Fara í efni
Ólafur Þór Ævarsson

Að vera öðruvísi

„Hann bindur ekki bagga sína sömu hnútum og aðrir“

„Hún er dálitíð spes“

„Hann er ekki eins og fólk er flest“

„Hún er skrítin“

Þetta er orðanotkun um þá sem skera sig úr fjöldanum vegna óvenjulegs útlits eða enn frekar vegna undarlegrar hegðunar eða framkomu.

Oftar en ekki er þetta vegna skringilegs talsmáta eða óvenjulegs persónuleika. Og stundum vegna tímabundinna breytinga á hegðun vegna geðsjúkdóma. Þeir sem eru með óvenjulega persónuþætti hafa stundum innsæi og skilning á hvernig þeir virka á aðra og geta lagað framkomu sína. Aðrir hafa engan skilning eða getu til breytinga og eru bara eins og þeir eru. Og það getur bæði truflað eða hrifið. Og stöku sinnum finnst þeim skrítna bara betra að ýkja skringilegheitin og gengst upp í að vera spes.

Núorðið þekkir fólk tímabundna hegðunatruflun í kjölfar geðsjúkdóma eins og vænissýki í geðklofa eða maníu við geðhvörf og minnistruflun hjá þeim sem hafa Alzheimer sjúkdóm. Hegðunartruflun í kjölfar sjúklegs kvíða með áráttu-þráhyggju eða félagsfælni er mun meira falin og depurð og framtaksskerðing við sjúklegt þunglyndi getur valdið lúmskri truflun á samskiptum. Feimni hefur líka oft truflandi áhrif á hegðun og dylur getu og sjarma viðkomandi.

Það sem er framandi eða öðru vísi vekur hjá okkur óöryggi og kallar oft eftir neikvæðum viðbrögðum. Neikvæðu viðmóti, höfnun, afskiptaleysi eða lélegu gríni. Þá er stutt í útilokun eða einelti.

Sá sem sker sig úr, hvort sem það er alltaf eða tímabundið, upplifir líka óöryggi í samskiptum, finnur fyrir einangrunarkennd, verður einmana og utanveltu og verður enn klaufalegri í framkomu. Þetta er oft upphaf vanlíðunar eða álags og jafnvel andlegra veikinda. Ef þið skoðið hug ykkar þá hafið þið öll mætt einhverjum sem ykkur leist hreint ekkert á í byrjun en reyndist við nánari kynni yndisleg mannvera og allt öðru vísi innréttuð en þið hélduð.

Við upphaf skólaársins, í nýja starfinu, við fyrstu kynni af innflytjandanum, já í fyrstu heimsókn kærasta dótturinnar, sýndu víðsýni og mildi og gefðu þeim skrítna og þeirri undarlegu séns.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Þannig týnist tíminn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
08. desember 2025 | kl. 10:00

Hversdagshetjur

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
01. desember 2025 | kl. 09:00

Einmanaleiki

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
16. nóvember 2025 | kl. 06:00

Frystiklefafælni

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
06. nóvember 2025 | kl. 06:00

Tár

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
28. október 2025 | kl. 11:00

Illkynja geðsjúkdómar

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
22. október 2025 | kl. 13:30