Sópaði Strákunum okkar út á fimm sekúndum
ORRABLÓT - 57
Jæja, góðir hálsar, þá er kominn janúar. Og hvað þýðir það fyrir okkur, þrekaða þjóð á hjara veraldar? Jú, H-in þrjú: Hákarl, hrútspungar og handbolti. Það er aðeins of snemmt að byrja að kjamsa á súrmetinu, þannig að við skulum einbeita okkur að handboltanum og Strákunum okkar í þessu blóti. HM, EM eða bara eitthvað M, alltaf eru Strákarnir okkar mættir til að gleðja okkur, nú eða slíta úr okkur hjartað. Það er ýmist í ökkla eða eyra.
Mínar fyrstu handboltaminningar eru úr Skemmunni. Ég var ekki hár í loftinu þegar ég fór að venja komur mínar þangað og oftar en ekki var andrúmsloftið rafmagnað enda stóðum við áhorfendur hér um bil inn á vellinum. Bara þunnt snæri á milli. Eða var það kaðall? Skiptir ekki máli, þið munið þetta. Blóð, sviti, tár og harpix. Allt í einum potti. Dýrðartímar.

Sjálfur á ég að baki nokkra Íslandsmeistaratitla í handbolta og gott ef ég var ekki kominn í atvinnumennsku um tíma. Þetta á sameiginlegt að hafa gerst á ganginum í Smárahlíð 16f en til að hlífa styttum, blómapottum og öðru heimilisskrauti náðu foreldrar mínir samkomulagi við mig um að leika frekar handbolta en fótbolta á þeim vettvangi – við sjálfan mig. Boltinn var úr massífum svampi og ég vil nota þetta tækifæri til að biðja mína gömlu nágranna afsökunar á hljóðinu sem heyrðist þegar ég reif mig inn af línunni og þrumaði boltanum í hurðina sem sneri fram að stigaganginum. En gaman var þetta og gefandi. Jesús Pétur.
Af einhverjum ástæðum dró hressilega úr getu minni og færni þegar aðrir leikmenn voru komnir inn á völlinn. Það fann ég strax þegar handbolti var á dagskrá í leikfiminni í Glerárskóla. Þannig að ég hélt mig bara á ganginum heima og íhugaði aldrei af neinni alvöru að hefja æfingar með Þór.

Einn veturinn tókst félögum mínum sem æfðu handbolta, með Hjalta S. Hjaltason í broddi fylkingar, að vísu að draga mig á tvær eða þrjár æfingar. Handboltaæfingin hófst strax á eftir innanhússæfingu í fótbolta og þar sem Hjalti nennti ekki að labba einn heim sannfærði hann mig um að gefa handboltanum séns. Gunni Mall var að þjálfa og horfði á mig eins og að ég væri dádýr á dekkjaverkstæði. Gunni sagði svo sem ekki neitt, Guð blessi hann, en úr svipnum mátti auðveldlega lesa: „Ég get ekkert gert fyrir þennan gaur!”
Æfingarnar urðu því fáar en samt var handboltaferli mínum ekki alveg lokið. Um veturinn glímdu strákarnir við KA á Akureyrarmótinu og höfðu betur. Einhver æringinn (lesist: Hjalti) hafði tekið upp á því að skrá mig á leikskýrslu og þegar uppskeruhátíð var haldin um vorið var ég kallaður á svið með hinum strákunum til að taka við gullverðlaununum. Sjaldan í mannskynssögunni hafa menn þurft að leggja minna á sig til að hljóta slík verðlaun; ég tók engan þátt í leiknum og var ekki einu sinni á staðnum.
Fótboltinn var alltaf stærstur í Glerárskóla en handboltinn kom næstur honum að vinsældum. Í mínum árgangi voru kappar á borð við Sævar Árnason, Axel Stefánsson og Pál Viðar Gíslason sem allir urðu skruggugóðir í greininni. Jóhann Gunnar Jóhannsson var ári á undan okkur og Rúnar Sigtryggsson rétt á eftir en hann varð auðvitað síðar atvinnu- og landsliðsmaður, þjálfari og kastskýrandi.

Á unglingsárum skellti maður sér endrum og sinnum á handboltaleiki hjá Þór í Íþróttahöllinni, sem þá var komin til sögunnar. Hornamaðurinn knái Sigurpáll Árni Aðalsteinsson er eftirminnilegastur frá þeim tíma. Ekki físískasti leikmaður í heimi en ótrúlega lunkinn og teknískur; oftar en ekki var varnarmaðurinn búinn að henda honum inn í júdóherbergið inn af salnum en samt náði okkar maður að skrúfa boltann framhjá markmanninum og inn á fjærstöng. Galið stöff!
Ég flutti suður eftir stúdentspróf og fyrsta eitt eða tvö árin sá ég leik og leik með Þórsurum fyrir sunnan en þá var Atli Már Rúnarsson, sem var góður vinur á síðunglingsárum, farinn að spila með liðinu. Það verður þó að viðurkennast að maður fór aðallega til að hitta hann, Atli er með okkar allra skemmtilegustu mönnum.

