Fara í efni
Umræðan

Nemendur safna fyrir nýju leiksvæði

Hér má sjá aðal útivistarsvæði Hlíðarskóla eins og það er í dag. Myndir: Rakel Hinriksdóttir

„Venjulega höfum við styrkt eitthvert góðgerðarfélag, en í ár ákváðu krakkarnir að safna fyrir leiksvæði við skólann sinn,“ segir Valdimar Heiðar Valsson, skólastjóri Hlíðarskóla í Skjaldarvík. Á hverju ári er haldin Vorhátíð í skólanum, þar sem er keppni milli nemenda með ýmsum þrautum fyrir hádegi, og áheitahlaup eftir hádegi. Í ár verður hátíðin haldin þriðjudaginn 7. maí.

„Krakkarnir velja í sameiningu málstað sem þau vilja styrkja í hlaupinu,“ segir Valdimar. „Í fyrra styrktu þau KAON, Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis og í hittífyrra voru það Hetjurnar. Í ár kom svo upp alveg ný hugmynd úr nemendahópnum, sem fékk strax byr undir báða vængi.“

Valdimar Heiðar Valsson, skólastjóri Hlíðarskóla. Mynd: Skapti Hallgrímsson

„Starfsfólk Hlíðarskóla er búið að berjast lengi fyrir bættu útisvæði við skólann, löngu fyrir mína tíð. Ég er búinn að starfa hér í tæp þrjú ár og þetta var eitt af því sem ég vildi setja í forgang en þetta gerist allt svo hægt,“ segir Valdimar. „Við fengum þrjár folf körfur í fyrra og seinasta haust komu körfur fyrir körfubolta sem var kærkomin viðbót en það þarf bara miklu meiri afþreyingu á svæðið. Krakkarnir komu sjálf með þá hugmynd í ár að safna upp í kostnaðinn fyrir leiksvæðinu. Útisvæðið er rætt á öllum bekkjarfundum og er stærsta málið þegar við höldum nemendaþing. Nemendur eru eiginlega búnir að missa þolinmæðina og því ákváðu þau að byrja safna sjálf fyrir nýju útisvæði.“ Valdimar segir að það yrði nú sennilega bara dropi í hafið, upphæðin sem safnast, en það yrði einhver byrjun og kannski myndi það eitthvað ýta við bænum, að líta til Hlíðarskóla næst þegar á að hressa upp á skólalóðir. 

Þetta þarf að vera flottasti skólinn. Hér eru krakkar sem eru búin að vera að rekast á alla sína grunnskólagöngu

„Við erum búin að vera 'næst í röðinni' ansi lengi,“ segir Valdimar. „En svo er alltaf eitthvað tekið fram fyrir röðina og lítið breytist hér. Við erum heppin með staðsetningu og að vera svona út í náttúrunni en útisvæðið hérna er samt ekki upp á marga fiska, við erum með einhver dekk hérna sem eru grafin niður en eru orðin svo grautlin að það er eiginlega ekki hægt að labba á þeim lengur, fótboltavöllurinn er bara þúfur og drulla og svo erum við með tvær rólur hérna sunnan við hús sem eru mjög vinsælar en við þurfum yfirleitt að vera með tímatöku og skipta reglulega svo að þau sem vilja geti rólað í frímínútum. Þessi tréleiktæki eru svo eitthvað sem starfsfólk Hlíðarskóla, ásamt nemendum gerðu sjálf til að reyna fá fjölbreyttari afþreyingu á svæðið en eins og þið sjáið að þá er þetta frekar niðurdrepandi aðstaða og margt orðið lúið hérna.“

Rólurnar og einn sandkassi. Hér þarf starfsfólk að taka tímann svo allir geti fengið að róla í frímínútum. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Við erum með orkumikinn nemendahóp sem þarf að fá sína útrás og því þurfa þau að hafa eitthvað fyrir stafni í frímínútum,“ segir Valdimar. „Okkar nemendur eru oft ekki í íþróttum eða tómstundum eftir skóla þannig að það er mikilvægt að við getum boðið krökkunum í Hlíðarskóla upp á skemmtilega afþreyingu hér í skólanum.“

„Í mínum huga þarf þetta að vera flottasti skólinn,“ segir Valdimar. „Hér eru krakkar sem eru búin að eiga erfitt uppdráttar í skólaumhverfinu, mögulega alla sína skólagöngu. Til lengdar með brotna sjálfsmynd og þau upplifa sig ekki standa jafnfætis öðrum krökkum. Auðvitað er þetta ekki algilt en nokkuð algengt. Það getur líka verið erfitt fyrir krakkana að skipta um skóla og þá sérstaklega fyrir unglingana að fara frá sínum vinum. Þeim finnst oft eins og það sé verið að send þau upp í sveit þegar þau koma í Hlíðarskóla á meðan aðrir krakkar þrá að komast í nýtt umhverfi. “ Valdimar segir að það myndi breyta miklu, ef Hlíðarskóli gæti boðið upp á topp aðstöðu „Ég myndi vilja að þau sæju það þannig að þau væru að fara í flottasta skólann og verið stolt af skólanum sínum. Ég held að það myndi auðvelda þeim flutninginn á milli skóla.“ 

