Þessi þjóð er hrædd við útlendinga

ÞESSI ÞJÓÐ – 4
Fámenn þjóð með örsmátt málsamfélag og brothætta menningu hefur örugglega haft fulla ástæðu til að óttast útlendinga. Skandinavar, Bretar og Bandaríkjamenn hafa haft hér mikil áhrif og jafnvel ráðið landi og þjóð um tíma og Baskar, Hollendingar og fleiri fiskimenn voru á öldum fyrr uppi í flæðarmálinu hjá okkur. Flest þekkjum við fræknar sögur úr sjálfstæðisbaráttunni gagnvart Dönum, þorskastríðinu gegn Bretum og svo kannski ekki eins kræsilegar heimildir um það hvernig við brytjuðum niður baskneska skipbrotsmenn fyrir vestan. En við munum auðvitað Tyrkjaránið; ógnin kemur að utan og sumir landsmenn eru enn á svipuðum stað og 1627, að óttast að útlendingar ræni okkur á einn eða annan hátt.
Í dag er hugtakið útlendingaandúð í hæsta máta hlálegt enda lifum við í fjölmenningarsamfélagi - hver svo sem ákvað að það skyldi vera raunin en það er annar handleggur. Ég er umvafinn svokölluðum útlendingum, sem eru innflytjendur hér og það er bara hið besta mál. Við hjónin eigum tengdadætur frá Póllandi, Kína og Kanada/Lettlandi svo eitthvað sé nefnt og kunningjar og vinnufélagar margir hverjir eru innflytjendur og svo auðvitað fólk sem maður hittir t.d. í þjónustugeiranum. Eðlilegasti hlutur í heimi, finnst manni í dag.
Þegar ég var ungur voru sárafáir útlendingar á Akureyri. Ein var amma mín, Irene Gook, en sem barn skildi ég lengi vel ekki hvernig ég gat átt enska ömmu. Svo var Philip Jenkins að kenna á píanó hér í bæ og Kurt Sonnenfeld var tannlæknir. Nú, Jögvan Purkhus Færeyingur tengdist Sjónarhæð og Ástjörn, sem ég ólst upp við og mig rámar í einhverja sem höfðu viðurnefnið danski og norski. Svo var einn hollenskur, Hermann Huijbens. Sennilega er það þá upptalið en fyrsti blökkumaðurinn sem ég man eftir var Ívar Webster sem lék körfubolta með Þór í kringum 1980.
Fólk má alveg sífra um þá gömlu góðu daga þegar lífið var einfaldara, þjóðin einsleitari, tungan í hávegum höfði, skáldin borin á höndum, ekkert sjónvarp á fimmtudögum og þar fram eftir götunum. Við lifum hins vegar á öðrum tímum núna og mér finnst að við ættum að reyna að gera það besta úr hverju tímaskeiði í stað þess að festast í einhverri nostalgíu því „gömlu dagarnir“ koma ekki aftur. Það er gott að eiga minningar um það hve lífið var oft notalegt t.d. á sjöunda og áttunda áratugnum en þeir tímar eru liðnir, líkt og hörmungartímarnir upp úr 1983. Frasinn að lifa í núinu er það eina sem við höfum til að spila úr.
Þessi þjóð hefur þrátt fyrir allt löngum verið víðsýn og umburðarlynd og kærleiksrík. Við höfum tekið vel á móti langflestum sem vilja heimsækja okkur og setjast hér að. Síðustu ár hafa verið blikur á lofti því það viðhorf hefur seytlað inn að útlendingur er ekki það sama og útlendingur. Sumir eru nefnilega þeim annmarka gæddir að vera múslimar, búddístar, kaþólskir, bókstafstrúar, litaðir, fátækir, samkynhneigðir, trans, hægri öfgamenn, fólk með fíknsjúkdóma, karlrembur, þjófar, ofbeldisfólk og annar þverskurður mannkyns. Já, væri ekki óskandi að geta valið úr? Réttið upp hönd þið sem viljið bara innflytjendur sem eru mátulega guðhræddir, gagnkynhneigðir, hvítir, heilbrigðir, vinnufúsir, heiðarlegir, jafnréttissinnaðir og afskaplega áhugasamir um að læra íslensku, gömlu dansana og sláturgerð.
Bingó! Þar komu margir upp um sig en samt skiljanlega, við horfum upp á reynslu samfélaga sem hafa orðið „of“ fjölmenningarleg og vissulega væri lífið einfaldara í einsleitara samfélagi. Er það nokkuð rasismi eða útlendingaandúð ef fólk segist frekar vilja hafa hér harðduglega Pólverja og fólk frá Norður- og Vestur-Evrópu heldur en t.d. bókstafstrúarfólk frá Sýrlandi, Palestínu, Marókkó, Túnis, Egyptalandi, Íran og Afganistan? Ég held ekki. Og þegar öllu er á botninn hvolft virðist mér sem þjóðerni eða litarháttur skipti ekki máli, ásteytingarsteinninn er fyrst og fremst trúarlegur og menningarlegur. Þeir sem lifa og hrærast í eldgömlum trúarritum og telja þau eilífan sannleika og leiðarvísi um lífið í dag samlagast varla frjálslyndari samfélögum og þess vegna hafa hugtök á borð við „norska leiðin“ komist á kreik.
Þegar öllu er á botninn hvolft held ég samt að vandamál Íslendinga sé ekki innflytjendur heldur ferðamenn – ef við viljum endilega klína þessu á útlendinga. Kannski nánar um það síðar.
Góðar stundir.
Stefán Þór Sæmundsson er íslenskukennari og þátttakandi í fjölmenningarsamfélagi


Þokaðu úr lokunni, aðeins andartak

Andleg klósettþrif milli vídda

Að gleyma sér

Bláminn á barrinu