Svo dró stjúpsonur minn, Jóhann Fjalar Skaptason, mig einu sinni á úrslitaleik um Íslandsmeistartitilinn milli Vals og KA í Laugardalshöllinni. Dró mig, segi ég og skrifa, ég var dauðhræddur um að KA myndi vinna og ég þar af leiðandi neyðast til að verða vitni að fagnaðarlátunum! Allt fór þó vel, Valur fór með sigur af hólmi og ekki minni menn en Dagur Sigurðsson og Ólafur Stefánsson drógu vagninn. Úr liði KA man ég best eftir Julian Duranona, þeirri ógurlegu skyttu, og gott ef Patrekur Jóhannesson var ekki þarna líka. KA átti auðvitað eftir að verða Íslandsmeistari síðar – en þá var ég vant við látinn.
Eftir þetta hvarf handbolti úr lífi mínu um langa hríð en sneri aftur með hamagangi og látum fyrir um 15 árum, þegar dóttir mín, Aþena Valý Orradóttir, fór að slá sér upp með mjög svo frambærilegum handboltamanni, Kristni Hrannari Elísberg Bjarkasyni, sem í dag er unnusti hennar og barnsfaðir.
Kiddi tilheyrir einni mestu handboltafjölskyldu landsins en hann er sonur eins fremsta handboltamanns Íslandssögunnar, Bjarka Sigurðssonar, og eiginkonu hans, Elísu Hennýjar Arnardóttur. Systkini hans, Örn Ingi og Anna Katrín, hafa líka leikið handbolta við góðan orðstír en fjórða systkinið, Bjarki Steinn, gerðist liðhlaupi og kaus að láta fætur tala. Raunar með fínum árangri en hann er í dag atvinnumaður hjá Venezia á Ítalíu og á sæti í íslenska landsliðshópnum.
Spartverskara fólk hef ég varla hitt. Og hresst og skemmtilegt eftir því.

Kiddi hóf kornungur að leika með meistaraflokki Aftureldingar og við feðginin vorum ósjaldan saman á pöllunum til að hvetja hann til dáða. Miklar gæðastundir. Mosfellingar voru með hörkulið á þessum tíma og fóru tvö ár í röð í úrslitaviðureignina um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn gegn Haukum. Þeir síðarnefndu unnu sannfærandi sigur í fyrra skiptið en í það síðara var allt í járnum. Aðeins munaði hársbreidd að Afturelding ynni sigur heima á Varmá í fjórða leiknum og þar með einvígið 3:1 en Haukar sneru taflinu sér í hag í framlengingu og jöfnuðu einvígið. Unnu svo oddaleikinn á Ásvöllum.
Ég var raunar fræg óheillakráka á þessum tíma. Þetta seinna ár sá ég alla tapleiki Aftureldingar í úrslitakeppninni á staðnum en þegar ég var fyrir framan sjónvarpið vann liðið alla sína leiki. Furðulegt mál. Svo rammt kvað að þessu að Hilmar Gunnarsson, Yfir-Mosfellingur, vallarþulur á Varmá og þáverandi vinnufélagi minn á Morgunblaðinu, hvítnaði lengi vel allur upp þegar hann sá mig birtast í gættinni.
Það var nú aldeilis Akureyrartenging í þessu liði Aftureldingar en þar voru á þessum tíma Gunnar Malmquist Þórsson, dóttursonur Gunna Mall, og Árni Bragi Eyjólfsson, sonur Eyjólfs Guðmundssonar, fyrrverandi rektors HA. Þarna voru líka Elvar Ásgeirsson, síðar landsliðsmaður, og varnarbuffið Böðvar Páll Ásgeirsson, sem síðar vann með mér tvö sumur á Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Seinustu tvö árin sem hann spilaði var Kiddi í Fram sem þýddi að ég var allt í einu kominn á pallana í sal sem ég hef leikið bumbufótbolta í undanfarna þrjá áratugi, en varnarþing Fram var þá enn í Safamýrinni.
Gegnum árin hefur núningur Knattspyrnufélags Magnúsar Finnssonar, sem starfrækt hefur verið á Morgunblaðinu frá árinu 1976, við Strákana okkar verið talsverður en þeir síðarnefndu æfa mikið í Safamýrinni meðan þeir eru að búa sig undir stórmót í janúar. Þeir höfðu síðast af okkur tíma í liðinni viku.

Bestu söguna af þessu hef ég sagt áður en ekki á þessum vettvangi, þannig að ég læt bara vaða. Þegar við KMF-liðar mættum í okkar fasta hádegistíma fyrir allmörgum árum voru Strákarnir okkar að ljúka sér af. Æfingunni var lokið en strákarnir upp til hópa enn á gólfinu, búið var að setja upp nuddbekki, Gaupi að taka viðtöl fyrir Stöð 2 og ég veit ekki hvað og hvað. Við, prúðmennin sem við erum, byrjuðum því bara að hita okkur upp úti í horni, þorðum ekki að anda á þessa þjóðargersemi sem Strákarnir okkar eru. Leið svo og beið og ekkert fararsnið var á strákunum. En þegar neyðin er stærst er baðvörðurinn Alex frá Georgíu næst en hann vann á þessum tíma í húsinu. Einn skeleggasti og ákveðnasti maður sem ég hef á ævinni kynnst. Skyndilega hrinti hann upp hurðinni á salnum, gekk hröðum skrefum í átt að Strákunum okkar, Guðjóni Val, Aroni Pálmarssyni, Björgvini Páli og öllu heila galleríinu og sópaði þeim á fimm sekúndum sléttum út úr salnum með þessum orðum: „Strákúr, stúrtú, núna, búið!”
Og við gömlu mennirnir gátum hafið leik.
Þessi sena er með því allra fyndnasta sem ég hef upplifað á ævinni og ég get lofað ykkur því að svona lagað gerist hvergi nema á Íslandi.
Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.
Lausnin 4/7
Runnkennt elri til landgræðslu - Fyrri hluti: Almennt
Lausnin 3/7
Lausnin 2/7