Fara í efni
Umræðan

Réttindi neytenda á tímum Covid

Líkt og í vor hafa margar fyrirspurnir borist Neytendasamtökunum varðandi réttarstöðu neytenda þegar seljendur neyðast til að loka starfsemi sinni vegna sóttvarnaraðgerða. Helst er um að ræða áskriftarsamninga við líkamsræktarstöðvar, námskeið og íþrótta- og tómstundanámskeið fyrir börn. Þá er einnig mikið spurt um þjónustu sveitarfélaga svo sem sund- og skíðastaði.

Staða neytanda sem hafa gert slíka samninga, til dæmis um aðgang að líkamsræktarstöð í ákveðið tímabil, er ekki alltaf skýr. Hafi neytandi til dæmis keypt sér mánaðarkort en líkamsræktarstöðinni er lokað eftir hálfan mánuð vakna spurningar; Á viðkomandi rétt að fá endurgreitt að fullu eða hlutfallslega eftir því sem eftir er af tímabilinu? Á viðkomandi alls engan rétt eða má líkamsræktarstöðin færa tímabilið aftur, þar til opna má stöðina á ný?

Í einföldu máli má segja að samninga ber að halda. Á það við um samninga við líkamsræktarstöðvar, sundstaði og alla aðra þjónustuveitendur. Kaupanda ber að greiða þá upphæð sem samið hefur verið um og seljanda ber að veita þá þjónustu sem samið hefur verið um. Hert samkomubann hefur gert það að verkum að líkamsræktarstöðvar, sundstaðir, íþróttafélög og sumir námskeiðshaldarar geta tímabundið ekki uppfyllt sinn enda samningsins og mætti því segja að þau séu tilneydd til að vanefna samninginn. Á meðan á þeim vanefndum stendur og neytandi getur ekki nýtt þjónustu sem hann greiddi fyrir, má spyrja hvort eðlilegt sé að neytandi uppfylli sinn enda samningsins að fullu.

Til að svara þeirri spurningu þarf að skoða samningsskilmálana vel, svo sem hvort í þeim sé fjallað um óvenjulegar eða óviðráðanlegar aðstæður og hvernig ábyrgð er þá háttað. Ef skilmálar seljanda taka ekki á þessum aðstæðum getur neytandi borið fyrir sig vanefndarúrræðum og er eflaust nærtækast að fara fram á afslátt í samræmi við hlutfall þjónustunnar sem ekki er veitt.

Í vor bar mikið á því að seljendur og neytendur kæmi sér saman um málalyktir. Gildistími í líkamsræktarstöðvar var einfaldlega lengdur sem nam lokunartímabili og námskeiðum var frestað. Hugnist kaupendum slík boð er sjálfsagt að fallast á það. Neytendasamtökin telja þó hæpið að seljandi geti einhliða ákveðið hvernig afgreiða eigi málið og telja að neytendur eigi val um að fá hlutfallslega endurgreitt kjósi þeir það.

Náist ekki sátt milli neytenda og þjónustuveitenda vegna uppgjörs, geta neytendur alla jafnan farið með ágreiningsmál fyrir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa.

Í vor bar einnig mjög mikið á málum sem snúa að ferðalögum og flugi. Var niðurstaðan sú að neytendur sem keypt höfðu flug eða pakkaferðir ættu rétt á endurgreiðslu hafði ferð/flug ekki við verið farið.

Ítarlegar fréttir má sjá á heimasíðu Neytendasamtakanna

Brynhildur Pétursdóttir er framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna.

Fyrsti þjónustusamningur Akureyrarbæjar við Grófina geðrækt!

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar
22. nóvember 2023 | kl. 15:45

Sammála en þó á móti

Jón Hjaltason skrifar
20. nóvember 2023 | kl. 17:40

Áhugaverð hugmynd að nýtingu Tjaldsvæðisreitsins

Benedikt Sigurðarson skrifar
18. nóvember 2023 | kl. 15:00

Vakning um ofbeldi gagnvart verslunarfólki

Eiður Stefánsson skrifar
17. nóvember 2023 | kl. 12:35

Erfið staða bænda nú er okkur sem samfélagi að kenna

Hólmgeir Karlsson skrifar
15. nóvember 2023 | kl. 10:00

Sex gjaldfrjálsir klukkutímar og tekjutenging

Hulda Elma Eysteinsdóttir skrifar
10. nóvember 2023 | kl. 17:25