Fara í efni
Pistlar

Barnaskóli Akureyrar – Fyrsti skóladagurinn

Saga úr Innbænum - VII

Við krakkarnir í Innbænum gengum í Barnaskóla Akureyrar og það er óhætt að nota sögnina að ganga því það gerðum við og enginn skutlaði okkur. Fyrir sex ára krakka var þetta talsvert ferðalag a.m.k. til að byrja með og þar í skólanum kynntumst við krökkum úr öðrum bæjarhlutum, sérstaklega af Brekkunni og það var á vissan hátt að kynnast nýrri menningu því að talsverður munur var á lífskjörum og aðstæðum eftir hverfum.

Ég man enn vel fyrsta skóladaginn í Barnaskóla Akureyrar. Það hafði verið mikil eftirvænting í marga daga hjá okkur Óla Badda vini mínum og við vorum mjög spenntir. Mamma fylgdi mér úr Aðalstrætinu, fram hjá Brynju og upp eftir stígnum sem við kölluðum Krókinn. Hann lá skáhallt upp brekkuna frá Aðalstræti 2, og við þræddum hann með runna og reynitré á vinstri hönd og bratta brekkuna niður að gömlu húsunum við Hafnarstræti á hægri hönd. Stígurinn endaði við ofanverðan Spítalaveginn og við héldum áfram eftir brún Eyrarlandsvegar fram hjá Lystigarðinum og Menntaskólanum og niður Möðruvallastræti að hliðinu og að lokum inn á skólalóðina.

Mér fannst skólahúsið stórt og virðulegt, e.t.v. örlítið ógnvekjandi, háreist og gluggarnir stórir. Eftirvæntingarfull börnin söfnuðust saman neðan við steintröppurnar sem lágu upp að skólahúsinu. Efst í tröppunum og á pallinum fyrir framan stórar dyr skólans stóð skólastjórinn Tryggvi Þorsteinsson höfðinglegur ásamt prúðbúnum kennurunum. Aðstoðarskólastjórinn Páll Gunnarsson hélt á stórri látúnsbjöllu sem hann hringdi í sífellu með háum og gjöllum hljóm. Við krakkarnir vorum látin stilla okkur upp, hver í sínum bekk og svo jöfnuðum við bilin með því að leggja hendurnar á axlir þess sem stóð næst fyrir framan. Síðan gengum við fylktu liði, hver bekkur í senn, á eftir kennaranum okkar, upp tröppurnar og inn í stóran og glæsilega skólann. Ég tók sérstaklega eftir efnismiklu handriði úr dökkbrúnum eðalviði á stiganum sem hringaði sig upp á efti hæðirnar og óvenjulega stórum eða réttara sagt löngum vaski úr hvítu postulíni sem var við einn vegginn. Já allt var stórt og framandi.

Barnaskóli Akureyrar. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri/Gísli Ólafsson

Okkar stofa var á neðri hæðinni og innarlega á ganginum og var merkt tölustafnum tveir og því kallað að vera í stofu tvö. Þegar inn kom var okkur vísað til sætis og þannig sátum við meira eða minna næstu sex veturna í sömu eða svipaðri uppröðun. Ég lenti í miðröð við hliðina á Árna Finnssyni. Fyrir framan okkur sátu Magnús Steinar Magnússon og Stefán Arnaldsson og þeir voru fremstir og alveg við kennaborðið. Aftan við okkur sátu Erla Jónsdóttir og Marta Vilhelmsdóttir og þar fyrir aftan voru svo held ég Guðbjörg Árnadóttir og Margrét Hlíf Eydal. Óli Baddi, Ólafur Björgvin Guðmundsson úr Hafnarstræði 9, lenti aftarlega í gluggaröð við hliðina á Kristjáni Guðjónssyni úr Bakkahöllinni. Aðrir í gluggaröðinni voru strákarnir Vilhelm Jónsson, Kristján Sigfússon, Guðmundur Sigtryggsson, Hjörtur Georg Gíslason, Jón Guðmann Ísaksson og seinna bættist við Sigmundur Ófeigsson. Í dyraröðinni voru eingöngu stelpur: Hanna Hilmarsdóttir úr Sjónarhæð, Signý Jónsdóttir, Edda Hrafnsdóttir, Edda Friðgeirsdóttir og Soffía Pálmadóttir, Laufey Sigurðardóttir, Guðný Aðalsteinsdóttir, Sólveig Sævarsdóttir og um tíma Hauður Helga Stefánsdóttir og Hrafnhildur. Þar voru einnig Ágústa Frímannsdóttir heitin sem um tíma bjó í Innbænum, Apótekinu að mig minnir og Tóta heitin, Þóranna var hennar nafn en því miður man ég ekki föðurnafnið. Þegar ég rifja upp nöfnin gæti hent að ég gleymi einhverjum en ég vona ekki því þetta var einstaklega góður hópur og minningarnar um hvern og einn í honum ljúfar.

