stundum verið nýtt til að tákna þá kvarða sem notaðir eru til að tákna líffjölbreytni. Því er rétt að segja stuttlega frá þeim en ítarlegri umfjöllun var í pistlinum Líffjölbreytileiki í skógum sem áður var nefndur. Kvarðarnir eru stærri eftir því sem lengra kemur í stafrófið.

Alfa (α) er notað til að mæla tegundafjölda og breytingar á tegundafjölda á tilteknu, afmörkuðu svæði. Að jafnaði eru þau svæði lítil og skýrt afmörkuð. Oftast eru tekin nokkur alfasvæði til að gera samanburðinn betri.

Beta (β) er notað til að meta og bera saman svæði á stærri skala. Ef ein tegund berst inn á tiltekið svæði og leggur undir sig alfa-mælireit minnkar líffjölbreytni á alfakvarða á þeim tiltekna mælireit en á sama tíma getur orðið aukning á betakvarða því tegundum fjölgar í heildina.

Gamma (γ) er notað þegar bera skal saman svæði milli tiltekinna vistgerða á sama svæði sem stundum eru skilgreind mjög vítt. Þannig má til dæmis skoða líffjölbreytileika í Eyjafirði alveg sérstaklega. Í fjölbreyttu landi getur land skorað hátt á gammakvarða þótt í hverri vist séu fáar tegundir og þar með lágt skor á alfakvarða. Þessar hugmyndir voru upphaflega settar fram að bandarískum grasafræðingi að nafni R. H. Whittaker (1920-1980).

Rétt er að taka fram að stundum er einungis fjöldi plantna notaður til að meta líffjölbreytileika á tilteknu svæði. Það segir þó alls ekki alla söguna. Matið þarf að ná til allra lífvera á svæðinu ef vel á að vera eins og vel kemur fram í lögum um náttúruvernd frá 2013. Aukin gróska merkir nær alltaf aukningu í lífríkinu en getur haft tímabundnar neikvæðar afleiðingar á alfakvarða ef aðeins plöntur eru skoðaðar og taldar. Þetta sést til dæmis þar sem illa farið land er friðað fyrir beit og gróskumiklar tegundir nema land og breiða úr sér. Ef aðeins er reynt að meta fjölda plöntutegunda og jafnvel aðeins í tilteknum reit mætti ætla að það dragi verulega úr líffjölbreytni, en niðurstöður verða aðrar ef beta og gamma er bætt við og enn meiri verður fjölbreytnin ef aðrar lífverur eru einnig skoðaðar eins og vera ber.

Enn er ónefnt að breytingar á alfa, beta og gamma geta orðið með tíma án þess endilega að mannskepnan komi þar við sögu nema þá óbeint. Þannig breytist til dæmis vistkerfi Surtseyjar ár frá ári. Þar verða breytingar á öllum þremur kvörðunum á milli ára sem ná til alls lífríkisins. Með því öllu saman er fylgst af töluverðri nákvæmni af mörgum af okkar færustu vísindamönnum á þessu sviði. Þess vegna er ekki ætlast til að almenningur heimsæki þessa einstöku tilraunastöð náttúrunnar sjálfrar. Þarna fær náttúran að njóta vafans.

 

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Þúsund ær á fæti

Jóhann Árelíuz skrifar
21. desember 2025 | kl. 06:00

Gamla-Gróðrarstöðin og garðyrkjuskólinn sem aldrei varð

Sigurður Arnarson skrifar
17. desember 2025 | kl. 10:00

Þakklæti

Guðrún Arngrímsdóttir skrifar
16. desember 2025 | kl. 06:00

Þegar mamma eyðilagði jólin

Þráinn Lárusson skrifar
14. desember 2025 | kl. 17:00

Orustan um Waterloo

Jóhann Árelíuz skrifar
14. desember 2025 | kl. 06:00

Gefjun skóp ekki annan Játvarð Loðvík

Orri Páll Ormarsson skrifar
12. desember 2025 | kl. 12:00