Fara í efni
Umræðan

Sýnum samstöðu, látum rödd okkar heyrast

Um daginn fékk ég það sem kallast reality check, ég var að skrolla á Tiktok þegar ég sá myndbönd sem fólk sem ég þekki, kunningjar og vinir, var að deila. Myndböndin voru ekki bara gagnrýni eða skoðanir, heldur voru þau beinlínis full af hómófóbíu, rasisma og íhaldssömum hugmyndum um hlutverk kynjanna. Ég skoðaði kommentin þar sem ég var viss um að það væru fleiri en ég í sjokki yfir því að einhver myndi setja svona á netið. Það kom mér hins vegar mjög mikið á óvart að viðbrögðin voru mjög jákvæð. Ég sat, horfði á símann minn og hugsaði: hvenær varð þetta eðlilegt? Það er orðið svolítið síðan þetta gerðist en nú veit ég að þetta er vissulega bara orðið mjög normalíserað en alls ekki eðlilegt.

Bakslagið í jafnréttismálum hefur átt sér stað út um allan heim, í Bretlandi þar sem lögin hættu að taka tillit til kynvitundar einstaklinga og gera nú einungis ráð fyrir körlum og konum. Í Afganistan þar sem konur hafa verið útilokaðar frá menntun, atvinnu og opinberu lífi. Í Íran þar sem konur sem mótmæla valdaójafnvægi kynjanna eru myrtar af yfirvöldum o.fl. Ég gæti haldið áfram en ég held ég þurfi þess ekki, við vitum flest að það er bakslag að eiga sér stað en það er ekki bara erlendis og það er ekki svona fjarri okkur, það er líka í gangi hérna heima. Íhaldssemi virðist hafa fengið nýtt yfirbragð og kvenfyrirlitning, rasismi og fleira birtist meira og meira í umræðu ungs fólks, ekki í gömlum slagorðum eða hjá elstu kynslóðunum eins og maður myndi gefa sér að væru orðin úrelt gildi í nútímasamfélagi. TikTok-vídjó sérstaklega og kommentakerfin þar, þar sem hefðbundin kynjahlutverk eru gerð að fagurfræðilegu trendi, að vera miklu fallegri með clean girl-aesthetic, fólk að líkja fóstureyðingum við helförina og þar fram eftir götunum. Auðvitað er ekkert að því að vilja vera kvenlegur, en þegar þessi lífsstíll er auglýstur sem andstæðan við öfgafemínista, „það sem karl vill í konu“, þá erum við ekki lengur að tala um val, heldur viðmið. Þá verður þetta trend tilraun til að festa konur í staðalímyndum feðraveldisins.

Þegar við, unga kynslóðin, líkjum fóstureyðingu við helförina eða þegar við tökum meðvitaða ákvörðun um að viljandi útiloka ákveðinn hóp úr orðræðunni okkar með því að neita að nota kynhlutlaust mál þá er það ekki bara pólitísk ákvörðun heldur menningarleg breyting, hún segir okkur hvernig við skilgreinum mannlega reisn og tilvistarrétt annarra. Ég er alin upp við þá trú að jafnrétti sé sjálfsagt og hafði í raun lært um kvennabaráttuna sem einhverja sögu, eitthvað sem hafði þegar gerst. Við tölum um rétt kvenna til að kjósa, mennta sig og vinna en gleymum stundum að jafnrétti er ekki stöðugt ástand heldur lifandi verkefni. Það getur farið fram og aftur, en nú er ljóst að okkur hefur farið aftur. Ég er ekki einvörðungu að tala um hér á Íslandi heldur einnig í víðara samhengi. Ég lifi við þau gríðarlegu forréttindi að fá að mennta mig, fá að vinna, fá að vera ég sjálf og í rauninni að fá að vera með, sem mér finnst galið að kalla forréttindi, að fá að tilheyra og að tilvistarrétturinn minn sé viðurkenndur.

Við erum ekki öll sammála um hvað jafnrétti þýðir og auðvitað má fólk hafa mismunandi skoðanir, en þegar skoðanir ganga út á að afneita tilvistarrétti annarra þá erum við ekki lengur að tala um skoðanir heldur valdaójöfnuð. Ef við viljum virkilega tala um frelsi þá verðum við að tryggja að frelsið nái til allra, ekki bara þeirra sem falla inn í normið hverju sinni. Það er ekki frelsi að bara sum fái að vera þau sjálf án ótta við fordóma og mismunun, það er ekki jafnrétti ef konur þurfa enn að réttlæta val sitt og það er ekki frjáls umræða ef hún snýst um að ákveða hverjir eigi yfirhöfuð rétt á að vera með. Baráttan snýst ekki um að vinna á móti neinum, hún snýst um að minna á að við eigum öll pláss.

Megnið af umræðunni í dag eru ekki setningar sagðar af hatri, heldur skortur á þekkingu en áhrifin eru samt þau sömu, fólk dregur sig í hlé, fer að þegja og verður minna sýnilegt. Því vil ég hvetja öll, en kannski sérstaklega ungu kynslóðina, til að mæta á föstudaginn og fjölmenna á baráttufund á Ráðhústorgi, sýna samstöðu, taka pláss og láta rödd ykkar heyrast.

Heiðrún Hafdal er nemi í Háskólanum á Akureyri og jafnréttissinni

„Í augsýn er nú frelsi …

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar
23. október 2025 | kl. 10:00

Krónan býr sig ekki til sjálf

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
21. október 2025 | kl. 22:30

Laugaskóli í Þingeyjarsýslu 100 ára

Benedikt Sigurðarson skrifar
19. október 2025 | kl. 06:00

Hafa foreldrar skoðun á leikskólagjöldum og skráningardögum?

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson skrifa
14. október 2025 | kl. 15:30

Bjartsýni á Norðurlandi

Sigurjón Þórðarson skrifar
07. október 2025 | kl. 20:00

Fáni – ekki fyrir hvern sem er

Þorleifur Ananíasson skrifar
06. október 2025 | kl. 13:00