Kennaraborðið var stórt og mikið og með fagurgrænni borðplötu og kennarastólinn var með stórum bogadregnum örmum, útskornu baki og setan var skásett þannig að eitt hornið snéri fram. Í stólnum sat kennarinn okkar Árni Rögnvaldsson og að baki hans breiddi stór græn kennarataflan úr sér og þakkti nánast allan vegginn. Ofan við hana héngu efnismikil landakort. Árni var nákvæmur og reyndur kennari en farinn að eldast og stundum hlupu yngri afleysingamenn í skarðið. Óli G Jóhannsson var einn af þeim og annar Rafn Haraldsson og þetta var ánægjuleg og hressileg tilbreyting fyrir okkur nemendur. Einnig kenndi Ingimar Eydal okkur um tíma og það var mjög lærdómsríkur og skemmtilegur tími.

Maður kynntist ekki mikið kennurum hinna bekkjanna en Áslaug og Björgvin Jörgensen eru minnistæð því þau voru virk í söngstundum sem haldnar voru að mig minni á mánudagsmorgnum. Þá var sett upp lítið ræðupúlt við stóran gluggan fyrir enda gangsins, einhver stutt ritning var lesin og svo sungin nokkur lög.

Í árganginum 1958 voru fjórir bekkir. Valið var í bekkina eftir lestrargetu og mælt hve mörg atkvæði voru lesin á tímaeiningu. Fyrir hvert stig sem maður hafði náð fékkst litríkt spjald í viðurkenningarskyni eftir því hvort maður náði að lesa 50, 100 eða 200 atkvæði á viðmiðunartímanum. Þetta kann í dag að teljast sérstakt fyrirkomulag. Sumir nemendur voru nokkuð vel læsir í upphafi fyrsta skólaársins en aðrir alls ekki. Mamma hafði skráð mig í vorskóla hjá Agli Þorlákssyni. Þetta var vinsæl aðferð til að efla lestrargetu og gaf ákveðið forskot við val í bekki um haustið. Vorskólinn var haldinn í kjallara Húsmæðraskólans og Egill var þarna orðinn gamall maður en naut mikillrar virðingar sem barnakennari. Hann notaði eigin lestrarbók við kennsluna sem ég rakst reyndar á í bókahillunni við tiltekt um daginn og heitir Stafrófskver (í 5. útgáfu Prentsmiðjunnar Leiftur h.f. í Reykjavík 1963).

Það var gaman í Barnaskóla Akureyrar og þennan fyrsta vetur kynntumst við venjum og skiplagi kennslunnar. Grunnstefið sem okkur var innrætt var held ég megi segja hve mikilvægt það væri að vera duglegur að læra. Mikið var hamrað á samviskusemi við námið og stundum kom Tryggvi skólastjóri með slíkar eldræður að réttara þótti að stunda námið vel, annars gæti þetta allt endað mjög illa. Hugað var að heilsu okkar barnanna. Hæð og lengd var mæld reglulega í skoðun hjá lækni í hvítum sloppi og skólahjúkrunarfræðingi með stífaðan kappa í hárinu og gefnar voru lýsispillur í skólanum, ýmist eldrauðar að lit eða gular. Stelpurnar voru hrifnari af rauða litnum því hann var nægilega sterkur til að lita mætti með honum varirnar áður en pillunni var kyngt. Einhverjir voru sendir í ljósaðmeðferðir sem fóru fram í kjallara skólahússins. Reglulega var skimað fyrir berklum með sýklavaka í brúnum plástrum sem límdir voru á brjóstið og eitthvað er þetta ógeðfellt í óljósri minningunni.

Sundkennsla fór fram í innilöginni í Sundlaug Akureyrar og bara við að skrifa orðið þá finn ég megna klórlyktina og allt er litað hafgrænum litum. Þarna réðu ríkjum að mig minnit Magnús og Ingólfur.

Leikfimin fór fram í tvískiptu húsinu sem enn stendur efst í „Kaupfélagsgilinu“ en sér salur var fyrir stelpurnar að sunnan og um þær sá Sigga sturta en að norðan höfðu strákarnir sinn sal og Ingi sturta sá um að allir færu bæði í heita og svo kalda sturtu, jafnvel þó hlaupið væri í gegn. Afsakið uppnefninguna en þetta tíðkaðist þá. Ég veit ekki fullt nafn Sigríðar en höfðingjann Ingólf Magnússon þekkti ég náið og þótti afar vænt um. Leikfimikennararnir voru, hjá okkur strákunum, Kári Árnason og að ég held Þórhildur Þorsteinsdóttir hjá stelpunum.

Þegar ég lít til baka og rifja þennan tíma upp þá finnst mér sem mikill metnaður hafi ríkt hjá skólayfirvöldum á Akureyri og ekki síður hjá kennurunum að búa vel að okkur börnunum og veita okkur tækifæri til vandaðs og gagnlegs náms og ég minnist þessa tíma með þakklæti og virðingu.

Ólafur Þór Ævarsson er Akureyringur, fæddur og uppalinn í Innbænum. Hann er geðlæknir og starfar einnig að forvörnum og fræðslu hjá Streituskólanum.

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Íþróttasíða Halls Símonarsonar

Jóhann Árelíuz skrifar
08. desember 2024 | kl. 13:00

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00

Grenivík

Jón Óðinn Waage skrifar
04. desember 2024 | kl. 13:00

Jólatré við JMJ og Joe's

Sigurður Arnarson skrifar
04. desember 2024 | kl. 10:30