Fara í efni
Pistlar

Jävla Öxnabrekkan

ORRABLÓT - 51

„Æ,æ,æ, kemur nú jävla Öxnabrekkan,“ sagði Gunnar Danielsson, sænskur þáverandi eiginmaður Kristínar Magnúsdóttur móðursystur minnar, og andvarpaði. Hann var vanur breiðum malbikuðum vegum og hraðbrautum heima í Svíþjóð og kunni afskaplega illa við sig á þröngum og holóttum malarvegum Íslands. Þessi ummæli féllu um borð í bíl foreldra minna innst í Norðurárdalnum, annað hvort seint í sjöunni eða snemma í áttunni. Þið munið hvernig vegirnir voru þá vaxnir!

Af mörgum vondum vegum leið aumingja Gunnari allra verst á Öxnadalsheiðinni, eða Öxnabrekkunni eins og hann kallaði óbermið, ekki síst í Giljareit og Skógahlíð, þar sem Heiðará rennur í djúpu og hrikalegu gili meðfram veginum. Á þeim kafla greip okkar maður bara um höfuðið, lokaði augunum og fór með bænirnar sínar. „Fadher wår som äst j himblom. Helghat warde titt nampn,“ og svo framvegis. Þetta er alveg ábyggilega útgáfan úr Biblíu Gustavs Vasa frá 1541 en Gunnar getur verið býsna forn í máli. Sérstaklega þegar að honum sækir ótti.

Svo því sé til haga haldið þá var Gunnar ekki sjálfur undir stýri, heldur faðir minn. Hann er af nett hrekkjóttu kyni frá Grund í Eyjafirði og þegar komið var að Tryppaskálinni frægu gat hann ekki stillt sig um að upplýsa Gunnar um að þar hefðu nær þrjátíu hross verið rekin fyrir björg árið 1870. „Ef þú horfir vel, Gunnar minn, þá má enn sjá bein þeirra í skálinni,“ varð honum að orði. Gunnar var snöggur að líta undan. Það ýlfraði í honum.

Allt fór þó vel að lokum og við komust heilu og höldnu til Akureyrar.

Þetta var um hásumar og Öxnadalsheiðin lamb að leika sér við miðað við veturna, þegar allt fór á kaf í snjó. Þá gat hún verið snúin viðureignar. Einu sinni pikkfesti pabbi bílinn á leið upp á heiðina, Skagafjarðarmegin, og við komumst hvorki lönd né strönd. Ekki leið á löngu uns miskunnsamur flutningabílstjóri ók fram á okkur. „Eruð þið í basli?“ Það mátti nú segja.

Kappinn var ekki lengi að festa í okkur spotta og dró bílinn svo á seinna hundraðinu yfir heiðina, gegnum skaflana, þannig að okkur leið eins og við værum um borð í flugvél. Við sáum ekkert nema hvítt alla leiðina, fyrir utan að afturendinn á flutningabílnum birtist annað slagið gegnum hríðina. Þarna kom Biblían hans Gustavs Vasa aftur í góðar þarfir.

Eftir að hafa haldið jólin 1983 hátíðleg heima í Smárahlíðinni fann ég hjá mér ríka þörf til að fagna nýja árinu hjá ömmu og afa í Reykjavík. Mamma og pabbi voru ekki á ferðabuxunum, þannig að ég var settur um borð í rútu frá Norðurleið sem lagði af stað suður á slaginu kl. 8 á þriðja degi jóla, frekar en fjórða.

Ég greip með mér flunkunýja bók sem ég hafði fengið í jólagjöf, Glenn Hoddle – leiðin á toppinn, í ljómandi góðri þýðingu Víðis Sigurðssonar. Enski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu var þarna orðinn fullra 26 vetra og ekki seinna vænna að hann sendi frá sér ævisögu. Hana las ég tvisvar ef ekki þrisvar á leiðinni en ferðalagið tók einhverja 18 tíma.

Þetta var löngu áður en Hoddle varð landsliðsþjálfari Englands en fáir hafa verið umdeildari í því starfi, meðal annars fyrir þær sakir að hann fékk að hirð sinni meintan heilara, Eileen Drewery. Sparkelskir botnuðu ekkert í þeirri nálgun á þeim tíma. Banabiti Hoddles sem landsliðsþjálfara voru svo ummæli í blaðaviðtali, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að fatlaðir væru fatlaðir vegna synda í fyrra lífi. En það er allt önnur saga.

Ferðalagið gekk vel framan af, eða þangað til komið var í Bakkaselsbrekkuna. Þar var flughált og rútan hreinlega dreif ekki upp, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Bílstjórinn gafst þó ekki upp, heldur skellti keðjum undir rútuna. Nú yrði látið sverfa til stáls. „Gangi þetta ekki núna,“ sagði hann fyrir þessa tilraun, sem var númer sjö eða átta í röðinni, „þá verðið þið bara að fagna áramótunum heima!“

Langt síðan maður hefur séð keðjur undir bíl. Er það bannað í dag?

Og viti menn, rútan seiglaðist upp Bakkaselsbrekkuna. Strax orðin á að giska tveimur tímum á eftir áætlun.

Ég man hvað mér þótti eyðibýlið Bakkasel alltaf draugalegt og spennandi en lét þó ekki verða af því fyrr en löngu seinna að ganga að því og gægjast inn.

