Fara í efni
Pistlar

Geðlæknirinn fer á barinn

Fræðsla til forvarna - XXIII

Kenningarnar um hvað styrki okkur mest og best og tryggi framgang mannsins snúast ekki lengur um hæfni þess besta (survival of the fittest) heldur um aðra hluti, sem ég varð vitni að nýlega.
 

Ég var staddur á bar. Á meðan barþjónninn bar fram drykkina fylgdist ég með fólkinu á staðnum. Við gluggann sat ungt og ástfangið par. Ungi maðurinn studdi hönd undir kinn og horfði sem dáleiddur á ungu fallegu konuna. Hún var með sítt ljóst hár og rauðmálaðar varir og hún talaði viðstöðulaust.

Við borðið í horninu sátu tveir vel klæddir miðaldra karlar og ræddu saman í rólegheitum. Stöku sinnum litu þeir á lítinn tölvuskjá sem var á borðinu á milli þeirra og af og til tóku þeir upp síma og töluðu stutta stund í hann. Fundur þeirra virtist fjalla um viðskipti og ganga vel. Þeir létu ekkert trufla sig og beindu þjóninum frá sér ef hann reyndi að nálgast borðið.

Við þriðja borðið, undir stórri blómaskreytingu sátu eldri maður og tvær konur á besta aldri. Það virtist liggja vel á þeim og þau töluðu hátt saman á óskiljanlegu tungumáli með handapati.

Allt í einu birtist lítið barn í gáttinni og það hljóp án minnsta hiks inn á mitt gólf. Barnið virtist ekki vera nema rúmlega eins árs og vera nýfarið að ganga og var með stutt dökkt hár og klæðnaðurinn þannig að ómögulegt var að sjá hvort þetta var drengur eða stúlka. Um leið og það birtist, beindist athygli allra á staðnum að því. Ungi maðurinn gleymdi samstundis nærveru ungu konunnar og hún stöðvaði ræðuna í miðri setningu. Viðskiptamennirnir misstu þráðinn og horfðu hissa á barnið. Þjónninn stansað á leið sinni á milli borðanna og stóð teinréttur með glasabakkann á milli handanna og góndi á barnið. Gamli karlinn var stokkinn á fætur og fylgdarkonur hans hrópuðu og kölluðu á barnið.

Allir viðstaddir höfðu snúið athygli sinni að barninu sem hljóp hring eftir hring. Þau reyndu öll að fá það til sín. Skyndilega var fólk farið að bera saman bækur sínar á milli borða: Hver á þetta barn? Hvaðan kemur það? Ertu svangur anginn minn, sagði einhver. Viðskiptafundinum var allt í einu lokið. Þjónninn var búinn að gleyma pöntuninni minni, já og mér líka. Athygli allra beindist að barninu og velferð þess.

Viðstaddir á þessum bar, þetta síðdegi voru allt í einu tengdir, líkt og þeir ættu eitthvað sameiginlegt, sem var velferð stúlkunnar. Já, þetta var stelpa sagði mamman okkur þegar hún nú birtist og tók barnið í fangið. Andrúmsloftið á barnum var gjörbreytt eftir þetta litla og hversdagslega atvik.

Ef við hefðum getað mælt Oxitocin hormónið í viðstöddum eða mælt starfsemina í Vagustauginni þá hefði hvort tveggja verið hækkað. Einnig hvíldarhormónið (DHEA). Streituhormónin hefðu aftur á móti verið lækkuð, allt samkvæmt kenningunni um að gæskan sem ungabarnið vakti er sterkasta aflið sem sameinar manneskjur og eflir mannkynið allt.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Oddeyrargötuöspin og hæðarmælingar trjáa

Sigurður Arnarson og Bergsveinn Þórsson skrifa
22. maí 2024 | kl. 19:00

Fimmtudagskvöld

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. maí 2024 | kl. 11:30

Kunningi frænda míns

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. maí 2024 | kl. 14:00

Dagur læknisins

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
17. maí 2024 | kl. 18:00

Kolefnissugur og endurskinshæfni gróðurlenda

Sigurður Arnarson skrifar
15. maí 2024 | kl. 13:30

Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 35 (Fagrastræti 1)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
15. maí 2024 | kl. 08:00