Illkynja geðsjúkdómar

Illkynja geðsjúkdómar (e. Severe Mental Illness)
Þetta eru alvarlegustu geðsjúkdómarnir og þeir sem hafa veruleg áhrif á daglegt líf, trufla námsgetu, starfshæfni og félagslega virkni og geta valdið geðfötlun og jafnvel leitt til dauða. Talið er að u.þ.b 10 af hverjum 100 sem veikjast af geðsjúkdómi séu svo óheppnir að sjúkdómurinn þróist í illkynja veikindi sem trufla hegðun, lífsgæði og félagslega heilsu. Í erlendum rannsóknum mælist algengi illkynja geðsjúkdóma 2-4% sem gæti þýtt að 11-15 þúsund manns séu í þessum hópi á Íslandi í dag. Dæmi um slíka sjúkdóma eru alvarlegustu tegundir af geðklofa (e. Schizophrenia) og geðhvörfum (e. Bipolar Disorders) eða kvíða- og þráhyggju sjúkdómum (Obsessive-Compulsive Disorders). Öll fíkn (e. Substance use Disorders) getur fengið illkynja sjúkdómsgang.
Í öllum tilfellum má bæta líðan en það sem gerir þessa sjúkdóma illkynja er að þeir setja sín spor á lífsgæði, heilsu og lífslengd. Rannsóknir sýna að þeir geta valdið fötlun og stytt meðalævina um allt að 15 ár.
Áhrifaríkustu þættir fyrir góðan árangur er að meðferð sé aðgengileg, hefjist snemma á ævinni og að góð samfella sé í meðferð og endurhæfingu.
Ef gerð er gróf nálgun skv. erlendum rannsóknum má búast við að á hverju ári veikist um 150-300 manns með þessum hætti á Íslandi og langflestir eru á unga aldri og hafa ekki enn komið undir sig fótunum og mikil hætta er á að veikindin muni trufla nám þeirra, störf og möguleika á að stofna fjölskyldu. Þeir sem er að veikjast eða eru orðnir veikir með þessum hætti myndar sjaldan sterkan þrýstihóp um umbætur í þjónustu.
Aðstæður í heilbrigðiskerfinu í dag eru því miður ekki nægilega hagstæðar fyrir þennan sjúklingahóp og það snertir okkur öll því í fjórðu hverri fjölskyldu er einhver með Illkynja geðsjúkdóm og ljóst er að ef ekki tekst að veita meðferð sem leiðir til sjálfstæðis og stöðugleika og ef þörfum þessa viðkvæma hóps er ekki mætt þá veldur það auknu álagi á heilbrigðiskerfið, sérstaklega bráðaþjónustu þegar vandamálin eru ekki leyst til frambúðar.
Hér leynast tækifæri til að bæta líðan, vinna gegn fordómum og spara fjármuni.
Talið er að hver króna sem lögð er í meðferð og endurhæfingu skili sér margfalt (4-7 sinnum) til baka til samfélagsins.
Ef vel tekst til með meðferð þessara sjúkdóma og góð samvinna næst strax í upphafi, tekst nær alltaf að bæta líðan, oft að draga úr fötlunaráhrifum og stundum, en ekki nærri nægilega oft, að ná fullum bata.
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir
Athugasemd höfundar
Fyrir um hálfri öld jafngilti greining um krabbamein dauðadómi og öflugar, árangursríkar meðferðir voru ekki í boði.
Aukin þekking, gott aðgengi að meðferð og ekki síst breytt viðhorf hafa gjörbreytt stöðunni.
Hliðstæð breyting hefur verið mun hægari varðandi þróun meðferðar gegn geðsjúkdómum og tregða verið á viðhorfsbreytingum vegna fordóma. En aukin þekking á starfssemi heilans, nýr skilningur á mikilvægi félagslegrar heilsu og áhrifum tækninýjunga á líðan okkar eru líkleg til að flýta þessari þróun í framtíðinni.


Rámur kálfur í túnjaðri

Jävla Öxnabrekkan

Skáldið Jónas Þorbjarnarson (1960-2012)

Vatnsskaði – Um áhrif flóða og vatnsmettunar jarðvegs á tré
