Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Norðurgata 2

Við Norðurgötu má finna mörg einstök og sérstæð hús, m.a. eina grjóthlaðna hús Akureyrar. Syðst við götuna er lágreist, snoturt og einstaklega skrautlegt hús, sem skartar steinskífu. Klæðning þessi minnir svolítið á fiskhreistur og gefur húsinu sérstakan, einkennandi svip. Í einhverri sögugöngu um Oddeyri hafði einn þátttakandinn á orði, að þetta minnti sig á pönnukökur, hús nornarinnar í sögunni um Hans og Grétu nefnt í því samhengi.

Syðstu lóð Norðurgötu austan megin, eða „þvergötunnar út Oddeyri“ eins og hún kallaðist þá, fékk Þorvaldur Guðnason árið 1890 og leyfi til að reisa þar skúr. Hafði hann nýlega reist hús á svipuðum slóðum, nánar tiltekið Norðurgötu 13. Líkast til var þetta þó ekki syðsta lóðin þá, því í Manntali 1901 eru húsin sem nú teljast 2-6 við Norðurgötu númer 4-8. Hefur þannig verið gert ráð fyrir, a.m.k. einu húsi sunnar. Það var hins vegar ekki fyrr en 1897 að hann reisti húsið, sem enn stendur, en byggingaleyfið fékk Þorvaldur 22. mars það ár. Skyldi hús Þorvalds vera 14 álnir [8,8m] á lengd, 10 álnir [6,3m] á breidd og með kvisti. Legu hússins var lýst þannig, að það skyldi standa „ 7 ál. fyrir austan þvergötuna frá húsi Jóns Halldórssonar og 60 ál. norður frá Strandgötu“ (Bygg.nefnd. Ak. 1897:140). Götunafnið Norðurgata var ekki komið til sögunnar, en það er óneitanlega mun þjálla heiti en „Þvergatan frá húsi Jóns Halldórssonar“. Byggingaleyfi fyrir Þorvald var sameiginlegt með Ólafi Árnasyni og Jóni Jónatanssyni, sem reistu næsta hús norðan við, Norðurgötu 4 og kemur fram í byggingaleyfinu, að þeir reisi hús sín í sameiningu. Sjá má á framhlið og stærðarhlutföllum, að húsin tvö eru nokkuð greinilega sama hönnun, enda þótt síðari tíma breytingar geri þau í raun gjörólík hvort öðru. Nokkuð víst mun talið, að Snorri Jónsson byggingameistari eigi heiðurinn af hönnun og byggingastjórn þessara húsa (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995: 64). Þess má til gamans geta, að þeir Þorvaldur og Snorri voru nágrannar, en hús þeirra stóðu hlið við hlið og hlutu síðar númerin 11 og 13 við Norðurgötu. Þá vildi einnig svo til, að þetta ár, 1897, var Snorri sjálfur í óða önn að reisa verslunar- og íbúðarhús á næstu lóð sunnan við Þorvald, þ.e.a.s. við Strandgötu 29. Um var að ræða eitt stærsta hús Oddeyrar og Akureyrar, löngum kallað Snorrahús. Norður úr því var mikil álma til norðurs svo þannig fór, að hús Þorvaldar Guðnasonar varð það syðsta við austanverða Norðurgötu. Snorrahús var, illu heilu, rifið í byrjun september 1987. Snorrahúsið var líkt og Norðurgata 2, klætt steinskífu.

Norðurgata 2 er einlyft timburhús með háu risi og miðjukvisti. Á bakhlið er inngönguskúr auk uppgöngu á rishæð, en þeim megin er þak aflíðandi (risi lyft). Á bakhlið er einnig útskot úr neðri hæð og inngöngudyr á efri hæð ásamt tröppum úr timbri. Bárujárn er á þaki, þverpóstar í gluggum en á veggjum er hin sérstæða steinskífa. Þessi sérstæða klæðning setur mikinn svip á húsið, en þess má einnig geta, að aðeins eru tvö hús á Akureyri sem skarta steinskífuklæðningu. Hitt steinskífuhúsið er Strandgata 23. Í fyrrnefndri sögugöngu um Oddeyri minnist síðuhafi þess, að einn þátttakandinn hafi upplýst, að þessar skífur kæmu frá Noregi, nánar tiltekið úr námum nærri Bergen.

