Laugaskóli í Þingeyjarsýslu 100 ára

Stórkostlegur áfangi náðist í samfélagsþróun í Þingeyjarsýslu með stofnun Alþýðuskóla á Laugum. Skólinn tók formlega til starfa á veturnóttum 1925. Þessi skóli átti sér býsna langan aðdraganda í þeirri deiglu sem segja má að hafi byrjað í Þingeyjarsýslum upp úr 1850.
Í 10 ára afmælisgrein um Laugaskóla - sem Jónas Jónsson frá Hriflu og fleiri rita birtist í Tímanum 22. apríl 1936 er nokkuð ítarleg lýsing á forsögu skólans. Umfjöllunin er aðgengileg á www.timarit.is og auðlæsileg.
50 ára afmælisrit Héraðssambands Suður Þingeyinga/HSÞ (áður Samband þingeyskra Ungmennafélaga/SÞU) sem gefið var út 1964 er saga „skólamálsins“ rakin frá upphafi til þess að skólahúsið reis á Hólnum.
Árið 2005 kom út Saga Laugaskóla 1925-1988 eftir Steinþór Þráinsson. Þar er talsvert umfangsmikil greinargerð um menntunarstöðuna á Íslandi og „alþýðumenntun“ og fá Guðmundur Hjaltason og Guðmundur Finnbogason sín paragröf í þeirri bók eins og vera ber auk heimamanna. Steinþór rekur nokkuð nákvæmlega skólatilraunir í Þingeyjarsýslu shl. 19. aldar og margvíslegar vendingar í undirbúningi fyrir stofnun og staðsetningu Laugaskóla og styður gögnum og áreiðanlegum heimildum.
Þessar ofannefndar heimildir hefur undirritaður notað öðru fremur til að glöggva sig á þessum bakgrunni almennrar menntunar á ofanverðri 19. öld og fram á þá tuttugustu eins og hér er síðan rakið. Þakka ég Steinþóri jafnframt fyrir að heimila notkun myndefnis og rammagreina fyrir þetta greinarkorn.
Félagshreyfingar Þíngeyinga frá shl. 19. aldar
Almenn menntun virðist hafa náð til býsna margra heimila í þingeyjarsýslu á síðari hluta 19. aldarinnar – og ekki bara til klerka og efnabænda. Voga Jón t.d. menntaðist í smíðum í Kaupmannahöfn og kynntist fiðluleik og flutti með sér í heimasveit með ótrúlegum áhrifum sem entust fram á 20. öldina. Arngrímur Gíslason (málari) var upprunninn og starfandi lengi í Þingeyjarsýslu og tók við listrænum sprotum Voga Jóns og blés í þær glæður sem fyrir voru.
Flest sumur heimsóttu erlendir landkönnuðir og náttúrufræðingar Þingeyjarsýslur og brennisteinsviðskiptin úr námum konungsins drógu lengi vel ýmsa athygli inn á svæðið. Það voru að sjálfsögðu fleiri en Voga Jón sem leiðsögðu þessum erlendu mönnum og lærðu af þeim.
Árið 1858 stofnuðu Mývetnskir bændasynir og vinnumenn/húsmenn Lestrarfélag Mývetninga sem keypti inn og miðlaði innlendum og erlendum bókum. Á næstu 30 árum virðis umtalsverður fjöldi manna hafa orðið læs á dönsku og norsku og einhverjir náðu þýsku og ensku til verulegs gagns. Ameríkuferðir frá 1876 (eftir Öskjugos og Sveinagjárgosið 1875) hvöttu fjölda fólks til að læra Ensku til undirbúnings á búferlaflutningum – og ekki má vanmeta mikilvægi sauðaútflutnings til Bretlands/Skotlands sem bjó til reglubundin samskipti og viðskipti við hinn Enskumælandi heim. Sigurður í Yztafelli hafði lært ensku og málfræði þegar Árni bróðir hans „fór á skip til Ameríku“ 1878, en Sigurður „hvarf heim til sinnar Hlíðar“. Ekki er nokkur vafi á að hugmyndir um samfélagsþróun, jafnrétti, almennan kosningarétt, félagshyggju og samvinnufélög – og þar með um virkara lýðræði – fengu farvegi inn á svæðið í auknum mæli.
