Fara í efni
Pistlar

Frystiklefafælni

Þegar ég var drengur að alast upp fyrir norðan, þetta var fyrir daga frystikistunnar, leigði unga fjölskyldan hólf í frystihúsi KEA niður á Oddeyri. Hólfinu var lokað með ramma á hjörum og strengt fyrir vírnet og læst með hengilás. Þarna var kjötbirgðum fjölskyldunnar komið fyrir eftir sláturtíð. Ég fór oft með pabba að sækja í matinn. Þegar komið var að frystiklefanum var fyrir honum stór og óvenjulega þykk hurð. Á henni var skringileg loka sem hægt var að ýta á innan frá, með langri ryðgaðri stöng, til varnar því að maður lokaðist inni. Þessi búnaður hurðarlæsingarinnar var framandi og erfitt að treysta á. Ekki síst þar sem veggir og hurð voru í þykkara lagi og útilokað að hjálparbeiðni eða hróp heyrðust. Og til að halda kuldanum inni lagðist hurðin sjálfkrafa að stöfum.

Þetta var allt saman býsna ógnvænlegt já og auðvitað kalt. Frá upphafi höfðum við með okkur verkaskiptingu sem pabbi stýrði. Hann sagði: Þú stendur nú heiðursvörð við dyrnar ljúfurinn og heldur dyrunum opnum á meðan ég sæki sláturkeppina og sviðin. Mér þótti þetta ábyrgðarhlutverk og betra hlutskipti en að þurfa að fara langt inn í frystiklefann og áttaði mig ekki á því fyrr en löngur seinna að hann var líklega jafn smeykur og ég.

Talið er að 3-5% okkar hafi innilokunarkennd sem er það alvarleg að hún truflar daglegt líf. T.d. að erfitt er að fara í lyftu, ferðast í flugvél eða vera í þrengslum almenningssalernis. Þetta kallast fælni. Talið er að um helmingur þeirra sem hafa fælni hafi orðið fyrir einhvers konar innilokun í bernsku. Taugafræðilega skýringin er rask á kvíðastjórn en hún situr efst í heilastofninum. Þetta er stjórnstöð sem stýrir kvíða og í kjölfarið ótta og varnarviðbrögðum við óþægilegum eða hættulegum ytri aðstæðum. Þegar þetta kerfi verður vanstillt verður bæði upplifunin og viðbrögðin ýkt og veldur forðun frá aðstæðum. Maður fær sterkan kvíða og forðast aðstæðurnar eins og hægt er.

Það er erfitt að hlaupa alltaf á milli hæða og leitt ef ferðirnar erlendis hefjast í kvíðakasti og truflandi að geta ekki pissað í hléi í leikhúsinu.

Margir hrista þetta af sér með aldrinum en ekki allir og þetta veldur vanlíðan og hindrunum. Við flestum tegundum af fælni er til árangusrík meðferð. Hún fer fram í viðtalsmeðferð eða hegðunarmótandi þjálfun og oft eru notuð lyf sem bæta kvíðastjórn og móta hegðun.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Ástand lands og landlæsi – Fyrri hluti: Staðan

Sigurður Arnarson skrifar
05. nóvember 2025 | kl. 10:00

Núvitund á mannamáli

Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir skrifar
04. nóvember 2025 | kl. 10:00

Á Miðhúsum

Jóhann Árelíuz skrifar
02. nóvember 2025 | kl. 06:00

Losnaði aldrei við höfuðverkinn

Orri Páll Ormarsson skrifar
31. október 2025 | kl. 18:00

Vorboðinn ljúfi

Sigurður Arnarson skrifar
29. október 2025 | kl. 09:30

Tár

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
28. október 2025 | kl. 11:00