Ef við hefðum hérna topp aðstöðu og þau gætu verið stolt af sínum skóla, held ég að það myndi auðvelda þeim þessi skipti. Þetta myndi efla sjálfstraustið þeirra

Í dag eru 16 nemendur í Hlíðarskóla, en það er pláss fyrir 20 nemendur. „Við þurftum að fækka vegna manneklu og það hefur ekki gengið að ráða í störfin sem duttu út á miðjum vetri af ýmsum ástæðum,“ segir Valdimar. „Við vonumst til þess að geta stoppað í götin fyrir næsta haust.“ Yfirleitt er stærsti hluti nemenda í 8.-10. bekk, eða um það bil 50% af hópnum. Fæstir eru í 2.-5. bekk. „Reyndar er aðeins að aukast að krakkar komi yngri til okkar, til dæmis verða tveir nemendur í 2. bekk næsta haust.“

Hjóla- og hjólabrettarampurinn er ansi mikið notaður, en hann var smíðaður í skólanum. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Hverfisskóli barnanna í sveitarfélaginu reynir yfirleitt að koma til móts við krakka með áskoranir í fyrsta bekk,“ segir Valdimar. „Þó að krakkar hafi verið að mæta vandamálum í leikskóla, er alltaf reynt að sjá hvernig gengur að byrja í grunnskólanum heimafyrir. Stærsti hluti nemenda okkar eru yfirleitt strákar, en við erum með óvenju margar stelpur núna. Við byrjuðum með fjórar stúlkur í haust og eru þær þrjár núna.“

Valdimar segir að krakkarnir deilist á fjórar stofur og samsetning nemenda í stofurnar er mjög misjöfn, en aldur, kyn, þroski og námsleg geta spili þar inní. „Við reynum að mynda djúp tengsl við nemendum okkar enda höfum við möguleikann á því vegna þess hversu fáir nemendur eru í stofu. Þegar við erum að raða nemendum saman í stofu að þá snýst þetta meira um það hverjir passa saman og að hafa gott jafnvægi í stofunum, heldur en að horfa á einhverjar aldurstölur.“

Ég er mjög stoltur af þeim fyrir að taka þessa ákvörðun. Þarna sýna þau frumkvæði, þau ætla ekki að bíða lengur - þau ætla sjálf að láta hlutina gerast

„Ég held að það skipti öllu máli, fyrir okkar krakka“ segir Valdimar, aðspurður um það, hvers virði það væri fyrir nemendur að fá loksins flott leiksvæði við skólann. „Krökkunum þarf að líða vel og finnast þau örugg í skólanum svo þau geti vaxið, dafnað og nýtt hæfileika sína til fulls. Það er alltaf grunnurinn sem þarf að byggja á. Ef við hefðum hérna topp aðstöðu og fallegt útisvæði að þá myndum við eflast á svo marga vegu. Þau vita hversu mikilvægt þetta er fyrir þau sjálf og skólann og því ætla þau að reyna gera eitthvað sjálf í málinu. Ég er mjög stoltur af þeim fyrir að taka þessa ákvörðun. Þarna sýna þau frumkvæði, þau ætla ekki að bíða lengur - þau ætla sjálf að láta hlutina gerast.“

  • Ef lesendur vilja leggja krökkunum í Hlíðarskóla lið, og heita á hlaupið þeirra, er bent á að hafa samband við Valdimar. Tölvupóst á valdimar@akmennt.is 
  • Samkvæmt heimasíðu Hlíðarskóla, er hlutverk skólans þetta: Hlíðarskóli er innan grunnskólakerfis Akureyrarbæjar fyrir nemendur með verulegan hegðunar- og aðlögunarvanda, félags- og tilfinningaleg vandamál og fjölskyldur þeirra. Hann er tímabundið úrræði sem tekur við þegar reynt hefur verið til þrautar að mæta þörfum nemandans í heimaskóla.

Hér koma fleiri myndir af útisvæði skólans, eins og það er í dag:

Brugðið var á það ráð að setja frauð inn í dekkin til þess að það væri hægt að standa á þeim.

Skólinn gerði sjálfur taflborðið, en taflmennirnir voru búnir til í smiðjunni, og segir Valdimar að vangasvipurinn sé sóttur í starfsfólk skólans. Það skortir ekki hugmyndaflugið í Hlíðarskóla. Mynd: RH

Sókn Landsnets gegn hagsmunum Akureyringa

Ólafur Kjartansson skrifar
17. maí 2024 | kl. 12:00

Um raflínur og tryggingafélög

Inga Sigrún Atladóttir skrifar
15. maí 2024 | kl. 08:50

Fjórða læknaferðin endurgreidd

Líneik Anna Sævarsdóttir skrifar
14. maí 2024 | kl. 17:00

Búum til börn

Ingibjörg Isaksen skrifar
12. maí 2024 | kl. 06:00

Akureyrarklíníkin

Friðbjörn Sigurðsson skrifar
11. maí 2024 | kl. 14:00

Blöndulína 3, jarðstrengsumræðan og framtíðin

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar
30. apríl 2024 | kl. 10:10