Kaupfélag Þingeyinga var stofnað árið 1882 og frumkvöðlarnir sóttu til þess meiri fyrirmyndir til útlanda heldur til en til Reykjavíkur og Bessastaða þar sem landstjórnin sat.
Pólitískt byltingarfélag; Þjóðliðið/Þjóðlið þingeyinga var stofnað eftir búnaðarfélagsfund á Einarsstöðum árið 1884. Þjóðliðið var „leynifélag“ - skipulagt í selluformi eins og raunveruleg byltingarfélög undir kúgunarstjórnum. Markmið félagsins var í stystu máli jafnrétti allra - karla og kvenna, menntun, menning og fjárhagslegt sjálfræði og kosningarréttur bæði vinnukarla og kvenna. Það er ekki tilviljun að meðal félagsmanna voru á fyrstu stigum Skútustaðabræður (Sigurður í Ystafelli og Helgi á Grænavatni), Gautlandasystkin (Pétur Jónsson, Rebekka og Kristjana börn Jóns Sigurðssonar alþingismanns) og Jón Jónsson í Múla (þá á Arnarvatni), sem líklega ritaði upphaflegu stefnuskrána.
Jakob Hálfdánarson á Grímsstöðum náði viðskiptasamböndum í Skotlandi og fjölmargir héraðsmenn tengdust Evrópskum straumum. Þannig var t.d. um Sigurjón á Laxamýri að hann lærði beykisiðn í Kaupmannahöfn og fór seinna til Ameríku og stundaði þar ýmis störf áður en hann kom heim og settist í bú á sinni heimajörð. Zöllner umboðsmaður samvinnuverslana í Bretlandi tók á móti allmörgum Þingeyingum á sauðasölutímabilinu – og dvöldu sumir alllengi í ferðum sínum (til næsta sumars) og sóttu námskeið eða komust í kynnisferðir.
Á fyrstu árum Kaupfélags Þingeyinga og með sauðasölunni (fluttir voru lifandi sauðir til Skotlands til slátrunar þar) urðu til viðskipti með peningagreiðslum - sem juku verulega á frelsi smærri bænda og búlausra til einhvers sjálfstæðis – um leið og flæði fólks til Ameríku og samskipti við þann heim - voru að líkindum virkari á NA-landi en víðast annars staðar á landinu.
Fyrir Þingeyinga opnaðist þarna gluggi til samskipta og viðskipta – án þess að fara í gegn um Reykjavíkurvaldið og með því fannst þeim ef til vill minni ástæða til að sýna valdstjórninni og hinu veraldlega og kirkjulega valdi þá hefðbundnu undirgefni sem hamlaði lengi öllum framförum.
Laugaskóli varð ekki til í tómarúmi
Margar tilraunir frumkvöðla til að efla almenna menntun í Þingeyjarsýslu eru vel skráðar og þekktar.
Mývetningar ráku ungmennaskóla frá 1874 og til 1889 þar sem Jón Jónsson í Múla (þá bóndi á Arnarvatni) – alþingismaður frá 1886, var kennari lengst af. Áður hafði Jakob Hálfdánarson á Grímsstöðum haft unglinga í tilsögn um einhverjar vikur.
Einar Ásmundsson í Nesi í Höfðahverfi stofnaði til að mynda skóla - og byggði sérstakt skólahús yfir starfsemina á Hléskógum í Höfðahverfi. Sá skóli átti forsögu með kennslu prestsins í Laufási.
Sigurður í Ystafelli
Sigurður í Ystafelli (seinna alþingismaður og ráðherra) rak unglingaskóla um margra ára skeið á heimili sínu og einnig á bæjum í Bárðardal, milli 1870 og 1897.