Sæluhúsið uppi á heiðinni, Sesseljubúð, er líka eftirminnilegt, appelsínugult á litinn. Mér finnst eins og að ég hafi einu sinni litið þar inn og ritað nafn mitt í gestabók. Það gæti þó hafa verið draumur. Það er stundum svo stutt þarna á milli, sérstaklega þegar frá líður.

Ferðin suður sóttist hægt vegna ófærðar og í Hrútafirðinum fór rútan út af veginum. Hékk þó á hjólunum, þökk sé þessum úrræðagóða bílstjóra, og engan sakaði. Það voru einhverjar fimm eða sex hræður þarna, fyrir utan mig. Góðan tíma tók að ná henni upp á veginn aftur. Í Staðaskála skiptu bílstjórarnir um sæti, sá sem kom að sunnan stökk inn til okkar og hinn tók við rútunni á leið norður. Glímdi sumsé aftur við helvítis Öxnabrekkuna sama daginn. Ég hef ekki hugmynd um hvernig það fór en ferðin okkar suður gekk stóráfallalaust fyrir sig og ég var kominn heim á Rauðalæk til ömmu og afa að mig minnir kl. 2 eftir miðnætti.

Heimferðin varð ekki síður skrautleg en 4. janúar 1984 fékk ég far með hinni móðursystur minni, Þórdísi Magnúsdóttur, eiginmanni hennar, Jónasi Snæbjörnssyni, og börnum þeirra fjórum, Snæbirni, Kristjönu, Bryndísi og Níní, í ansi hreint huggulegum Wagoneer-jeppa. Þau bjuggu á þessum árum á Sauðárkróki og þangað ætluðu mamma og pabbi að sækja mig.

Allt gekk að óskum framan af, það er að Bifröst og Hreðavatnsskála í Grábrókarhrauni í Borgarfirði. Fljótlega eftir það skall hins vegar án fyrirvara á kafaldsbylur, þannig að ekki sást fram á húdd jeppans, hvað þá lengra. Jónas byrjaði á því að vippa sér út og freista þess að ganga á undan bílnum en hvarf fljótt sjónum. Snéri þá við og tók eina kostinn í stöðunni, að snúa bílnum á veginum, þannig að hann tæki á sig minni vind. Þarna héldum við kyrru fyrir og biðum af okkur versta veðrið, í allmarga klukkutíma. Þetta var löngu fyrir tíð farsímanna, þannig að engin leið var að láta vita af sér.

Smám saman fór að sjást meira út um bílrúðuna en löngu orðið ljóst að jeppinn var svo gott sem fenntur í kaf. Mikið gladdi það okkur því þegar bóndinn á næsta bæ birtist skyndilega á snjósleða og bauðst til að ferja okkur, eitt í einu, heim á bæinn. Þáðum við það með þökkum.

Bóndi var vingjarnlegur en lá af einhverjum ástæðum þessi lifandis ósköp á. Við botnuðum ekkert í því fyrr en allt liðið var komið í hús og búið að gefa því heitan kakóbolla og jólaköku. Þá kveikti bóndi í flýti á sjónvarpinu. Klukkan orðin 21:25 og Dallas að byrja. „Jæja, við náum þessu þá,“ sagði bóndi, sigri hrósandi. Vildi greinilega ekki missa af sínum Joð Err og sinni Sú Ellen. Á þessum tíma var allt sjónvarp í línulegri dagskrá og býlið enn ekki búið að koma sér upp vídjótæki til að taka upp efni. Gaman var að fylgjast með klækjunum í Texas með bónda og búaliði hans öllu sem lagði að sjálfsögðu niður störf í þessar 45 mínútur.

Búið var um okkur um nóttina, alltaf nóg gistirými á íslenskum bóndabæjum, en veður bauð ekki upp á mokstur fyrr en morguninn eftir. Þá var komið blíðskaparveður og okkur sóttist ferðin á Krókinn vel. Og heiðin var heldur ekki til ama í það skiptið á lokakaflanum heim.

Seinast lenti ég í smá brasi á Öxnadalsheiðinni í september 1990. Þá var ég að flytja búferlum suður á gömlu Hondunni minni í samfloti við aldavin minn Birgi Karl Birgisson, sem var á enn eldri bíl, Kortínu, að mig minnir árgerð 1979. Þú leiðréttir mig, Biggi minn, fari ég með rangt mál. Þæfingsfærð var á heiðinni þennan dag, þó þetta væri snemma um haust, og við máttum hafa okkur alla við til að koma bílunum upp á heiðina enda voru þeir enn á sumardekkjum, eins og lög gera ráð fyrir. Allt hafðist það þó og við komumst alla leið suður með fábrotnar búslóðir okkar.

Já, hún gat verið lúmsk, jävla Öxnabrekkan.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Skáldið Jónas Þorbjarnarson (1960-2012)

Arnar Már Arngrímsson skrifar
16. október 2025 | kl. 08:30

Vatnsskaði – Um áhrif flóða og vatnsmettunar jarðvegs á tré

Sigurður Arnarson skrifar
15. október 2025 | kl. 10:00

Hús dagsins: Háls í Eyjafirði

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
13. október 2025 | kl. 06:00

Álfar og huldufólk

Jóhann Árelíuz skrifar
12. október 2025 | kl. 13:00

Við nennum ekki þessu uppeldi

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
11. október 2025 | kl. 06:00

Geðheilbrigðisdagurinn 2025

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2025 | kl. 06:00