Fara í efni
Umræðan

Sterk ferða­þjónusta skapar sterkara sam­félag

Ferðaþjónustan á Norðurlandi stendur á tímamótum. Aldrei áður hafa tækifærin verið jafn augljós og raunhæf. Ný hótel rísa, fjölbreytt afþreying vex, og heilsársferðaþjónusta er orðin að veruleika. Staðan er gjörbreytt frá því fyrir aðeins nokkrum árum síðan.

Beint millilandaflug til Akureyrar hefur þegar opnað dyr að nýjum tækifærum og auknum lífsgæðum fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu. Nú er kominn tími til að tryggja að þessi þróun haldi áfram og nái einnig til Egilsstaða.

Það er brýnt að stjórnvöld tryggi að beint flug til Akureyrar verði sjálfbært og Egilsstaðir fylgi hratt á eftir. Flugþróunarsjóður, sem hefur styrkt flugfélög og ferðaþjónustuaðila til að taka áhættu og hefja beint flug til Norðurlands, hefur sýnt gildi sitt. En sjóðurinn þarf að fá aukinn slagkraft til að fylgja þessu flugi eftir og fjármagna aukna markaðssetningu á Egilsstöðum sem áfangastað.

Beint flug – beint í betri lífsgæði

Beint millilandaflug til Akureyrar hefur breytt miklu fyrir svæðið. Nú er hægt að ferðast án þess að leggja í langan og kostnaðarsaman legg til Keflavíkur. Með millilandafluginu er svæðið orðið aðgengilegra fyrir ferðamenn, en ekki síður hefur það aukið lífsgæði heimamanna. Það sparar tíma, eykur öryggi, og styrkir fyrirtæki á öllum sviðum. Þess vegna er mikilvægt að tryggja áframhaldandi stuðning við millilandaflug til Akureyrar því slík fjárfesting eru fjárfesting í framtíðinni.

Þúsundir starfa

Ferðaþjónustan hefur á örfáum árum orðið einn af hornsteinum íslensks efnahagslífs. Hún hefur skapað þúsundir starfa, aukið tekjur heimila og veitt landsbyggðinni ný og öflugri tækifæri.

Árið 2023 námu gjaldeyristekjur greinarinnar um 600 milljörðum króna og skatttekjur ríkis og sveitarfélaga námu 200 milljörðum króna. Þetta eru tölur sem skipta máli fyrir alla landsmenn því velgengni ferðaþjónustunnar er velgengni samfélagsins í heild.

Sem þingmaður Norðausturkjördæmis sé ég daglega hve jákvæð áhrif öflug ferðaþjónusta hefur á líf fólks. Hún gefur ungu fólki tækifæri til að byggja framtíð sína heima, styrkir atvinnulífið og heldur samfélögum lifandi.

Fjárfestum í innviðum

Ný flugstöð á Akureyri, stærra flughlað og nýr aðflugsbúnaður eru dæmi um fjárfestingar sem efla ekki aðeins ferðaþjónustu heldur allt samfélagið.

Svo er rétt að hafa í huga niðurstöður áhugaverðrar skýrslu Jóns Þorvalds Heiðarssonar hagfræðings um áhrif beins millilandaflugs til Akureyrar. Skýrslan sýnir svart á hvítu að flug EasyJet til Akureyrar frá bæði London og nú Manchester var ekki fjarlægur draumur heldur arðbært fyrir samfélagið allt. Það sýnir hversu mikill kraftur býr í landsbyggðinni ef tækifærin eru nýtt.

Kraftur landsbyggðarinnar

Fyrir stuttu síðan fór fram VestNorden sýningin á Akureyri, þar sem um 550 aðilar úr ferðaþjónustu á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum komu saman til að skapa ný tækifæri og tengsl.

Þar sýndi Norðurland að landsbyggðin getur verið miðpunktur alþjóðlegrar ferðaþjónustu og uppbyggingar. Með góðri skipulagningu, sterkum innviðum og samstilltu átaki fjölda fólks er allt hægt. VestNorden var ekki eingöngu ráðstefna. Hún fól í sér tákn um bjartsýni og mikilvægi samstarfs til að bæta hag landsbyggðarinnar og kom okkur þingmönnunum sem mættum skemmtilega á óvart.

Ferðaþjónustan er auka egg í körfu landsbyggðanna

Ferðaþjónustan er ekki bara atvinnugrein. Hún er lífæð margra samfélaga og lykillinn að framtíð landsbyggðarinnar. Þegar ferðamenn dreifast um landið skapast meira jafnvægi: ný störf, fjölbreytt atvinnulíf og tækifæri fyrir ungt fólk til að setjast að í heimabyggð.

Til þess þarf að huga að innviðum s.s. vegum, flugvöllum, orkuframboði, stafrænni þjónustu og menntun með framtíðarsýn að leiðarljósi. Þannig byggjum við upp sjálfbæra ferðaþjónustu sem eykur lífsgæði og dregur úr ósjálfbærri miðstýringu.

Fyrir framtíðina

Framsókn hefur ávallt staðið vörð um jafnvægi og jöfn tækifæri um land allt.

Öflug ferðaþjónusta á landsbyggðinni er ekki aðeins stefnumál heldur er hún grundvallarmál fyrir fólkið í landinu bæði með tilliti til atvinnu, lífsgæða og öryggis.

Þó blikur séu á lofti í pólitísku andrúmslofti þessa dagana, munum við í Framsókn standa vörð um þá framtíðarsýn. Við viljum land þar sem lífsgæði, tækifæri og von dreifast jafnt, þar er ferðaþjónustan brú milli fólks, byggða og framtíðar.

Ingibjörg Isaksen er formaður þingflokks Framsóknar.

Þjónustufall á landsbyggðinni í skugga uppsagna ferliverkasamninga, hvað þarf til að stjórnvöld bregðist við?

Helga Björk Heiðarsdóttir og Guðjón Kristjánsson skrifar
21. nóvember 2025 | kl. 06:00

Fallorka og Orkusalan – saman í stanslausu stuði!

Rúnar Sigurpálsson og Magnús Kristjánsson skrifa
20. nóvember 2025 | kl. 12:00

Er þjóðernishyggja hættuleg?

Kári Liljendal Hólmgeirsson skrifar
18. nóvember 2025 | kl. 15:00

Fasteignaskattsprósenta lækkar!

Meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar skrifar
13. nóvember 2025 | kl. 19:00

Tjaldsvæðisreiturinn eða Húsmæðraskólatúnið?

Benedikt Sigurðarson skrifar
13. nóvember 2025 | kl. 18:00

Álögur á heimili og fyrirtæki hafa aukist verulega á kjörtímabilinu

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
08. nóvember 2025 | kl. 11:30