Við aldamót 1900 keypti Ljósavatnshreppur skólahúsið á Hléskógum sem áður er nefnt og tók það niður og færði í Ljósavatn þar sem það var byggt við íbúðarhús Björns Jóhannssonar bónda og notað um árabil fyrir skóla – ásamt því sem Ljósavatnskirkja var kennslustofa og á loftinu heimvist skólasveina.
Séra Sigtryggur Guðlaugsson
Sigtryggur Guðlaugsson sem var prestur á Þóroddsstað rak Ljósavatnsskólann um skeið í samstarfi við Sigurð í Ystafelli og þá bræður á Halldórsstöðum í Kinn, Sigurð (á Landamóti) og Kristján og fleiri áhugamenn. Konráð Erlendsson kennari í Laugaskóla nam við Ljósavatnsskóla og telur í endurminningum sínum að hlutur Sigtryggs í skólamálunum hafi orðið gríðarlega mikilvægur - og Laugaskóli varla orðið raunveruleiki án áhrifa hans. Skólinn starfaði árin 1903 til 1914. Við Ljósavatnsskóla kenndi Jónas Jónsson frá Hriflu í 3 mánuði og var það eina beina aðkoma Jónasar að forstigi Laugaskóla - þótt hann væri kostaður af Þingeyingum til náms og kynnisferða erlendis nokkur ár áður en hann var síðan ráðinn kennari við Kennaraskóla Íslands.
Í Mývatnssveit var rekinn skóli um nokkurra ára bil eftir aldamót 1900 í Þinghúsinu á Skútustöðum þar sem Sigurður á Arnarvatni annaðist kennsluna. Auk Sigurðar komu að kennslu Sigfús Hallgrímsson, Jón Gauti Pétursson, Hermann Hjartarson, Þórir Steinþórsson og fleiri.
Arnór Sigurjónsson stofnaði til skóla í þinghúsinu á Breiðumýri árin 1919 til 1923 og lagði að þeim skóla býsna öflugan faglegan styrkan grunn með því að skólanum var sett ítarleg stofnskrá. Þar var skilgreind markmið og form skólans og ákveðinn rammi.
Skólamálið varð sameiningar-afl ungmennafélaga í Þingeyjarsýslu
Ungmennafélögin lögðu hinn formlega grunn að Laugaskóla. Árin 1912 til 1915 tóku þeir Arnór Sigurjónsson á Litlu Laugum og Þórólfur Sigurðsson í Baldursheimi upp ákveðnar hugmyndir um skólastofnun í Þingeyjarsýslu á vettvangi ungmennafélaganna. Þórólfur hafði áður lokið námi við Möðruvallaskóla/Gagnfræðaskólann á Akureyri og Arnór var þá nemandi við þann skóla. Virðast þeir hafa sammælst um þessar tillögur og Þórólfur beitti sér af þekktu harðfylgi til að vinna hugmyndinni stuðning annarra ungmennafélaga. Fékk hann nægilega góðar undirtektir til að freista þess að gera þetta mál að áhersluatriði til stofnunar Sambands Þingeyskra Ungmennafélaga SÞU, sem gerði um leið skólamálið að forgangsverkefni sambandsins.
Vorið 1915 var haldinn fjölmennur héraðsfundur á Breiðumýri. Fundarstjóri á þeim fundi var Sigurður í Ystafelli („vinur æskunnar“ og „skörulegasti fundarstjóri á landinu“ á þeim tíma að sögn Jónasar frá Hriflu í grein í Tímanum í tilefni af 10 ára afmæli Laugaskóla 22. apríl 1936). Á fundinum mælti Þórólfur í Baldursheimi fyrir skólamálinu og má segja um leið að þessi fundur hafi verið almennur stofnfundur Sambands Þingeysku Ungmennafélaganna.
