Forynjan reyndist vera Herbert
ORRABLÓT - V
Herbergisþernurnar komu í loftköstum niður stigann á Hóteli Stefaníu í Hafnarstrætinu, svo rauk undan iljum. „Það hefur forynja tekið sér bólfestu á herbergi 302,“ hrópaði Jóhanna, „og hún gefur frá sér ískyggilegt hljóð,“ bætti Silla við, móð og másandi. Þeim var bersýnilega brugðið.
Fyrir þeim niðri urðu Sigga í móttökunni og pikkaló hótelsins sem ráku að vonum upp stór augu. Sigga, sem kallaði ekki allt ömmu sína enda komin í beinan kvenlegg út frá Þórunni hyrnu, mátti hins vegar ekki víkja úr móttökunni og ekki þótti henni forsvaranlegt að etja pikkalónum á foraðið enda var hann ekki nema 14 ára. Stefán, eigandi og hótelstjóri, var því ræstur út með hraði. Ráða yrði niðurlögum þessarar dularfullu forynju hið fyrsta. Við slíkt mætti ekki una, allra síst á stað sem byggir starfsemi sína á gestakomum.
Enginn man lengur hvort Stefán hélt upp stigann með kúbein eða sleggju en hann var í öllu falli þungvopnaður. Undirmenn hans horfðu áhyggjufullir á eftir honum og pikkalóinn var ósjálfrátt farinn að leggja drög að minningargrein um hótelstjórann í huganum. Allur er varinn góður.
Fáeinum mínútum síðar sneri Stefán aftur, heill á húfi og með alla limi jafnlanga. Glott var á vörum. Það var þá engin forynja á herbergi 302, aðeins hinn ástsæli dægurlagasöngvari Herbert Guðmundsson. Hann hafði þá gengið Soka Gakkai búddisma á hönd og hafði bara verið að kyrja sína morgunmöntru: Nam mjóhó renge kjó, nam mjóhó renge kjó. Kalla mætti kyrjunina bæn eða möntru sem í kjarnan er lofsöngur um helgi lífsins og möguleika manneskjunar til þess að birta æðstu mannúð í eigin lífi. En tónninn í þessu er dálítið spúkí og því ekki að undra að leikmenn eins og Silla og Jóhanna fengju nettan hroll.
Eftir þessa uppákomu var Herbert færður yfir í íbúð í gömlu timburhúsi handan götunnar, sem tilheyrði Hóteli Stefaníu, svo hann gæti kyrjað í næði. Pikkalóinn fékk við sama tækifæri það mikilvæga hlutverk að vekja popparann á morgnana. Stóð næstu daga og vikur (Herbert dvaldist heillengi þarna þetta sumar) á þröskuldinum á slaginu klukkan 11 og knúði dyra. Eftir að hafa heyrt dauft uml taldi hann verkinu lokið og gekk í burtu.
Frétt á forsíðu Akureyrarblaðsins Dags 12. maí árið 1985. Ingunn Árnadóttir klippir á borða undir vökulu auga eiginmannsins og hótelstjórans, Stefáns Sigurðssonar.
Eftir nokkra daga kom Stefán hótelstjóri að máli við pikkalóinn, þungur á brún. „Hvernig stendur á því, drengur, að þú ert ekki að vekja Herbert Guðmundsson, eins og ég bað þig um?“ Pikkalóinn kom vitaskuld af fjöllum og kvaðst hafa staðið sína plikt. „Nei, nei, drengur,“ gall þá í Stefáni. „Það nægir ekki að heyra uml. Þú verður að vera sannfærður um að hann sé kominn fram úr rúminu áður en þú yfirgefur svæðið.“ Eftir þetta hamaðist pikkalóinn á hurðinni hjá Herberti uns hann var sannfærður um að söngvarinn væri kominn á ról. Og ekki var aftur kvartað.
Fáeinum mánuðum síðar sendi Herbert frá sér breiðskífu og á henni var smellur sem naut fáheyrðra vinsælda og hefur lifað með þjóðinni fram á þennan dag. Höfundurinn hefur sjálfur haldið öðru fram í viðtölum, talað um fangavist og eitthvað þaðan af verra, en pikkalóinn hefur aldrei verið í minnsta vafa um að téð lag og texti hafi verið samið um þessi samskipti þeirra popparans á Hóteli Stefaníu sumarið 1985. Það liggur í nafni lagsins, Can‘t Walk Away!
Fram á þennan dag hefur pikkaló þessum ekki verið úthlutað tilkomumeira starfsheiti. Að ekki sé talað um tilbrigðin við stefið. Þannig kölluðu iðnaðarmenn, sem voru að störfum aðeins norðar í götunni, hann aldrei annað en Lóa. „Nei, góðan daginn Lói. Ertu að fara á pósthúsið?“
Sigga í móttökunni, sem var með hressustu konum, fór líka snemma að vinna með orðið giggaló – sem er auðvitað allt önnur týpa af manni. Kallaði unga manninn það út sumarið og sendi honum síðan jólakort merkt „Giggaló“.
Pikkalóinn lenti í smá vandræðum með að útskýra það fyrir foreldrum sínum.
Sigga, Sigríður Stefánsdóttir, varð síðar lögfræðingur og lögmaður í Reykjavík og virk í félagsstarfi. Hún lést langt fyrir aldur fram árið 2007. Blessuð sé minning Siggu.
Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.