Fara í efni
Umræðan

Sér mikla möguleika í sameiningu háskólanna

Hans Guttormur Þormar hefur verið ráðinn verkefnastjóri í viðræðum um mögulega sameiningu Háskólans á Akureyri (HA) og Háskólans á Bifröst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HA.

Hans er með meistaragráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands og hefur unnið að viðamiklum rannsóknum á ýmsum sviðum, þar á meðal lífefna- og sameindalíffræði og hafa rannsóknirnar oft og tíðum verið í alþjóðlegu samstarfi, segir í tilkynningunni. „Hann hefur á sínum ferli leitt fjöldamörg samstarfsverkefni, þar á meðal uppbyggingu Djúptæknikjarna í Vatnsmýrinni, og í hans verkefnum hefur reynt á að koma á breytingum í hugsun hvað varðar samvinnu einstaklinga frá ólíkum sviðum, stofnunum og fyrirtækjum.“

Aðspurður um ráðninguna segir Hans að í starfinu framundan liggi miklir möguleikar: „Ég sé mikla möguleika felast í því að sameinaður háskóli gæti aukið gæði og fjölbreytni námsframboðs, eflingu rannsóknaumhverfis, grunnrannsókna og nýsköpunar auk þeirra samfélagslegu áhrifa sem berast út í nærsamfélög háskólanna. Meiri samvinna um rannsóknir, styrkumsóknir, kennslu og stjórnun held ég að sé alltaf af hinu góða. Við verðum að byggja á því sem við erum góð í og byggja það upp saman,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur:

Hann er þó meðvitaður um að slíkri vinnu fylgja áskoranir og meðal annars í að finna þá sameiginlegu fleti þar sem eru tækifæri til samlegðaráhrifa. „Það þarf að finna þá fleti þar sem starfsfólk, nemendur og háskólarnir fá tækifæri til að blómstra enn frekar og stækka háskólana á sviðum kennslu, rannsókna, nýsköpunar og stjórnunar. Hér á ekki að nota tækifærið til að skera niður, heldur stækka og verða sterkari saman.“

Hans Guttormur hefur reynslu úr akademíska umhverfinu en að sama skapi hefur hann mikið verið í verkefnum beintengdum atvinnulífi og nýsköpun. Hann er frumkvöðull sem hefur byggt upp verkefni frá grunni, er handhafi fjölda styrkja úr innlendum og erlendum sjóðum ásamt því að sitja í dag í fagráði Tækniþróunarsjóðs og sem leiðbeinandi frumkvöðla og sprotafyrirtækja í gegnum KLAK. Þá hefur hann sinnt bæði kennslu við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

Næstu skref í sameiningarviðræðunum er að ræða við hagaðila innan háskólanna og teikna upp vinnuáætlun fyrir skipulegar samræður starfsfólks, nemenda við Háskólann á Bifröst og stúdenta við Háskólann á Akureyri.

Jákvæð áhrif millilandaflugs til Akureyrar eru miklu meiri en þú heldur

Lára Halldóra Eiríksdóttir skrifar
27. nóvember 2025 | kl. 10:30

Opið bréf til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
26. nóvember 2025 | kl. 17:30

Eflum SAk

Ingvar Þóroddsson skrifar
26. nóvember 2025 | kl. 15:10

Tryggjum öryggi eldri borgara

Sigurður Ágúst Sigurðsson skrifar
26. nóvember 2025 | kl. 15:00

Sterk ferða­þjónusta skapar sterkara sam­félag

Ingibjörg Isaksen skrifar
21. nóvember 2025 | kl. 14:00