Fara í efni
Pistlar

Fallegt að fylgja hjartanu

ÞESSI ÞJÓÐ – 9

Hann var nýlega kominn úr meðferð á Vogi og Vík og gjörsamlega að springa af létti, von og bjartsýni. Fjölskyldan hafði á meðan sótt sér fróðleik um fíknsjúkdóma á göngudeild SÁÁ og þau voru nú öll reiðubúin að hefja nýtt og allsgáð líf með þeim verkfærum sem nauðsynleg teljast. Maðurinn sótti fundi og stuðning og iðraðist aðeins þess að hafa ekki farið fyrr í þetta prógramm. „Eiginlega ættu allir að fara í svona meðferð og á fundi, það er svo mannbætandi. Og það ætti að banna áfengi og önnur fíkniefni!“ hrópaði hann yfir götur og torg. Hann var svo hamingjusamur... að hann var gjörsamlega óþolandi.

Kannast lesendur við svona lýsingar? Það mætti líka skipta meðferðinni út fyrir trúarbrögð, stjórnmálaskoðanir, íþróttafélag, umhverfisvitund, villiketti, stuðning við Palestínu, hlaup, mataræði, kynvitund, samfélagsmiðla eða hvaðeina sem þessi þjóð fær á heilann og lifir fyrir hverju sinni. Stundum er þetta skammvinnt æði, stundum hjartans mál sem fylgir viðkomandi jafnvel ævilangt og mótar persónu hans. Og því fer fjarri að ég ætli að tala niður hreint hjartalag og fallegar hugsjónir því þótt ég geti verið kaldhæðinn á köflum þá sýnir reynslan að við þurfum eldhuga á mörgum sviðum til að breyta samfélagi.

Gott og vel. Sá sem sífrar um það eitt mánuðum eða árum saman að Bakkus sé bölvaldur og hinir og þessir ættu að koma sér í meðferð, allaveg prófa að kíkja á fund, láta tappann í flöskuna og þar fram eftir götunum er ekki líklegur til almennra vinsælda og því stimplaður óþolandi af 80-90% þeirra sem umgangast hann. Þeir sem kjósa að vera edrú eða hirða lítt um áfengar veigar þurfa ekki vera með stöðugan áróður þótt vissulega megi þeir sýna stuðning og hafa góð áhrif þar sem við á. Sömuleiðis ættu þeir sem nota áfengi vandræðalaust ekki að vera að bögga hina eða einblína á enn greiðara aðgengi að göróttum drykkjum.

Nóg um það. Ég ræddi síðast um skautun og annaðhvort/eða menningu hjá vorri þjóð og þessi pistill kemur í beinu framhaldi. Fólk fær ýmislegt á heilann, af köllun, hugsjón eða annarri ástæðu og getur virkað „óþolandi“ í augum annarra sem deila ekki sömu skoðunum og hugsjónum eða hafa einfaldlega ekki jafn mikla orku í málið. Það er virðingarvert að berjast fyrir öllum þeim sem minna mega sín. Skynsemin segir kannski að óraunhæft sé að finna öllum flækingsköttum heimili eða framleiða raforku án virkjana. Fólk sem hugsar bara um útlit og líkamsrækt, hlaupaleiðir eða þyngdarstjórnun fer í taugarnar á þeim sem hugsa um annað. Einstaklingur sem lifir og hrærist í heimi einhvers stjórnmálaafls, íþróttafélags eða lífsskoðunarfélags getur hæglega málað sig út í horn með of mikilli ákefð.

Umburðarlyndi er lykilatriðið. Ekki amast við þessu áreiti eða áróðri eða gera gagnárás. Sumt fólk er „einsmálsfólk“ og hrúgar sinni skoðun inn á samfélagsmiðla og talar vart um annað og þeir sem ekki fylgja sömu sannfæringu verða einfaldlega að leiða þetta hjá sér. Rækta sína eigin styrkleika, ekki eyða púðri í það að saurga skoðanir og hugsjónir annarra. Margt af þessu „óþolandi“ fólki er aðeins sönnun þess að manneskjan býr enn yfir umhyggju og sumir hafa risastóran faðm. Ég viðurkenni að ég þarf stundum að hvíla mig á fólki (t.d. snúsa í 30 daga á fésbók) þegar áróðursmagnið verður yfirþyrmandi en að ætla að hafa vit fyrir öðrum eða æsa sig á netinu er oftast dauðadæmt. Segi bara eins og þungarokkarar: Ekki vera fáviti.

Stefán Þór Sæmundsson er skáldhneigður og annað hvort meðvirkur eða mannasættir

Blómabíllinn, Pissubíllinn

Jóhann Árelíuz skrifar
21. september 2025 | kl. 06:00

Þegar Þorpið kom suður

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. september 2025 | kl. 10:00

Blásitkagreni

Sigurður Arnarson skrifar
17. september 2025 | kl. 08:30

Reykt

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. september 2025 | kl. 11:30

Meistari málsins

Skapti Hallgrímsson skrifar
14. september 2025 | kl. 21:30

Sveitasæla

Jóhann Árelíuz skrifar
14. september 2025 | kl. 06:00