Fara í efni
Pistlar

Kjaftagleiðir Akureyringar

Að svamla í sundi er sérdeilis gott, þá sjaldan maður nennir. Hápunkturinn er yfirleitt að dorma í heita pottinum, svona þegar það er hægt fyrir ærslafengnum krakkaormum eða slúðurtenntum kvenpersónum. Jæja, stundum eru þetta karlar líka sem láta móðann mása en vissulega mun sjaldnar. Eins er þetta í klippingu, maður slakar á og leyfir hárskeranum að vinna sitt verk en í næstu stólum virðist fólk vera mætt til sálfræðings. Hvað veldur því að varkárasta fólk verður skyndilega opið niður í rass ef það fer í heitan pott eða í klippingu?

Sjálfur fer ég reyndar frekar sjaldan í klippingu núorðið, ég beiti gjarnan þar til gerðri rakvél með hjálpartækjum heima við og bið svo konuna að snyrta hnakkalínuna. Engu að síður veit ég nóg til að staðhæfa að málstöðvarnar mala enn mjúklega á flestum rakara- og hárgreiðslustofum. Ég man alltaf þegar félagi minn kom skekinn úr klippingu og skildi ekkert í því hvernig fagmanneskjan með skærin vissi alltaf meira um það sem var að gerast á vinnustaðnum hans en hann sjálfur.

Það væri af nógu af taka ef ég ætti að rifja upp allar pottasögurnar sem hafa seytlað inn í hlustir mér í slökuninni. Gallinn er bara sá, eins og var stundum nefnt við mig í árdaga, að kjaftasögur festast ekki í kollinum á mér og ég gleymi líka alltaf að láta þær ganga til að halda þeim á floti. Hins vegar hljóta margir að kveikja á perunni þegar ég segi að maður heyrir oft óþægilega nákvæmar lýsingar á heilsufari, læknisaðgerðum, ástarlífi og hægðum misókunnugs fólks þegar ætlunin er að safna kröftum í pottinum.

Sumir kunna að loka eyrunum. Ég reyni. Það er bara of erfitt. Ég hef legið og morrað og hlustað á fólk í kringum mig hallmæla kennurum almennt eða tekið nafngreinda kennara fyrir og farið illum orðum um þá. Skyldu þessir kjaftagleiðu pottverjar ekki geta gert sér í hugarlund að ég eða hinir sjö í pottinum gætu tilheyrt kennarastéttinni? Halda þeir kannski að ég sé Færeyingur eða fáviti nema hvort tveggja sé? Hvernig dettur þeim í hug að nafngreina fólk og drulla yfir það í svona afmörkuðu samfélagi?

Jæja, stundum heyri ég æsilegar kjaftasögur af ókunnugu fólki, sem ég gleymi jafnóðum og þær ná yfirleitt ekki að raska því hvað ég er sultuslakur í pottinum. Þegar komið er út í krassandi sjúkdóma- og læknasögur þá sperri ég þó eyrun ósjálfrátt enda hef ég verulegan áhuga á viðfangsefninu. Reyndar er ég minna spenntur fyrir starfsemi ristilsins, mjúkum og ríkulegum hægðum eða tregum og svo þvagleka og öðru slíku en flestum öðrum læknisfræðilegum atriðum. Eyrun stækka mest þegar rætt er um gigt, stoðkerfisvanda, lyf og læknamistök. Oft djúsí stöff þar á ferð, eins og ég myndi segja ef ég væri ekki íslenskukennari. Þarna er ég líka á heimavelli en myndi þó aldrei blanda mér í umræðuna.

Ég veit ekki hvort ég er að ljúga en mig minnir að ég hafi eitt sinn í heitum potti, hvar stútar tveir gefa býsna kröftugt nudd, rætt við félaga minn sem á við geðrænan vanda að stríða um stöðu hans og meðferð. Jú, ég get upplýst að þetta var Aðalsteinn Öfgar. Hann virtist ekki gera sér grein fyrir að við vorum 12-15 í pottinum og sú tala hélst meðan við ræddum almennt um hvernig okkur liði í honum, hvað við værum að eta og hvaða lyf væru að virka. Á hinn bóginn fækkaði ört í pottinum þegar hann sagði frá síðustu dvöl sinni í geðdeildinni og hvernig hann væri að reyna að vinna í sínum málum út frá grunnelementunum sem eru geðhvörf og alkóhólismi.

Þótt minnið sé gloppótt man ég þetta vel því það liðu ekki margir dagar frá þessu „trúnaðarsamtali“ í nuddpottinum að ég heyrði velmektugar frúr endursegja sögu Alla vinar míns í liggipottinum þar sem ég var að slaka á í hádeginu. Gallinn var bara sá að það sem Aðalsteinn Öfgar hafði sagt mér sem harla hversdagslega heilsufarsstöðuuppfærslu var nú orðið að einhverju rótnagandi skrímsli sem vældi og glefsaði og slefaði með slúðurtenntum skoltum, afbakaði og bruddi hvert sannleikskorn í frumeindir uns eftir stóð massi ömurleika, fávísi og fordóma.

Lifið heil.

Stefán Þór Sæmundsson er íslenskukennari og skáld

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Íþróttasíða Halls Símonarsonar

Jóhann Árelíuz skrifar
08. desember 2024 | kl. 13:00

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00

Grenivík

Jón Óðinn Waage skrifar
04. desember 2024 | kl. 13:00

Jólatré við JMJ og Joe's

Sigurður Arnarson skrifar
04. desember 2024 | kl. 10:30