Kæri þingmaður, þetta kallast upplýsingaóreiða. Við skulum vanda okkur betur.
Ég lít á mig sem bæjarfulltrúa allra íbúa – innflytjenda jafnt sem innfæddra – og vona að það sé eðileg afstaða. Þess vegna vil ég líka að við vöndum okkur þegar við tölum um innflytjendur sem einn hóp.
Nú veit ég ekki hvað þessi mynd, sem háttvirtur þingmaður deilir á sinni síðu, á að segja okkur? Enda fylgir engin haldgóð útskýring. Mest er ritað á milli línanna og ég er því miður alfarið ólæs á svona ósýnilegt blek. Það er heldur ekki auðvelt að finna hvaðan þessi mynd er tekin, en látum það liggja milli hluta.
Hvað segir þessi mynd okkur? Segir hún okkur eitthvað um glæpatíðni þessara hópa? Nei, það gerir hún ekki. Hún sýnir einfaldlega hlutfall sakfellinga, þar sem mismunandi hópar innflytjenda eru bornir saman við innfædda (ef ég skil myndina rétt). Í löndum sem búa við heilbrigt réttarkerfi þá er ekkert óeðlilegt við það að slíkt hlutfall sé hátt. Okkur finnst það til að mynda áhyggjuefni þegar sakfellingarhlutfall í kynferðisbrotamálum er lágt.
Og hvers erum við nær þegar sakfellingarhlutfall hjá einum hópi er hærra en hjá öðrum? Það, kæru vinir, hef ég bara ekki hugmynd um! Þessi mynd segir okkur afskaplega lítið ein og óstudd. Það er allt eins líklegt að hún sýni slagsíðu réttarkerfisins gagnvart ákveðnum hópum, eins og eitthvað annað. Ég get ekki svarað því og háttvirtur þingmaður hefur ekki fyrir því að útskýra það frekar. Meðvituð upplýsingaóreiða? Leti eða fljótfærni? Ég veit það ekki, en við skulum vanda okkur betur. Við erum alltaf að tala um fólk. Gerum það af virðingu.
Ég skil að þessi mynd hafi legið vel við hendi. Hún virkar sláandi og hún svo sannarlega fær fólk til að klikka og deila.
„Ef á að bregðast við vandamálum og leysa þau er mikilvægt að greina vandann,“ segir okkar háttvirtur þingmaður. Ég er því hjartanlega sammála.
Þá spyr ég: Hver er vandinn og hvernig ætlum við þá að greina hann? Hvaða gögn höfum við, og hvaða gögn vantar okkur? Hvernig ætlum við svo að leysa „vandann“ til hagsbóta fyrir allt samfélagið?
Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri