Kæra frú Inga Sæland.
Það er óhætt að segja það að þú komir með hvelli inn í nýtt embætti. Það þarf ekki að vera slæmt ef fólk hefur þekkingu á því sem það lætur frá sér. Þegar ég hlustaði á Kastljóssviðtalið við þig fyrr í vikunni fór ýmislegt í gegnum kollinn á mér, ég gat ekki gert það upp við mig hvort ég ætti að hlægja eða gráta. En ég ákvað að nota þá aðferð gamalreynds kennara að gefa mér tíma til að hugsa málið. Það er aðferð sem ég nota þegar ég þarf að eiga við nemendur í tilfinningalegu ójafnvægi og verða á mistök í hvatvísi. Þá er betra að fullorðna fólkið temji sér ró og sé í jafnvægi. Ég er svo lukkuleg að ég hef 38 ára reynslu við kennslu og hef nánast allan tímann kennt unglingum.
Í gegnum tíðina hef ég spjallað við fólk af minni kynslóð um nám og námsárangur og hef einmitt hnotið um karla sem hafa sagt farir sínar ekki sléttar þegar þeir voru drengir þar sem þeim gekk brösuglega að læra að lesa. En þeir urðu að mönnum og komust í góð störf og létu drauma sína rætast. Það sem þeir hafa þó átt sameiginlegt var að þeim var kennd þrautseigja og áttu sterkt og gott bakland. Þar getur nefnilega skilið á milli feigs og ófeigs því börn læra ekki að lesa í skólanum einum og sér. Það er gömul saga og ný. Þessir menn urðu t.d. flugstjórar, skipstjórar o. fl.
Ég er ansi hrædd um að það færi um sjómenn ef það birtist skipstjóri með hvelli um borð í skip ef hann svo reyndist ekki kunna á stjórntækin um borð eða ef flugstjóri kæmi á sömu forsendum um borð í flugvél, þá færi trúlega um áhöfn og farþega! Þetta var það sem rann í gegnum höfuðið á mér þegar ég hlustaði á viðtalið við þig.
Þú fórst með rangt mál í ýmsu og ég hefði ráðlagt þér að þiggja ekki boð í þetta viðtal fyrr en þú hefðir aflað þér haldbærrar vitneskju. Ég vona líka að minnisblöðin sem þú rótaðir ákaft í fyrir framan þig hafi ekki verið skrifuð af sérfræðingunum sem eiga að aðstoða þig í ráðuneytinu.
Þú hengdir þig á skyndilausnir og fullyrtir að öllu yrði bjargað með því að innleiða læsisverkefnið Kveikjum neistann í alla íslenska skóla því það væri hluti af finnsku leiðinni sem þú ætlar líka að innleiða. Vonandi veistu núna að þetta læsisverkefni er ekki hluti af þeirri leið, það er íslenskt verkefni. Vonandi veistu líka núna að verkefnið Byrjendalæsi er þróað á Íslandi og hefur ekkert með Breta að gera. Íslenskir kennarar og fræðimenn hafa nefnilega í gegnum tíðina verið að gera frábæra hluti. Það sem stendur uppúr í fræðum Pasi Sahlberg sem skrifaði og þróaði finnsku leiðina er að fagmennska og sjálfstæði kennara fái notið sín og að heildræn sýn á skólastarf sé grundvallarstoð. Hann leggur líka áherslu á traust í stað prófamiðunar. Það skiptir meira máli að börn læri til framtíðar til að láta drauma sína rætast en að þau læri með það að markmiði að standast einhver próf. Ég hef alla tíð unnið samkvæmt því án þess að það hafi heitið finnska leiðin og á orðið fyrrum nemendur í flestum starfstéttum samfélagsins.
Á löngum starfsferli hef ég farið í gegnum ýmislegt og ætla ég nú ekki að fara í gegnum það allt. Fátt eitt ætla ég þó að nefna. Ég hef farið í gegnum í það minnsta fimm verkföll til þess að ná fram launum til að geta lifað og ævinlega vonað að kennarastarfinu yrði sýnd sú virðing sem það á skilið. Ég var líka til staðar þegar námsmati var breytt úr tölustöfum í bókstafi, fyrirskipun úr ráðuneyti, en það sem fylgdi var að kennurum var gert að finna út úr því hvað lægi að baki bókstöfunum auk þess að breyta námsmatinu í heild sinni. Það var mikil vinna sem var unnin til hliðar við skólastarfið, í alls ógreiddum aukatíma! Kennarar létu sig hafa það því þeim er fyrst og fremst annt um nemendur sína.
Þá má líka nefna Covid. Kennurum var gert að mæta til vinnu til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi auk þess sem óttast var um andlega velferð barna og ungmenna. Allt í einu er eins og kviknaði á perunni hjá þeim sem lengst af hafa gagnrýnt skólakerfið og við urðum framlínufólk. Þetta var eftirminnilegur tími þar sem ég kallaði nemendur mína, sem þá voru að ljúka 10. bekk, að fjarfundabúnaði snemma á morgnanna til að lesa með þeim Grettissögu, meðal annars. Síðan ók ég á vinnustað rétt fyrir hádegi til að taka á móti þeim í litlum hópum til að leggja fyrir þau verkefni og að lokum námsmat sem allir stóðu sig vel í. En trúlega var það samt aðalmálið að mér tókst að blása von og þrautseigju í brjóst þeirra og þau áttuðu sig á því og voru tilbúnari en nokkru sinni fyrr að leggja á sig vinnu.
Þegar Covid hafði runnið sitt skeið sem stórhætta þá mátti áfram hnýta í kennara og skólakerfið og það er orðin lenska að tala sem verst um það þegar kemur að lausum samningum og vonir standa til þess að laun skáni og að virðing sé borin fyrir þessu mikilvæga starfi!
Þegar spyrillinn í viðtalinu kom að því að dregið hefði aftur úr árangri Finna þá hét það allt í einu að það hefðu orðið breytingar á samfélaginu vegna alþjóðamála. Vanlíðan og kvíði hrjái Finna vegna þess sem er og hefur verið að gerast í heiminum síðustu árin. Gæti verið að það væri eins með íslenskt samfélag? Reyndar þarf ekki endilega að horfa bara til heimsmála hér á landi því landinu sjálfu hefur verið illa stjórnað síðustu áratugi, kökunni verulega misskipt! Það þýðir þá að það eiga ekki öll börn sterkt bakland, m.a. til að læra að lesa, vegna þess að stór hópur fólks vinnur myrkranna á milli til að eiga í sig og á, fyrir sig og börnin sín. Það veldur vanlíðan og kvíða!
Mín tillaga er sú að í stað þess að hnýta stöðugt í skólakerfið eitt og sér verði horft til heildrænna breytinga því foreldrar og stjórnvöld eru líka hluti af því kerfi. Það þarf að gera menningarbreytingar og ég vona að þú sért manneskja til þess!
Ég er svo heppin að ég ólst upp við þrautseigju og kærleiksríkan aga annars væri ég trúlega löngu búin að yfirgefa þennan starfsvettvang. Ég læt stór orð um það að skólakerfið hafi brugðist sem vind um eyru þjóta því að mér er kunnugt um allt það frábæra starf sem fram fer í íslenskum skólum. Skólafólk er framlínufólk á hverjum einasta degi og íslenskt samfélag státar af hæfileikaríkum börnum og ungmennum, sama hvers kyns þau eru! Þau eru sannkallað ljós framtíðarinnar og það er á ábyrgð okkar allra að varðveita það ljós með jákvæðni og bjartsýni!