Fara í efni
Ólafur Þór Ævarsson

Hafið efst í huga að gera ekki skaða

Primum non nocere
 
Þetta er fræg latnesk tilvitnun ætluð Hippokratesi föður læknisfræðinnar og þýðir: Hafið efst í huga að gera ekki skaða. Þetta hefur um aldir verið hvatning til lækna að gæta fyrst að því að læknisráðin, aðgerðin eða lyfjameðferðin gerði sjúklingnum meira gagn en skaða. Þessi gamla speki er djúpstæð í siðfræði læknisstarfsins og hefur verið gagnleg og haldið gildi sínu þegar valkostum meðferða hefur fjölgað og meðferðartækni þróast mjög hratt.
 
Í samfélaginu myndast oft heilsutíska með eftirspurn eftir ákveðnum meðferðum. Á sjötta áratugnum komu t.d. fram ný lyf gegn kvíða, s.k. bensodíazepin, viðurkennd af lyfjastofnunum, virk, auðveld í notkun og leystu af eldri róandi lyf sem gátu verið hættuleg. Þessi lyf urðu fljótt mjög vinsæl og of mikið notuð. Reynslan sýndi að þeim gat fylgt ávanahætta og stórir hópar fólks lentu í miklum vandræðum vegna lyfjanna. Í dag eru þau þó enn í notkun og gagnast vel í fáum völdum tilfellum og í afmarkaðan tíma og aðgæslu og eftirlits er þörf.
 
Stundum eykst notkun lyfja vegna áróðurs og allir þekkja hið hörmulega dæmi um ofnotkun sterkra verkjalyfja. Þar höfum við lært að ekki er gott að aðgengi að slíkum lyfjum sé of auðvelt og ekki er rétt að trúa upplýsingum gagnrýnislaust. Ekki má gleyma að þessi sterku verkjalyf eru afar mikilvæg fyrir ákveðinn en lítinn hóp sjúklinga og stýrt af læknum með sérþekkingu. Þriðja dæmið er hratt vaxandi notkun örvandi lyfja, sem ætluð eru til að lækna sjúklega truflandi athyglisbrest, en nú hjá fólki sem ekki ber skýr merki ADHD. Þó viss hópur sjúklinga hafi ómetanlegt gagn af slíkri lyfjameðferð þá erum við læknar farnir að sjá vandamál tengdum þessum meðferðum.
 
Í leit mannsins að Lausninni er nú greinilega að hefjast tímabil þar sem búast má við aukinni notkun hugvíkkandi efna. Það er gagnlegt að svo mikil umræða er þegar farin í gang því þá gefst tækifæri til að skoða allar hliðar málsins og það er mikilvægt að nýta vísindalega þekkingu og aðferðafræði og svo í framhaldi af því virða þau öryggisviðmið sem eftirlitsstofnanir setja áður en notkun hefst. Hugvíkkandi efnin eru áhrifarík og vonandi meir til góðs en ills. Sagan kennir okkur, að þrátt fyrir að ný og góð lausn virðist í sjónmáli, þá er betra að sína varkárni og nýta þá þekkingu og vísindalegu aðferðarfræði sem til er. Annars mætti varpa fram þeirri áleitnu spurningu hvort betra verði að nýta siðfræði, varkárni og vísindi læknisfræðinnar til mats og stýringar meðferðar eða hvort við látum tísku eða stjórnmál ráða för eða að maður geti keypt slík efni án læknisfræðilegs mats.
 
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Heilsukvíði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
09. maí 2024 | kl. 10:00

Geðlæknirinn fer á barinn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
21. mars 2024 | kl. 09:45

Feimni

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
20. mars 2024 | kl. 10:10

Er betra að búa í 600 en 200?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
04. janúar 2024 | kl. 12:20

Jólapóstur

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
19. desember 2023 | kl. 17:30

Skimun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
25. nóvember 2023 | kl. 14:00