Fara í efni
Umræðan

Eflum SAk

Til þess að samfélag virki, geti þrifist og dafnað, verða innviðir og grunnþjónusta að vera til staðar og virka. Þar erum við að tala um samgöngur, menntastofnarnir og heilbrigðisþjónustu.

Undanfarið hafa borist fjölmargar fréttir af Sjúkrahúsinu á Akureyri sem varpa ljósi á erfiða stöðu þessarar mikilvægu stofnunar. Nú síðast þegar þrír læknar sögðu upp störfum vegna þess ástands sem hefur byggst upp á undanförnum árum. Þetta er grafalvarlegt mál sem hefur mikil áhrif á Akureyri, landsbyggðina og þar með Ísland allt.

Í grein sem Helga Björk Heiðarsdóttir og Guðjón Kristjánsson birtu á Akureyri.net fyrir skemmstu lýsa þau ástandi sem er bæði djúpstætt og margþætt. Þau vinna á gólfinu, þekkja veruleikann og segja hlutina eins og þeir eru. Þetta snýst ekki eingöngu um ferliverkasamninga, heldur um áralangan kerfisvanda sem hefur hlaðist upp og nú er mælirinn fullur. Það er skylda okkar sem sitjum á þingi og í ríkisstjórn að hlusta, taka þessum ábendingum alvarlega og grípa til aðgerða.

Forstjóri SAk, Hildigunnur Svavarsdóttir, hefur jafnframt bent á það sem margir vita en færri segja upphátt: að það er erfiðara og dýrara að manna heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Á landsbyggðinni bera læknar gjarnan þyngri vaktabyrði, sinna fjölbreyttari verkefnum og hafa minna bakland en kollegar á stærri sjúkrahúsum. Það er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við. Þegar bráðaþjónusta, geðheilbrigðisþjónusta, fæðingarþjónusta og dagleg sjúklingaþjónusta byggja á litlum en samhentum hópi, þá verður rekstrarumhverfið brothættara. Álagið verður meira, og sveigjanleiki minni.

Þessu verðum við að mæta með lausnum. Við þurfum að svara því hvernig við gerum störf lækna, hjúkrunarfræðinga og annars heilbrigðisstarfsfólks á landsbyggðinni að raunhæfum og og meira aðlaðandi kost. Skapa þarf umgjörð sem tekur tillit til sérstöðu minni stofnana og skoða hvort sértækar ívilnanir í skattkerfinu og/eða námslánakerfinu geti orðið hluti af lausninni. Þjónustan á SAk er ekki aukaatriði í heilbrigðiskerfinu, hún er hluti af öryggi heillar landsbyggðar.

Alþingi samþykkti nýverið þingsályktun um borgarstefnu þar sem Akureyri er skilgreind sem svæðisborg með sérstöku hlutverki í þjónustu, menningu og atvinnulífi. Þetta eru metnaðarfull markmið, en þau standa og falla með því að grunnstoðir samfélagsins standi sterkar. Ef við tryggjum ekki mönnun og starfsskilyrði á Sjúkrahúsinu á Akureyri, þá verður borgarstefnan lítils virði.

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið voru góðar fréttir að heilbrigðisráðherra hafi haldið norður í gær og kynnt sér ástandið á vettvangi. En það er jafn mikilvægt að við öll – þingmenn, ráðherrar, sveitarfélög, starfsfólk sjúkrahússins og samfélagið allt – stöndum saman. Enginn einn aðili leysir þetta verkefni.

Það er kominn tími til að ræða opinskátt um áskoranir sem heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni standa frammi fyrir. Að viðurkenna að þjónusta úti á landi þurfi aðra nálgun en þjónusta í miðju höfuðborgarinnar. Sýna með aðgerðum að við meinum það sem við segjum þegar við tölum um jafnræði og öryggi í þjónustu.

Við þurfum á því að halda að á Akureyri sé starfrækt öflugt sérgreina- og kennslusjúkrahús. Alþingi hefur meira að segja kveðið á um það í lögum að Sjúkrahúsið á Akureyri skuli vera varasjúkrahús fyrir Landspítala. Þetta snýst um öryggi. Og þetta snýst um framtíð landsbyggðarinnar. Við getum – og eigum – að tryggja að Sjúkrahúsið á Akureyri verði áfram sú burðarstoð sem Norðurland og Ísland allt treystir á.

Ingvar Þóroddsson er þingmaður Viðreisnar í Norðausturkjördæmi

Tryggjum öryggi eldri borgara

Sigurður Ágúst Sigurðsson skrifar
26. nóvember 2025 | kl. 15:00

Sterk ferða­þjónusta skapar sterkara sam­félag

Ingibjörg Isaksen skrifar
21. nóvember 2025 | kl. 14:00

Þjónustufall á landsbyggðinni í skugga uppsagna ferliverkasamninga, hvað þarf til að stjórnvöld bregðist við?

Helga Björk Heiðarsdóttir og Guðjón Kristjánsson skrifa
21. nóvember 2025 | kl. 06:00

Fallorka og Orkusalan – saman í stanslausu stuði!

Rúnar Sigurpálsson og Magnús Kristjánsson skrifa
20. nóvember 2025 | kl. 12:00

Er þjóðernishyggja hættuleg?

Kári Liljendal Hólmgeirsson skrifar
18. nóvember 2025 | kl. 15:00