Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Norðurgata 17; Gamla Prentsmiðjan, Steinhúsið

Í nóvember 1885 birtist í blaðinu Fróða mjög hnitmiðuð en greinargóð lýsing á staðháttum, mann- og atvinnulífi á Akureyri og Oddeyri. Höfundar virðist ekki getið, en trúlega nærtækast að skrifa Björn Jónsson ritstjóra og ábyrgðarmann blaðsins fyrir þeim. Oddeyri er sögð heyra undir lögsagnarumdæmi Akureyrar en liggja nokkuð norðar, aðskilin af landspildu er tilheyrir Hrafnagilshreppi. Þar eru sögð standa 11 timburhús, auk varningshúsa Gránufélagsins og eitt hús af íslenskum steini. Um það hús segir ennfremur: Þorsteinn Einarson blikksmiður gerði fyrstur manna í Eyjafirði tilraun til að byggja þar hús úr íslenzkum steini og heppnaðist vel, þó grjót sje hjer hart og illt að vinna. Skemmst er frá því að segja, að þessi tilraun heppnaðist svo vel, að tæpum 140 árum síðar stendur þetta hús enn og það með glæsibrag og er eitt af helstu kennileitum Oddeyrar. Og framangreint blað, Fróði, er einmitt prentað í húsi þessu.

Norðurgata 17 er eitt af elstu og sérstæðustu húsunum á Eyrinni, oft kallað Gamla Prentsmiðjan eða Steinhúsið en það er hlaðið úr tilhöggnu blágrýti, það eina þeirrar gerðar á Akureyri. Húsið byggðu téðir Þorsteinn Einarsson, blikksmiður og niðursuðumaður, og Björn Jónsson ritstjóri um 1881. Nákvæmt byggingarár liggur í rauninni ekki fyrir, því þeir félagar Björn og Þorsteinn fengu lóðina hjá Gránufélaginu, eiganda landsins, eftir að þeir byggðu húsið. Ekki var þannig um byggingaleyfi að ræða, heldur gerðust kaupin þannig á Eyrinni, að menn byggðu hús og fengu svo lóðir hjá Gránufélaginu eftir á; húsin þá jafnan notuð sem viðmið til útmælingar. Í sumum heimildum er húsið talið byggt í áföngum, 1882 og 1884 (norðurhlutinn síðar) en Þorsteinn mun hafa byggt sinn hluta hússins örlítið fyrr. Til er ljósmynd frá 1882 sem sannar með óyggjandi hætti, að báðir húshlutar voru risnir þá. Fasteignaskrá segir húsið byggt 1880. Freistandi er að álykta, að Þorsteinn hafi reist suðurhlutann 1880 en Björn norðurhlutann 1881 en enginn er skráður til heimilis hér árið 1880, svo væntanlega hefur ekki verið flutt inn það ár. Það var svo árið 1885 að þeir Björn og Þorsteinn gengu frá því formsatriði við Gránufélagið, að fá lóðina keypta. Ekki var hún stór, 5 álnir (rúmir 3 metrar) út frá húsinu á alla vegu. Hafði Þorsteinn óskað eftir lóðinni árið áður.

Norðurgata 17 er í raun tvö sambyggð hús, suðurhluti er tvílyftur með lágu risi á lágum kjallara og snýr N-S þ.e. framhlið snýr að götu og gafl í suður. Grunnflötur suðurhluta er 5,3x6,9m. Lítil forstofubygging, 1,3x2,4m er yfir tröppum á suðurgafli. Norðurhlutinn snýr A-V þ.a. gafl snýr að götu. Sá hluti er einnig tvílyftur á lágum kjallara en með háu risi og þar af leiðandi ívið háreistari. Grunnflötur norðurhluta er 8,5x7,7m. Á norðurhlið er einnig tvílyft viðbygging úr timbri og með einhalla þaki, 5,8x3,2m að grunnfleti. Húsið er að hluta múrhúðað en grjóthleðslan víðast sjáanleg. Viðbygging að norðan er klædd svokölluðu listaþili og efsti hluti vesturgafls panelklæddur. Á ljósmynd frá 1882 er að sjá, sem upprunalega hafi suðurhlutinn verið ein hæð með háu mansardrisi en líklega hafa veggir efri hæðar verið hlaðnir stuttu síðar, risþakið mögulega bráðabirgðaráðstöfun. Ekki löngu eftir byggingu hússins, líklega um eða fyrir 1890 byggir Björn Jónsson við húsið til norðurs tvílyfta byggingu úr timbri með aflíðandi, einhalla þaki. Á ljósmynd frá 1895 sést, að viðbyggingin er komin.

