Krónan býr sig ekki til sjálf

Til að mynda ritaði dr. Ólafur Margeirsson hagfræðingur grein á vefritið Kjarnann um árið þar sem hann benti á það að hvorki vextir né verðbólga hér á landi væru afleiðingar krónunnar sem slíkrar. Sama ætti við um verðtrygginguna. Ólafur sýndi þar fram á það að fullyrðingar um að háir vextir væru afleiðing þess að krónan væri lítill gjaldmiðill gengju ekki upp. Þá ætti það sama að eiga við um önnur lítil hagkerfi með eigin mynt. Fylgnin þar á milli væri hins vegar afskaplega veik.
Meginvandamálið væri langtímavextir. Þar eins og annars staðar skipti stofnanaumgjörðin sem sköpuð hefði verið í kringum gjaldmiðilinn mestu máli. Dæmi um áhrif hennar á langtímavexti væri uppbygging lífeyrissjóðakerfisins. Lífeyrissjóðunum væri lagalega skylt að tryggja 3,5% ávöxtun á það fé sem þeim væri treyst fyrir. Þar á meðal og ekki sízt í gegnum lánveitingar. Þegar svo stór aðili á markaði hefði slíkar lagalegar skyldur hefði það vitanlega mjög mikil áhrif á allan markaðinn.
Fullyrðingar um að verðbólga væri afleiðing krónunnar væru sem fyrr segir sama marki brenndar að sögn Ólafs. Þar væri því gjarnan haldið fram að verðbólgan væri afleiðing þess að krónan hefði glatað mest öllu upprunalegu verðgildi sínu. „Nú tel ég mig sæmilega að mér kominn, þótt ég segi sjálfur frá, þegar kemur að kenningum um orsakir verðbólgu. Ég hef hins vegar aldrei séð alþjóðlega viðurkennda kenningu þess efnis að gjaldmiðlinum sjálfum sé kennt um eigin virðisrýrnun.“
„Tökum augljósasta dæmið: peningamagn í umferð. Við getum öll verið sammála um að krónan, sem gjaldmiðill, ræður engu um það hversu mikið er búið til af henni. Það eru bankar sem búa til ca. 95% af krónum, þ.e. peningum, í umferð á Íslandi. Og frá 1886, sem er ártalið sem tölur Hagstofunnar ná aftur til, til ársloka 2013 jókst peningamagn í umferð ríflega 211.000.000-falt. Þrátt fyrir að hagkerfið hafi stækkað töluvert síðan þá er sú stækkun hverfandi í samanburði við þessa tölu.“
Hvað verðtrygginguna varðaði væri hún hluti stofnanaumgjarðar hagkerfisins. „Líkt og svo margir aðrir stofnanalegir þættir var verðtrygging sett á laggirnar sem svar við þáverandi vandamáli: verðbólgu. Við höfum þegar séð að verðbólga hefur ekkert með gjaldmiðilinn að gera og því er fráleitt að halda því fram að gjaldmiðillinn hafi eitthvað með verðtryggingu að gera: ef A (krónan) leiðir ekki af sér B (verðbólgu) en B leiðir af sér C (verðtrygging) leiðir A ekki af sér C,“ segir áfram.
Þótt mörgum þætti þægilegt að gera krónuna að blóraböggli væri ekki hægt að kenna henni um heimatilbúin vandamál. „Háir vextir, verðbólga, viðskiptahalli og gengissveiflur hafa ekkert með krónuna að gera heldur stofnanalegt umhverfi hagkerfisins. Krónan er saklaus bakari í hagkerfi sem smiðurinn – Íslendingar – hefur búið til stofnanalega umgjörð um sem hefur ákveðnar efnahagslegar afleiðingar. Og sem endranær er lausnin ekki að hengja bakarann þegar smiðurinn er sekur.“
Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur


Hafa foreldrar skoðun á leikskólagjöldum og skráningardögum?

Bjartsýni á Norðurlandi

Fáni – ekki fyrir hvern sem er

Byggingarlist fyrir aldraða
