Fara í efni
Pistlar

Ákall um umbætur í heilbrigðisþjónustu

Góður ásetningur og glötuð tækifæri – III

Ein af lausnum vanda Bráðamóttöku Landspítalans felst í að huga betur að skipulagi og samvinnu heilbrigðisþjónustunnar í heild. Skilgreina mætti mun betur hvaða þjónusta er veitt á Landspítalanum, í Heilsugæslunni og á sjálfstætt starfandi stöðvum, skerpa á verkaskiptingu og samstarfi. Slíkar skilgreiningar og reglur um samstarf starfseininga eru til á öllum Norðurlöndunum nema á Íslandi. Eins og staðan er nú ræður Landspítalinn ekki við hlutverk sitt og dembir sem mestu yfir í Heilsugæsluna sem er orðin eins og göngudeild fyrir erfið mál frá Landspítalanum og nær varla að sinna sínum eigin verkefnum. Ef heilsugæslustöðvarnar geta ekki lengur sinnt heilsugæslu og forvörnum, þá fjölgar það eðlilega komum annars staðar í kerfinu, líklegast á Bráðamóttökuna. Starfsstöðvar sjálfstætt starfandi lækna eru að einangrast og draga úr þjónustu og stýring kaupanda þjónustunnar, ríkisins, er horfin vegna samningsleysis og því óvissa um starfssvið margra stöðvanna og ekkert yfirlit yfir biðlista og starfssemi.

Sérhæfðar deildir innan spítalans, þar sem þekking á greiningu og meðferð viðkomandi sjúkdóma er mest, taka ekki við málum beint og hafa minna bolmagn til að fylgja flóknum málum eftir. Sjúklingurinn hefur því ekki annað val en að byrja á því að leita sér aðstoðar á Bráðamóttökunni áður en hann kemst á viðeigandi deild og síðan eftir útskrift þegar málinu er ekki fylgt nægilega vel eftir, þá þarf hann að fara aftur á Bráðamóttökuna og hringekja fer af stað með óþarfa kostnaði, bið og þjáningu og óþarfa álagi. Slík heilsuhringekja (Revolving door) er vel þekkt í heilbrigðiskerfum sem virka illa eða eru undirfjármögnuð. Sjúklingarnir lýsa þeirri tilfinningu að þeim finnist þeir ekki vera velkomnir því allt er gert til að losna við þá sem fyrst.

Mér dettur ekki í hug að ég sé færari en aðrir að koma með tillögur um lausnir en bara innan geðheilbrigðisþjónustunnar sem ég þekki best til eru margir þjónustuþættir sem mætti efla og bæta og hefði veruleg áhrif til góðs. Nefna má aukna og sérhæfðari þjónustu við aldraða geðsjúka, þ.m.t þá sem þjást af Alzheimer sjúkdómi. Geðræn einkenni og andleg færnisskerðing eru nefnilega algengustu ástæður fyrir þörf á vistun á hjúkrunarheimili. Samvinna Landspítala og öldrunarþjónustu eða öllu heldur skortur á samvinnu hefur verið mikið til umræðu og ljóst að fjölga þarf plássum og einfalda það ferli að skipuleggja flutning á dvalarheimili. Margir aldraðir bíða í langan tíma í óvissu og hafa litla möguleika á að skipuleggja þessa stóru breytingu.

Endurreisa þarf geðræna endurhæfingu í landinu en slík úrræði eru nánast horfin og löng bið eftir meðferð á þeim sérhæfu endurhæfingarstöðum sem enn starfa. Skyndilausnir duga ekki þegar fólk á við alvarleg geðræn vandamál að stríða. Þörf er sérhæfðrar endurhæfingar og eflingar færni sem tekur tíma en skilar að lokum oftast miklum árangri. Leiða má líkum að því að ef mikil andleg vanlíðan er til staðar í samfélaginu auki það þörf fyrir að almenna heilbrigðisþjónustu og þar með aukinn fjölda þeirra sem leita á Bráðamóttökuna.

Nýlegar fréttir segja frá samdrætti í ýmissi félagslegri þjónustu við geðsjúka sem hefur líka áhrif á þörf fyrir aukna heilbrigðisþjónustu.

Okkur heilbrigðisstarfsfólki hefur ekki tekist að að leysa vanda Bráðamóttökunnar þar sem vandi heilbrigðisþjónustunnar hefur kristallast og stjórnmála- og ráðamönnum ekki heldur. Þetta veldur vanmáttarkennd og vonleysi hjá okkur starfsfólknu, öryggisleysi hjá þeim sem þurfa á þjónustunni að halda og þverrandi trausti á ráðamenn og alþingismenn vegna þess að við heyrum stöðugt sömu fréttirnar aftur og aftur og þetta er niðurdrepandi. Líklegt er að þetta breytist alls ekkert fyrr en okkur tekst að byggja upp meiri og betri samvinnu og auka traust á milli þeirra sem starfa á gólfinu, í heilbrigðiskerfinu, stjórna því eða veita til þess fjármagns.

Þetta er alls ekki ómögulegt, en til þess þurfum við að taka höndum saman og gera þjóðarátak. Það er til staðar þekking, verklag og löngun hjá Alþingi, ráðuneytum heilbrigðis- og fjármála, heilbrigðisstarfsfólki og notendahópum til að skipuleggja þetta og framkvæma en okkur skortir pólitískt frumkvæði með sterkum leiðtoga sem er tilbúinn til að fara fyrir þessu verkefni.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Regnbogagífur og börkur gífurtrjáa

Sigurður Arnarson skrifar
19. júní 2024 | kl. 11:00

Samtalsráðgjöf við spunagreind, leiðbeiningar fyrir mannfólk

Magnús Smári Smárason skrifar
18. júní 2024 | kl. 12:00

Stillansar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
17. júní 2024 | kl. 11:30

Maðurinn sem aldrei svaf

Orri Páll Ormarsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 20:00

Sumarfrí mikilvæg heilsubót

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. júní 2024 | kl. 14:00

Fágætur heggur: Næfurheggur

Sigurður Arnarson skrifar
12. júní 2024 | kl. 10:00