Tár eru flókin líffræðileg blanda sem innihalda vatn, sölt, prótein og fituefni. Þau eru nákvæmlega samsett til að vernda, hreinsa og næra yfirborð augans og í þeim eru margs konar efni sem vernda gegn sýklum og þurrki.
Og þegar tárin flæða og við grátum þá eru það náttúruleg tilfinningaviðbrögð sem hjálpa til við að létta á depurð, spennu og streitu. Við grátum til að takast á við það sem er yfirþyrmandi og sérlega erfitt og þegar við grátum flæða áhrifarík hormón út í blóðið og örva slökun og félagslega nánd í þeim tilgangi að vernda og styrkja geðheilsu.
Þegar við grátum breytist flókið samspils hormóna og taugakerfis. DHEA virkni eykst, en það er verndandi jafnvægishormón sem róar ýmsar heilastöðvar og dregur úr harkalegum eða orkufrekum viðbrögðum, eflir skapstjórn og stuðlar að róun, íhugun og hvíld. DHEA hefur þessi áhrif með virkni á taugaboðefni heilans, f.o.f. í Serotonin- og Dópamín-boðefnakerfunum, sem liggja frá djúpheila til framheila. Frá frumstæðari hluta heilans til háþróaðra svæða. Dýratilraunir sýna að DHEA verndi heilavefinn og geti jafnvel örvað nýmyndun taugafruma úr stofnfrumum sem er stórmerkilegt ef rétt reynist líka hjá mönnum.
DHEA (e. dehydroepiandrosterone) er hormón sem er framleitt í nýrnahettuberkinum eins og Kortisól og það streymir út í blóðið og hefur áhrif á tilfinningastjórn, álagsþol og endurhleðslu. Ég hef ekki fundið íslenskt nafn yfir það og kalla það einfaldlega Hvíldarhormón. Það virkar best þegar við kyrrum hugann, slökum á líkamanum eða grátum.
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir