Fara í efni
Umræðan

Örugg skref í átt að sjálfbærni

  • Akureyri.net bauð oddvitum allra flokka í bæjarstjórn Akureyrar að skrifa grein til birtingar fyrir seinni umræðu um fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar sem fram fer á morgun. Hér er grein oddvita L-listans.

Síðustu mánuðir hafa verið lærdómsríkir fyrir mig enda er þetta mitt fyrsta ár í stjórnmálum. Það hefur komið mér ánægjulega á óvart hve uppbyggileg umræðan hefur verið og samvinnan við minnihlutann hefur verið góð. Ég er mjög sátt við útkomu áætlunarinnar ef á heildina er litið og að við séum að taka örugg skref í átt að sjálfbærni í rekstrinum, en við erum að gera ráð fyrir að samstöðunni verði skilað í plús á næsta ári og síðan batnandi afkomu næstu árin þar á eftir, sem er gríðarlega mikilvægt í mínum huga.

Ef ég ætti að nefna eitthvað sérstaklega og þá sem formaður velferðarráðs, þá gleður það mig að framkvæmdir við búsetukjarna í Hafnarstræti fari af stað á næstunni og í beinu framhaldi verði svo farið í framkvæmdir við búsetukjarna í Nonnahaga. Tvö smáhýsi munu rísa í Sandgerðisbót á næsta ári og aukið fjármagn í stofnframlög til bygginga óhagnaðardrifinna íbúða sem ég geri mér vonir um að verði til þess að minnka biðlista eftir félagslegu húsnæði. Ég er mjög spennt fyrir innleiðingu á farsældarlögum barna sem ég trúi að eigi eftir að verða til þess að við náum að koma betur til móts við þarfir barnanna okkar. Þá komum við til móts við barnafólk með ýmsum hætti, raunlækkun á vistunargjöldum í leikskóla og frístundastyrkur hækkaður svo að eitthvað sé nefnt.

Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á næstu árum í Hlíðarfjalli sem er frábært og nauðsynlegt fyrir þessa útivistarperlu okkar Akureyringa. Hlíðarfjall ásamt íþróttamannvirkjum okkar eru afar mikilvægir staðir fyrir bæinn þegar kemur að íþrótta tengdri ferðamennsku.

Á kjörtímabilinu verður ásamt því að halda áfram með uppbyggingu á félagssvæði KA, meðal annars komið upp gervigrasvelli á félagssvæði Þórs. Ég fagna því þar sem Boginn er löngu sprunginn og grasvellirnir á svæðinu eru mjög slæmir. Við sem höfum starfað í heimi íþróttanna vitum hversu mikilvægt það er fyrir félagsandann að vera með góða aðstöðu fyrir iðkendur og sjálfboðaliða okkar og vonandi getum við farið í frekari uppbyggingu áður en langt um líður á félagssvæði Þórs þar sem við erum að leggja áherslu á uppbyggingu í nýjum hverfum svo sem Móahverfis og fjölgun íbúa.

Fjárhagsáætlunin ber þess merki að við í meirihlutanum erum að leggja aukna áherslu á skipulagsmálin og viljum auka við lóðaframboðið á næstu árum og erum þá að horfa til markmiða húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í þeim efnum.

Við erum síðan að fara af stað með heimgreiðslur til forráðamanna á næsta ári, sem ég heyri á fólki að sé mikil ánægja með. Við viljum áfram bjóða upp á pláss fyrir öll 12 mánaða börn og því er þörf á að bæta við plássum á næstu árum. Umhverfismálin eru síðan allt um lykjandi og gert ráð fyrir að unnið verði markvisst að aðgerðum í takt við umhverfis- og loftlagsstefnu bæjarins.

Þetta er fyrsta ár nýs meirihluta og er ég spennt fyrir komandi árum, kjörtímabilið er rétt að byrja og að mörgu að huga.

Elma Eysteinsdóttir er oddviti L-listans

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Njál Trausta áfram sem þingmann okkar í Norðausturkjördæmi

Inga Stella Pétursdóttir, Elín Dögg Gunnars Väljaots, Ólöf Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Eiðsson, Arngrímur B. Jóhannsson og Guðmundur Bjarnason skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 21:30

Sögulegt tækifæri

Logi Einarsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Sindri S. Kristjánsson skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 13:30

Ágæti kjósandi – Það er komið að þér

Sigurjón Þórðarson skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:15