Fara í efni
Pistlar

Losnaði aldrei við höfuðverkinn

ORRABLÓT - 52

Fígúrur eru mínar ær og kýr í þessu lífi. Landslag, náttúra, fjöll, firðir, jöklar, vötn og lækir eru að sjálfsögðu góðra gjalda verð en hvað væri þetta allt án fígúrunnar?

Allt var löðrandi í fígúrum þegar ég lagði stund á nám heima á Akureyri í gamla daga. Kennarar og nemendur voru þar framarlega í flokki en þar sem ég er búinn að segja ykkur mest um það fólk í fyrri blótum skulum við í dag einbeita okkur að fígúrunum sem áttu heima í námsbókunum, sönnum og skálduðum.

Byrjum á Scorpion, þeim mikla höfðingja sem Kristján Guðmundsson, enskukennari og píanóleikari, færði okkur í Glerárskóla. Enginn venjulegur kappi sem á degi hverjum átti stefnumót við ný ævintýri. Það var ekki bara bók, Kristján lét okkur líka hlusta á hljóðsnældu þar sem Skorpi, eins og við kölluðum hann, fór mikinn ásamt liði sínu. Mergjað svona James Bondlegt stef fylgdi alltaf og bekkurinn byrjaði að iða í sætum sínum. Fæ enn gæsahúð þegar ég hugsa um þetta.

Í íslensku lásum við um Gísla Súrsson, Auði, Þorkel, Véstein og þær kempur allar. Mergjað þótti okkur að Þorbjörn faðir Gísla hefði verið nefndur súr vegna þess að hann hafði bjargað sjálfum sér úr eldi með því að dýfa hafurskinnum í sýruker og slökkva eldinn með þeim. Mest dálæti höfðum við þó á Ingjaldsfíflinu. Kostuleg fígúra. Ágúst Guðmundsson var á þessum tíma nýbúinn að gera Útlagann og horfðum við á hana í einum tímanum hjá Jónínu kennara, með popp í annarri og kók í hinni. Nei, svo langt gekk veislan víst ekki. Ætli það hafi ekki frekar verið blýantur í annarri og strokleður í hinni.

Laxness var líka lagður fyrir okkur strax í gaggó og þótti sjálfsagt á þeim tíma. Íslandsklukkan var viðfangsefnið en ég tengdi af einhverjum ástæðum aldrei eins vel við Jón Hreggviðsson og Snæfríði Íslandssól (kannski var maður ekki alveg tilbúinn) og ég gerði síðar við Bjart í Sumarhúsum, Álfgrím Hansson, Jón prímus og Huldu og Randver sem ég kynntist eftir að ég hóf nám í MA. Að ekki sé talað um meistara Garðar Hólm. Svakaleg flóra fígúra þarna á ferðinni. Ekki var óalgengt að ungmenni væru langt komin með Laxness-katalóginn fyrir stúdentspróf og þótti ekkert skrýtið. Eða þótti það kannski skrýtið? Skal ekki segja. En illa líst mér alltént á íslenskan æskulýð eigi hann hér eftir að alast upp án nokkurs núnings við Nóbelsskáldið. Ha? En tímarnir breytast og bækurnar með. Eða eins og blessaður pilturinn sagði: „Hver er aftur þessi Halldór Laxness? Já, er það ekki kallinn sem fékk Óskarinn?”

Fleiri höfundar eru manni í fersku minni, eins og Bendikt Sveinbjarnarson Gröndal. Það lifnar alltaf yfir mér þegar Heljarslóðarorrustu ber á góma. Í þeim heimi klæddust hestar stígvélum og veislurnar voru svo svakalegar að það tók menn heilan dag að ferðast milli borðsenda – ríðandi.

Í dönsku í MA lásum við Rend mig I traditionerne eftir Leif Panduro og fleiri klassísk verk en eigi að síður er Kim gamli Larsen eftirminnilegastur úr þeim tímum. Ragnheiður dönskukennari var mikil Kim-kona. Lék fyrir okkur lög og sýndi okkur kvikmyndir með kappanum. Kim var lífskúnstner af gamla skólanum og grjótharður reykingamaður. Andri Freyr Viðarsson sagði frá því á Rás 2 á dögunum að Kim hefði ekki verið skemmt þegar reykingabann var tekið upp á dönskum ölstofum. Í mótmælaskyni þræddi hann slíkar stofur næstu vikur og mánuði, henti peningaseðlum fyrir sektinni á borðið og kveikti sér síðan í sígarettu. Þá byrjuðu að sjálfsögðu fleiri þar inni að reykja líka. Ólseigur, Kim heitinn.

Í þýskunni reis der Hirbel hæst; náungi sem svo sannarlega var með storminn í fangið í þessu lífi. Einhver mistök áttu sér stað þegar hann fæddist með þeim afleiðingum að Hirbel var með stöðugan höfuðverk, dag sem nótt. Maður gat ekki annað en haldið með honum. Margir voru vondir við Hirbel en enginn þó eins og fúlmennið Herr Schoppenstecker. Mér rennur enn kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég hugsa um kaflann Hirbels Kampf gegen Herr Schoppenstecker. Legg ekki á ykkur að endursegja hann hér.

