Flugþróunarsjóður efldur
Millilandaflug úti á landi verður ekki til af sjálfu sér. Svo það megi verða þarf markvissa stefnu, þolinmæði og að hið opinbera hafi raunhæf verkfæri til að styðja við uppbyggingu á viðkvæmum fyrstu árum. Flugþróunarsjóður hefur verið eitt slíkt, og árangurinn hefur ekki farið fram hjá neinum, ekki síst hér á Norðurlandi.
Á fimmtudaginn síðastliðinn samþykkti Alþingi fjárlög fyrir árið 2026. Þar er að finna mikilvæga styrkingu á Flugþróunarsjóði, en í meðferð fjárlagafrumvarpsins ákvað fjárlaganefnd Alþingis, sem undirritaður situr í, að bæta 100 milljónum króna við sjóðinn. Með því hækkar framlagið úr rúmum 240 milljónum í rúmar 340 milljónir króna. Ég studdi þá breytingu af heilum hug og tel hana skýrt skref í rétta átt.
Flugþróunarsjóður er verkefni sem hefur sannað gildi sitt í verki. Reglulegt millilandaflug til Akureyrar er skýrasta dæmið um það. Slíkt flug styrkir grundvöll ferðaþjónustu á Akureyri og í nágrenni, skapar forsendur fyrir fjölbreyttara atvinnulíf, dregur úr árstíðasveiflum og bætir jafnframt lífsgæði fyrir íbúa á stóru landsvæði. Þetta eru áhrif sem ná langt út fyrir flugvöllinn sjálfan og skipta samfélagið í heild máli.
Um leið er mikilvægt að horfa til þess hvernig sjóðurinn var upphaflega hugsaður. Þegar Flugþróunarsjóður var settur á laggirnar var miðað við 300 milljónir króna á ári. Sú upphæð hefur ekki fylgt verðlagsþróun og slagkraftur sjóðsins hefur því rýrnað með tímanum. Í ljósi þess er ljóst að þrátt fyrir þessa 100 milljóna viðbót er enn þörf fyrir frekari eflingu svo sjóðurinn geti sinnt hlutverki sínu til fulls.
Reynslan sýnir einnig að uppbygging millilandaflugs tekur tíma. Nýjar flugleiðir festa sig ekki í sessi á örfáum árum og því þarf stuðningsumhverfið að endurspegla þann raunveruleika. Sama á við um kynningu og markaðssetningu: flugleið er aðeins jafn sterk og vitundin um hana. Þar skiptir máli að fylgja fluginu eftir þannig að fjárfestingin nýtist sem best.
Ég mun því áfram beita mér, bæði í fjárlaganefnd og á Alþingi, fyrir því að Flugþróunarsjóður verði efldur enn frekar á komandi árum. Markmiðið er einfalt: að tryggja að Akureyri haldi áfram að styrkjast sem gátt inn í landið og að Egilsstaðir jafnframt fái tækifæri til að fylgja fast á eftir, þannig að uppbyggingin verði landsbyggðinni allri til heilla.
Ingvar Þóroddsson er þingmaður Viðreisnar í Norðausturkjördæmi
Opið bréf til samgönguráðherra
Treystir Viðreisn þjóðinni í raun?
Hvað þarf að gerast til að stórauka framboð íbúða og lækka verðið?
Braskvæðing almannagæða – fúsk og græðgi