VMA: Listnám í fyrsta skipti í kvöldskóla
Á haustönn 2024 býður Verkmenntaskólinn á Akureyri í fyrsta skipti upp á listnám í kvöldskóla. Þetta verður tveggja anna nám og hefur það að markmiði að opna heim sjónlista fyrir nemendum og búa þá sem það kjósa undir nám á háskólastigi á sviði skapandi greina sem byggja á sjónlistagrunni. Námið verður á tveimur önnum, haust- og vorönn, og telur í það heila ríflega 70 einingar.
Á vef skólans segir að námið verði þannig byggt upp að á hvorri önn verði tvær átta vikna námslotur. Í hvorri námslotu verða kenndir fjórir áfangar, þar af þrír verklegir og einn bóklegur. Kennt verður þrjá daga vikunnar, mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga kl. 16:15-20:55. Um kennsluna sjá kennarar á listnáms- og hönnunarbraut VMA.
Innritunargjald í námið er kr. 106.000 kr. á 1. önn og kr. 82.500 á 2. önn
Eins og hér kemur fram er æskilegt að nemendur hafi lokið stúdentsprófi eða öðru námi á 3. þrepi, séu komnir áleiðis í námi eða hafi annan undirbúning sem gæti talist sambærilegur. Verði námsumsóknir fleiri en nemapláss verður horft til fyrra náms og annars undirbúnings við inntöku.

Frá sýningu nemenda VMA í Ketilhúsinu, sem er hluti Listasafnsins á Akureyri.
„Með því að bjóða upp á þetta nám vill VMA koma til móts við þá sem hafa löngun til þess að efla færni sína á ýmsum sviðum sjónlista en hafa ekki átt þess kost að sækja slíkt nám í dagskóla. Það skal undirstrikað að þetta er viðbót við það listnám í dagskóla sem hefur verið í boði í VMA til fjölda ára. Eftir sem áður verður að sjálfsögðu í boði nám í dagskóla á listnáms- og hönnunarbraut,“ segir á vef skólans.
Borghildur Ína Sölvadóttir, kennari á listnáms- og hönnunarbraut, sem hefur ásamt fleirum unnið að skipulagi og uppsetningu þessa náms, segir að verklegt nám verði sett á oddinn. Nemendur fái eins og í dagskólanum innsýn í fjölmarga og ólíka þætti í listsköpun og markmiðið sé að nemendur þeir eigin farveg og áhugasvið í sjálfstæðri sköpun. Nemendum gefist kostur á því að vinna ferlimöppur sem nýtist til umsóknar um framhaldsnám í listum og/eða hönnun á háskólastigi.
„Auk verklegra áfanga verður m.a. boðið upp á bóklega áfanga eins og t.d. listasögu og listir og menningu. Til viðbótar við ýmsa verklega áfanga sem dagskólanemendur á listnáms- og hönnunarbraut taka verða í kvöldskólanum áfangar í vöruhönnun og stafrænni vinnslu í Fab Lab,“ segir á vef VMA.
Borghildur Ína segir að miðað við fyrirspurnir um slíkt nám sé hún bjartsýn á að nægilegur fjöldi nemenda skrái sig til þess að unnt verði að ýta því úr vör á komandi hausti, haustönn 2024.
Skráning er hafin í þennan nýja kvöldskóla í listnámi og stendur til 10. júní nk. Hér er hægt að skrá sig.
Eflum SAk
Tryggjum öryggi eldri borgara
Duga aðgerðir ríkistjórnarinnar til að rífa fjölda eldri borgara úr fátæktargildrunni?
Sterk ferðaþjónusta skapar sterkara samfélag