Fyrsta enskubókin í MA er ógleymanleg, Developing Skills, sem Ólafur Rafn Jónsson las með okkur af sinni alkunnu snilld. Þar komu allskyns fígúrur við sögu. Þeirra á meðal franski flugkappinn Louis Blériot, sem fyrstur manna flaug yfir Ermarsund árið 1909. Bekkurinn sat opinmynntur yfir því afreki og vinir mínir, Karl Jónsson og Karl Gústaf Gústafsson, sem fylgdu mér gegnum MA, urðu báðir flugstjórar. Blériot á ábyggilega ekki lítinn þátt í því. Sjálfur var ég búinn að ákveða að verða örlagablaðamaður eins og Tinni og ekki varð aftur snúið enda þótt háloftin heilluðu að sjálfsögðu.

Í öðrum bekk tók Rafn Kjartansson við okkur og dró upp úr pússi sínu hvern meistarann af öðrum. Það var upplifun, sem enn býr með manni, að hlusta á Rabba fara með Hrafninn eftir Edgar Allan Poe. Ég man alltaf fyrsta versið:

 

Once upon a midnight dreary, while I pondered, weak and weary,
Over many a quaint and curious volume of forgotten lore,
While I nodded, nearly napping, suddenly there came a tapping,
As of some one gently rapping, rapping at my chamber door. “
“'Tis some visitor,” I muttered, “tapping at my chamber door—
Only this, and nothing more.”

 

Svo var það Hamlet, afkvæmi sjálfs Shakespeares. Rabbi fór svo rækilega yfir hann á fjórða árinu að maður var farinn að þekkja Danaprinsinn betur en sína eigin móður. Ýmsar fleiri fígúrur standa upp úr eftir þann lestur, Ófelía, fegurst allra fljóða, Vofan, Pólóníus, Geirþrúður og Kládíus. Svo kunni ég alltaf ljómandi vel við þá félaga Rósenkrans og Gullstjarna.

Þegar við dimmiteruðum var mér treyst fyrir því að ávarpa Rabba á tröppunum heima hjá honum og byrjaði á því að vitna í Pólóníus: Since brevity is the soul of wit …

Komst ekki lengra, því Rabbi greip fram í: „You shall be brief.”

Ég lét það ekki slá mig út af laginu, heldur hlóð beint í Krumma og Poe:

„We shall keep this rapping at your chamber door brief.”

Rabbi hló að þessu og hefur ábyggilega hugsað: „Jæja, einhverju hefur mér greinilega tekist að troða inn í kvörnina á þessu liði.”

Eina önnina áttum við að koma með ljóð að eigin vali til krufningar í tímum og ég var duglegur að bera í stofuna Steve Harris og bárujárnsberserkina í Iron Maiden. Prýðilegur textahöfundur, Harris, og ofboðslega vel að sér um sögu mannkyns. „Menntaður villimaður,” eins og Kalli Gúst kallaði hann. Það var til dæmis Harris sem kveikti áhuga minn á enska öndvegisskáldinu Samuel Taylor Coleridge, sem var uppi fyrir um 200 árum, en lagið Rime of the Ancient Mariner af plötunni Powerslave frá 1984 er byggt á samnefndu ljóði eftir hann.

Eftirminnileg er yfirferðin í enskutíma í MA yfir annan texta eftir Harris, Hallowed Be Thy Name, þar sem dauðadæmdur maður lítur yfir farinn veg korteri áður en hann er leiddur í gálgann:

 

Mark my words, believe my soul lives on
Don't worry now that I have gone
I've gone beyond to seek the truth
When you know that your time is close at hand
Maybe then you'll begin to understand
Life down here is just a strange illusion

 

Því eldri sem ég verð, þeim mun sannfærðari verð ég um að sögumaður hafi haft á réttu að standa. Já, krakkar mínir, þessi vitleysa sem við köllum líf er ekkert nema undarleg blekking og liður í hótfyndni almættisins í garð okkar mannanna. Maður verður að deyja áður en maður sér ljósið og allt það …

Nei, róum okkur nú aðeins. Eiga þessir pistlar ekki að vera á léttu nótunum?

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Vorboðinn ljúfi

Sigurður Arnarson skrifar
29. október 2025 | kl. 09:30

Tár

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
28. október 2025 | kl. 11:00

Hús dagsins: Aðalstræti 2

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. október 2025 | kl. 22:00

Fram á rauðan morgun

Jóhann Árelíuz skrifar
26. október 2025 | kl. 06:00

Ég sagðist vera hætt að berjast ...

Urður Bergsdóttir skrifar
24. október 2025 | kl. 15:00

Er langt eftir?

Þórgunnur Oddsdóttir skrifar
24. október 2025 | kl. 15:00