Þorsteinn Einarsson (1852-1902) frá Brú á Jökuldal, byggði syðri hluta hússins og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni í nokkur ár en fluttist úr bænum árið 1886. Eignaðist Gránufélagið þá hans hluta hússins. Hann var járnsmiður en lagði stund á niðursuðu og starfrækti niðursuðuverksmiðju sína í Lundi, sem stóð fast vestan Steinhússins. (Lundur eða Gamli Lundur var rifin uppúr 1980 en í kjölfarið var hann endurbyggður frá grunni þ.e. „nákvæmlega“ eins hús reist á grunni þess og telst hann Eiðsvallagata 14). Í norðurhúsinu (Stóra Steinhúsi) starfrækti Björn Jónsson (1854-1920) prentsmiðju á neðri hæð og bjó á efri hæð. Björn var uppalinn í Öngulsstaðahreppi, mögulega fæddur á Ytra Hóli en þar er hann skráður í Manntali 1855. Prentsmiðjan var starfandi í húsinu fram til 1943 og þarna voru prentuð helstu dagblöð og tímarit á borð við Fróða, Stefni og Norðra yngri og einnig margar bækur. Var prentsmiðjan jafnan kennd við blaðið Fróða og talað um Fróða-Björn. Skv. Steindóri Steindórsyni (1993:85) er ein kenning sú, að gatan Fróðasund, sem liggur einmitt til vesturs frá baklóð Norðurgötu 17, sé kennd við hann. Ef þú lesandi góður, rekst á gamla bók frá fyrstu tugum 20. aldar, merkt Prentverki Björns Jónssonar, er hún væntanlega prentuð í Norðurgötu 17. Eftir lát Björns 1920 tók Helgi sonur hans við rekstri prentsmiðjunnar og rak hana til dánardægurs, snemma árs 1943. Nýir eigendur fluttu prentverkið úr Norðurgötu 17 í Hafnarstræti 96, tímabundið, en árið 1945 fluttist prentsmiðjan í ný og fullkomin húsakynni í stórhýsi við Gránufélagsgötu 4 (síðar þekkt sem JMJ húsið). Enda þótt prentsmiðjan skipti um eigendur síðar meir var hún ævinlega kennd við Björn Jónsson

Á gagnagrunninum timarit.is birtast nærri 200 niðurstöður fyrir Norðurgötu 17 eða 17a eða Norðurgata 17 í nefnifalli. Hafa ber í huga, að götuheitið Norðurgata og númer við hana komu ekki til sögunnar fyrr en um tveimur áratugum eftir að húsið var byggt. Elsta heimildin er frá júlí 1907, en þar er eigandi hnakktösku beðinn um að vitja hennar til Tryggva Árnasonar, sem þar er búsettur. Árið 1901 er húsið sagt „No. 15 Norðurgata“ (núverandi hús nr. 15 reis ekki fyrr en 1902) og þar voru búsettir 27 manns, fimm fjölskyldur, og efst á blaði þau Björn Jónsson og Guðrún Helgadóttir. Og þá var ekki búið í öllu húsinu þar sem prentsmiðjan var á neðri hæð í norðurhluta. Í Manntali 1890 eru hvorki meira né minna en 40 manns, sjö fjölskyldur búsettar í Prentsmiðjunni á Oddeyri. Þeirra á meðal eru Jósef Jónsson ökumaður og Kristín Einarsdóttir og fimm börn þeirra, þ.á.m. Jóhannes, síðar glímukappi og hótelstjóri á Hótel Borg, þá 7 ára gamall. Þau munu hins vegar á þessum áratugum hafa verið búsett í Lundi. Þegar manntalið er skoðað nánar, kemur í ljós, að Lundur á Oddeyri er hvergi nefndur á nafn. Því vakna óneitanlega hjá höfundi grunsemdir um, að Lundur hafi einfaldlega verið talinn undir Prentsmiðjunni í manntalinu 1890. Það er hins vegar ekkert útilokað, að Jósef og fjölskylda hafi verið búsett í húsinu þegar manntalið var tekið, enda þótt Jóhannes Jósefsson minnist aðeins á Lund sem sitt æskuheimili í ævisögu sinni. Á Oddeyri hófst barnaskólahald árið 1879 og stóð í rúma tvo áratugi. Ekki var um sérstakt skólahús að ræða, heldur kennt í hinum ýmsu húsum nokkur ár í senn. M.a. í Prentsmiðjunni en þar var hann til húsa síðustu tvö ár 19. aldar. Haustið 1900 var vandað skólahús tekið í notkun í Hafnarstræti 53 og þangað fóru börn af Oddeyri. (Barnaskóli reis ekki á Oddeyri fyrr en árið 1957). Eftir að prentsmiðjan fluttist úr húsinu mun það mestallt hafa verið lagt undir íbúðir. Íbúðaskipan hefur sjálfsagt verið nokkuð breytileg gegnum tíðina, lengst af voru t.d. tvær íbúðir í suðurhluta en nú mun hann ein íbúð. Árið 1989 voru fjórar íbúðir í húsinu öllu. Fjöldi íbúa hússins gegnum tíðina skiptir eflaust þúsundum, áratugina kringum aldamótum bjuggu t.d. að jafnaði tugir manna í húsinu í einu.