Þorvaldur Guðnason var sjómaður, fæddur árið 1857 og uppalinn í Bárðardal. Hann var vinnumaður á Íshóli árið 1880 en stundaði sjóinn eftir að hann flutti á Oddeyri. Síðastu æviárin var hann utanbúðarmaður hjá athafnamanninum J.V. Havsteen. Þorvaldur var kvæntur Maríu Jónasdóttur (1862-1934), sem mun hafa verið úr Svarfaðardalnum, skráð til heimilis að Hofsá árið 1870. Þorvaldur og María og börn þeirra munu hafa búið hér í ein sjö ár. 1902 reisti Þorvaldur á lóðinni fjós og skúr en þær byggingar eru nú löngu horfnar. Árið 1904 eru Þorvaldur og fjölskylda flutt úr húsinu og reistu þá hús töluvert utar á Eyrinni, Norðurgötu 27. (Það hús var rifið fyrir mörgum áratugum). Þorvaldur Guðnason lést af slysförum við höfnina á Oddeyri árið 1914. Árið 1904 eignast húsið Soffanías Baldvinsson ökumaður eða „keyrari“. Hafði hann áður verið bóndi á Tungufelli í Svarfaðardal. Soffanías reisti árið 1911 bakhús sem enn stendur, Norðurgötu 2b en það hús þekkja margir sem Reykhúsið eða Hljóðhúsið, en þar hóf RúvAK útsendingar sínar á sínum tíma. Þá mun Soffanías einnig hafa sett núverandi skífuklæðningu á húsið. Eins og aðrir ökumenn keyrði Soffanías vagna en þegar bílaöld hófst, tileinkaði hann sér hinn nýja farkost. Soffanías tók bílpróf fyrstur Akureyringa og keypti sér Ford T-Model af árgerð 1914. Var hann væntanlega með fyrstu bílum sem hingað komu. Hér má sjá mynd af Soffaníasi og fleira heiðursfólki, ásamt Fordinum og hestvögnum fyrir utan Norðurgötu 2. Þarna má sjá, að steinskífa er komin á húsið en myndin er sögð tekin 1915-17. Í brunabótamati 1916 er húsið hins vegar sagt járnklætt. Íbúðaskipan hefur sjálfsagt tekið ýmsum breytingum gegnum tíðina og líklega hefur á tímabili verið búið ansi þröngt þarna. Árið 1910 bjuggu þarna t.d. 2 fjölskyldur, auk hjúa, 10 manns. Voru það Soffanías, kona hans Sigurveig Sigurðardóttir, börn þeirra, Njáll og Baldvina auk þriggja einstaklinga sem titluð eru hjú. Hjá þeim leigðu þau Júlíus Albert Árnason og Una Sigurðardóttir og áttu þau tvær dætur, Kristbjörgu og Úndínu. Sú síðarnefnda byggði löngu síðar hús norðar á Oddeyri á Ránargötu 17 ásamt manni sínum Sveini Kristjánssyni og tengdaföður. Árið 1920 mun húsið hafa skipst í þrjú íbúðarrými, miðað við manntal og þar búsettir átján manns, efst á blaði þar þau Sigurður Sigurðarson og Kristín Steinþórsdóttir.

Á árunum 1954-62 fóru fram töluverðar breytingar á húsinu. Árið 1954 var austurhluti rishæðar byggður upp á þann hátt, sem kallað er að risinu sé lyft. Var þannig byggður veggur með fullri lofthæð austanmegin, svo þeim megin er risið lágt og aflíðandi. Vestanmegin er risið hins vegar bratt, með upprunalegu lagi. Bætir þetta töluverðu rými við efri hæðina, þar eð aðeins helmingurinn hennar er undir súð. Árið 1962 voru svo byggðar sér inngöngutröppur á efri hæð, austanmegin og þær teikningar gerði Mikael Jóhannsson. E.t.v. hefur hann einnig teiknað breytingarnar á risinu.

Að framanverðu er húsið næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð. Sama er að segja af systurhúsinu, Norðurgötu 4, en bakhlið þess húss hefur einnig verið breytt töluvert, m.a. byggt við það. Ekki laust við að það sé svolítið skemmtilegt að bera saman, hvernig sams konar hús hafa þróast hvort í sína áttina á einni öld og aldarfjórðungi betur. Nú munu vera tvær íbúðir í Norðurgötu 2, á hæð og í risi. Húsið er í góðri hirðu og til mikillar prýði í umhverfinu enda gefur steinskífan húsinu einstakan svip. Þá er lóðin vel gróin og hirt og ber þar t.d. á ræktarlegu reynitré sunnan við húsið. Steinskífan prýddi þó nokkur hús á Akureyri á árum áður, þó ekki teldist hún sérlega algeng. Einhver þeirra hafa verið rifin en í öðrum tilfellum skífunni skipt út fyrir aðra klæðningu. Nú eru steinskífuhúsin aðeins tvö og myndi greinarhöfundur telja varðveislugildi þeirra umtalsvert fyrir vikið. En Norðurgata 2 er aldursfriðuð og í Húsakönnun um Oddeyri er þessi hluti Norðurgötunnar talin sérstaklega varðveisluverð heild. Myndin er tekin 19. júní 2022.

Heimildir:

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 140, 22. mars 1897. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Ýviður á Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
17. júlí 2024 | kl. 15:00

Milliliðir maka krókinn

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
16. júlí 2024 | kl. 09:30

Dauðinn bak við stýrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. júlí 2024 | kl. 11:30

Blautir draumar

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. júlí 2024 | kl. 12:30

Ruslakallinn er með vasadiskó!

Orri Páll Ormarsson skrifar
12. júlí 2024 | kl. 10:10

Sögur úr Kjarna

Sigurður Arnarson skrifar
10. júlí 2024 | kl. 09:00