Fara í efni
Umræðan

Eyjan hans Ingólfs

Skömmu fyrir jólin síðustu kom út svolítil bók eftir Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóra, en hann hefur varið frístundum sínum í að kynna sér fjölmargt í sögu þjóðarinnar, og áður til dæmis gefið út bókina Uppreisn Jóns Arasonar, um skáldið og biskupinn sem varð að lúta lægra haldi og missa höfuð sitt við svokölluð siðaskipti 1550. Nýja bókin kallast Eyjan hans Ingólfs og þar fjallar Ásgeir vítt og breitt um landnám á Íslandi og rekur saman ættir mikils hluta þeirra sem helguðu sér land hér á 9. öld. Vissulega veltir hann ögn fyrir sér búsetu í landinu fyrir þetta klassíska landnám norrænna manna, en í mjög miklum hluta bókarinnar fjallar hann um dvöl norrænna manna á eyjunum við Skotland, Orkneyjum, Ytri- og Innri-Suðureyjum og á Írlandi. Þar má segja að í hávegum sé hinn mikli ættbogi í kringum landnámskonuna Auði Ketilsdóttur flatnefs, hina djúpúðgu. Og síðan hvernig þessir ættingjar og tengdafólk leggja undir sig mestu sveitir Íslands, en deila landi svo með öðrum með ýmsum aðferðum.

Ég hafði mjög gaman af að lesa þessar vangaveltur Ásgeirs, sem hann byggir að töluverðum hluta á nokkrum gerðum Landnámu og Íslendingabók, vísar til Snorra og Sturlu og verka þeirra auk þess að grípa til annarra rita og ritgerða innlendra og erlendra. Það er til dæmis forvitnilegt og skemmtilegt hvað hann tengir og skýrir mörg viðurnefni og jafnvel nöfn fólks með vísun í keltnesk heiti og orð. Í mínum huga er hér um að ræða gott innlegg í hugmyndabankann um uppruna okkar að hluta við keltneskt samfélag í stað þess að telja okkur hreina norræna menn og konur. Þetta er sumsé tengt því sem meðal annars hefur komið fram í fyrirlestrum Þorvaldar Friðrikssonar, sem ég hef að vísu ekki heyrt nema af afspurn, en hann hefur sýnt fram á mikinn skyldleika íslenskra nafna, kennileita og einstakra orða við keltnesku fremur en norræn mál. Skemmtilegast er til dæmis að orðin stelpa og strákur munu vera keltnesk en ekki norræn, og svo er um margt fleira í orðaforða okkar og örnefnum. Ég sá til dæmis Heklu, Mt. Hecla, á Suður-Uist.

Ekki hefur Auður djúpúðga verið eina norræna konan á eyjunum við Skotland áður en haldið var áfram lengra og endað á Íslandi og margur norrænn sveinninn mun örugglega hefa tekið sér keltneska konu, eins og það var kallað. Melkorka var örugglega ekki eina keltneska stúlkan sem flutt var til Íslands og átti barn með norrænum manni. Við erum blönduð, og þegar ég kom fyrst til Suðureyja og Orkneyja fylltist ég einhvern veginn þeirri tilfinningu að hingað hefði ég átt að koma fyrr, hér ætti ég rætur.

Ýmsar spurningar vakna við að lesa bók eina og Eyjuna hans Ingólfs, hver svo sem hann var, hvort hann var og þá hverra manna. Það eru svo margir lausir endar í allri þessari sögu og upp spretta tilgátur sem vekja aðrar og nýrri. En mér þótti þetta skemmtileg lesning og þóttist verða ögn fróðari. Og bókin færir mér heim sanninn um nauðsyn þess að fræðimenn leggist enn frekar en orðið hefur í að rannsaka keltneskar rætur okkar Íslendinga. Það er svo margt í menningu okkar og listum sem á trúlega frekar rætur að rekja í þann sjóð en í norskar sveitir. Rithöfundar hafa leitað á þessar slóðir, meðal annars Svava Jakobsdóttir í Gunnlaðarsögu og Vilborg Davíðsdóttir með ævintýrunum um Korku og sagnaflokknum um Auði djúpúðgu. Ég er til dæmis dálítið skotinn í þeirri hugmynd að Þorsteinn rauður (rauðhærði), sonur Auðar, hafi ekki verið sonur hennar og Ólafs kóngs heldur hafi hinn írski rauðhærði þjónn hennar komið hér nokkuð við sögu. Fræðimenn eins og Helgi Guðmundsson og áðurnefndur Þorvaldur Friðriksson hafa fjallað um þessi keltnesku tengsl í orðum og örnefnum og fleiri máleinkennum og svo mætti áfram telja. Nú væri gaman að einhver skoðaði þetta enn nánar og kæmi því saman í einn stað.

Ég ætla mér ekki þá dul að leggja dóm á eignarhald hugmynda, eins og gert hefur verið í sambandi við þessa bók Ásgeirs. Í mínum huga og að mínum dómi eru þetta skemmtilegar vangaveltur gripnar úr ýmsum áttum og fléttaðar saman í þessa stuttu bók. Á einstöku stað er ónákvæmlega farið með nöfn og hefði ekki sakað að lesa eina próförk til, en það er smátt og rýrir ekki gildi bókar. Og ég þakka fyrir skemmtunina.

Sverrir Páll Erlendsson kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri frá 1974 til 2018.

Ert þú í tengslum?

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 08:58

Lærðu að nota nalaxone nefúða, það getur bjargað lífi

Ingibjörg Halldórsdóttir skrifar
07. júní 2024 | kl. 11:15

Þingmenn opnið augun ­og finnið kjarkinn

Jón Hjaltason skrifar
05. júní 2024 | kl. 15:10

Hvað er að frétta í lífi án frétta?

Skúli Bragi Geirdal skrifar
05. júní 2024 | kl. 12:00

Gaza - Almenningur og stjórnvöld á Íslandi verða að ná samstöðu

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
04. júní 2024 | kl. 16:40

Bílastæðagjöld á Akur­eyri og á Egils­stöðum

Ingibjörg Isaksen skrifar
30. maí 2024 | kl. 16:16