Fara í efni
Umræðan

Þrjú stig og Sandra rauf 100 marka múrinn!

Sandra María Jessen - 101 mark í 161 leik í efstu deild Íslandsmótsins er frábært afrek! Mynd: Skapti Hallgrímsson

Landsliðskonan Sandra María Jessen var í aðalhlutverki í dag – einu sinni sem oftar – þegar Þór/KA sigraði Stjörnuna 4:1 í Bestu deildinni í knattspyrnu í Garðabæ.

Ekki nóg með að Sandra María gerði tvö mörk í leiknum heldur var fyrra markið það eitt hundraðasta sem hún gerir í efstu deild Íslandsmótsins fyrir Þór/KA – í 161. leiknum.

Stjarnan náði forystu í dag þegar Hrefna Jónsdóttir skoraði á 6. mín. eftir afar undarlega tilburði Shelby Money, markvarðar Þórs/KA. Gestirnir hresstust fljótlega, léku bærilega það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en tóku síðan öll völd í þeim seinni.

Sandra jafnaði á 30. mínútu. Agnes Birta Stefánsdóttir skaut að marki langt utan af velli og Sandra stýrði boltanum rétta leið úr miðjum vítateignum. Sögulegt mark þessa frábæra framherja, það 100. í efstu deild.

Annað mark Þórs/KA var einnig sögulegt. Emelía Ósk Krüger (fædd 2006) var í byrjunarliðinu þriðja leikinn í röð en meiddist í lok fyrri hálfleiks og Hildur Anna Birgisdóttir (fædd 2007) leysti hana af hólmi þegar seinni hálfleikur hófst.

Hildur Anna gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr hornspyrnu strax á annarri mínútu seinni hálfleiksins! Þetta var fyrsta mark hennar fyrir Þór/KA.

Margrét Árnadóttir gerði þriðja markið á 49. mín. af stuttu færi – eftir aðra hornspyrnu Hildar Önnu.

Það var svo Sandra María sem setti punktinn yfir i-ið með fjórða og síðasta markinu. Hún skoraði þá úr markteignum eftir fyrirgjöf Amalíu Árnadóttur og hefur þar með gert 101 mark í efstu deild Íslandsmótsins í 161 leik, sem er frábær árangur.

Sandra María Jessen er lang markahæst í Bestu deildinni, hefur nú gert 12 mörk í átta leikjum. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir Breiðabliki er næst með sjö mörk.

Þór/KA er í þriðja sæti Bestu deildarinnar með 18 stig að loknum átta leikjum. Breiðablik efst með 21 stig og Valur 18, bæði eftir sjö leiki.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Mikilvægara en veiðigjöldin

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
09. júlí 2025 | kl. 15:00

Að klára verkefnin – hvað er í gangi á Ásnum ?

Jón Stefán Jónsson skrifar
07. júlí 2025 | kl. 08:50

Ef við getum ekki lækkað fasteignaskatt, þá eigum við að hagræða

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
03. júlí 2025 | kl. 14:00

Verulegt rými til framfara

Árni Guðmundsson skrifar
02. júlí 2025 | kl. 11:00

Látið hjarta Akureyrar í friði

Guðjón Heiðar Pálsson skrifar
01. júlí 2025 | kl. 06:00

Fiskeldi og samfélagsábyrgð

Eyjólfur Ármannsson skrifar
30. júní 2025 | kl. 09:45