Norðurgata 17 var í hópi fyrstu húsa á Akureyri sem var friðað skv. Þjóðminjalögum, en það var árið 1982 og var það friðað í B-flokki sem þýddi að ytra byrði var friðað. Sem fyrr segir mun þetta eina húsið á Akureyri sem hlaðið er úr blágrýti en þó nokkur hús voru reist hérlendis með þeirri aðferð á svipuðum tíma. Mætti þar nefna stórar opinberar byggingar á borð við Hegningarhúsið (1874) og Alþingishúsið (1881) en einnig má nefna lítið grjóthlaðið sæluhús við Jökulsá á Fjöllum, (1883) sem mun alræmt fyrir draugagang. Þessi byggingaraðferð náði ekki slíkri útbreiðslu hérlendis, að hún teldist almenn. Sú skýring sem höfundi dettur helst í hug á því er einfaldlega sú, að það hljóti að hafa verið miklu erfiðara og seinlegra, eflaust dýrara líka, að reisa svona hús en hefðbundin timbur- eða torfhús. Það var ekki fyrr en löngu síðar, eða upp úr 1910 sem bygging steinhúsa varð almenn hérlendis og þá var það ekki þessi steinhleðsla sem varð ráðandi heldur steinsteypan.

Norðurgata 17 er sem áður segir friðlýst hús en friðun og friðlýsing er ekki það sama, öll hús yfir 100 ára eru t.d. aldursfriðuð en mun færri hús eru friðlýst sérstaklega og þá vegna sögu eða byggingargerðar eða þess háttar. Þessi hluti Norðurgötu (sunnan Eyrarvegar) er einnig metinn með varðveislugildi sem merk heild í Húsakönnun sem unnin var um Oddeyri fyrir um þremur áratugum og gefin út á bók. Norðurgatan í heild sinni er náttúrulega ein af áhugaverðari götumyndum bæjarins, hún er raunar eins og vel skipulagt safn íbúðarhúsagerðar hérlendis frá síðari hluta 19. aldar og fram á miðja 20. öld. Húsið er í góðri hirðu, skartar m.a. nýlegum gluggapóstum. Það setur óneitanlega svip sinn á umhverfið, sem eina húsið sinnar gerðar í bænum og er í raun visst kennileiti á þessum slóðum. Lóð hússins er öll vestan hússins og er hún mjög gróin og vel hirt. Norðvestantil á lóðinni ber mikið á gróskumiklu tré, sem höfundur giskar á, að sé silfurreynir. Síðustu ár hafa þrjár íbúðir verið í húsinu, ein í suðurhluta, og tvær – ein á hvorri hæð- í norðurhluta, sem telst Norðurgata 17a. Myndirnar af húsinu eru teknar 19. júní 2022 en myndin af silfurreyninum 21. október 2017.
_ _ _

Norðurgata 17 var fyrsta húsið sem höfundur tók fyrir á síðu sinni, arnorbl.blog.is undir yfirskriftinni „Hús dagsins“ og birtist sú grein, sem aðeins var fáeinar setningar, þann 25. júní 2009. Þegar þessi grein birtist eiga „Hús dagsins“ þannig 13 ára afmæli; komin á fermingaraldur. Þessi endurskrif um Steinhúsið eru þannig einhvers konar „afmælisgrein“ en það var auðvitað líka löngu tímabært, að uppfæra skrifin um þetta merka hús. Höfundur vill nota tækifærið og þakka góðar viðtökur, ábendingar og hvatningu frá lesendum gegnum tíðina. Þær veita ómælda ánægju og eiga drjúgan þátt í því, að þessi vegferð hefur staðið sl. 13 ár og nú síðustu vikur á akureyri.net.

Heimildir:

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Jóhannes Jósefsson. 1964. Jóhannes á Borg. Minningar glímukappans. Stefán Jónsson skráði. Reykjavík: Ægisútgáfan

Minjastofnun. (án höf). Akureyri- Norðurgata 17 -Gamla Prentsmiðjan. Umfjöllun á vefsíðu, sótt 21. júní 2022 á slóðina https://www.minjastofnun.is/hus-og-mannvirki/fridlyst-hus-og-mannvirki/akureyri/nr/619

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur

Manntöl og greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.

Liðleiki

Janus Guðlaugsson skrifar
03. mars 2024 | kl. 18:00

Lífið í skógarmoldinni

Sigurður Arnarson skrifar
29. febrúar 2024 | kl. 06:00

Geðdeild, sjálfshjálparnámskeið eða dómssalur?

Rakel Hinriksdóttir skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 16:20

Og Björk að sjálfsögðu

Sverrir Páll skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 15:00

Hús dagsins: Strandgata 19 b; Laxamýri

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 06:00

Malarvöllur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
26. febrúar 2024 | kl. 11:30