Næstu árin 1915-1919 skiptu þeir Þórólfur Sigurðsson og Arnór Sigurjónsson með sér verkum ef svo má segja;
Þórólfur barðist á heimavelli fyrir því að vinna stuðning við hugmyndina um Alþýðuskóla fyrir bæði pilta og stúlkur - og fá hreppsnefndirnar og sýslunefndina til liðs. Þórólfur safnaði líka styrkarloforðum frá bæði einstaklingum og hreppum. Sigurgeir Friðriksson frá Skógarseli og Sigurður í Ystafelli og Jón sonur hans voru meira og minna samverkamenn Þórólfs og fjöldamargir lögðu hönd á plóginn við að undirbúa jarðveginn og leita að fjárhagslegum grundvelli. Kristján Sigurðsson á Halldórsstöðum var þá þegar orðinn kjölfesta í verkefninu. Samband Þingeyskra Ungmennafélaga sendi frá sér áskorun árið 1919 til Alþingis að styrkja skólabyggingu í Þingeyjarsýslu.
Arnór á hinn bóginn kappkostaði að undirbúa sig fyrir kennslu við slíkan skóla og leitaði sér menntunar erlendis árin næstu. Helga Kristjánsdóttir eiginkona Arnórs sótti einnig skóla í sama tilgangi og tók fullan þátt í undirbúningi og hugmyndavinnu fyrir skólastofnunina.
Á sama tíma voru menn eins og Konráð Erlendsson frá Brettningsstöðum og Björn Jakobsson frá Narfastöðum að sækja sér menntun bæði innan lands og erlendis til að geta tekið að sér kennslu og forystustörf í menntamálum. . . Jónas Jónsson frá Hriflu hafði á árunum upp úr aldamótum verði kostaður til námsdvalar og kynnisferða erlendis - - - . . . . . og svo var hann ráðinn til nýstofnaðs Kennaraskóla Íslands árið 1908. (segir frá því í dagbókum Sigurðar í Ystafelli að hann fór milli bæja að safna styrkjum til að kosta Jónas - - sem bróðir hans Sr. Árni á Skútustöðum (þá alþingismaður) kom til Jónasar í gegn um viðskiptakerfi mágs síns Garðars Gíslasonar stórkaupmanns. Það kann að vekja athygli að Guðjón Friðriksson höfundur sögu Jónasar frá Hriflu – áttaði sig ekki á þessum „fjármálatengslum“ . . . Skútustaðabræðra og Garðars stórkaupsmanns sem vissulega varð aldrei í hópi aðdáenda Jónasar frá Hriflu.)
Dr. Guðmundur Finnbogason frá Arnstapa í Ljósavatnsskarði var hámenntaður og gríðarlega áhrifamikill í menntamálum við upphaf 20. aldarinnar. Þingeyingar töldu til frændsemi við Guðmund og eignarréttar og er efalaust að áhugi hans á almennri menntun og fræðslu hafði áhrif á marga og þannig greitt fyrir þróun skólamálsins innan héraðsins.
Talsvert lengi var hnoðast um staðarval undir skóla Þingeyinga; ríkið hélt á prestssetrinu Grenjaðarstað með hjáleigum og aðliggjandi eignum. Þar var þaufað við prestinn Sr. Helga Hjálmarsson – ma. horft til mögulegs virkjunarréttar í Laxá - en ekki náðist ásættanlegt samkomulag.
Sigurjón Friðjónsson
Það varð síðan Sigurjón Friðjónsson (faðir Arnórs fyrsta skólastjóra) bóndi á Litlu-Laugum í Reykjadal sem sýndi þá ótrúlegu framsýni og rausn að gefa lóð undir skóla - með hitaréttindum – þar sem Alþýðuskóli á Laugum reis á Skiphóli.
Laugaskóli var stofnaður af Sambandi Ungmennafélaganna; skólinn var byggður fyrir styrktarfé sem aflaðist frá hreppunum í Þingeyjarsýslum og frá Sýslusjóði – auk talsverðara fjármuna sem aflað var með gjöfum einstaklinga. Sigurgeir Friðriksson frá Skógarseli gaf t.d. föðurarf sinn kr 1000 til byggingar skólans. Alþingi veitti styrki til byggingarinnar kr 35 þúsund á fjárlögum 1924 - en þó miðað við að hámarki 2/5 hlutar kostnaðar. Ekki síst var á endanum unnið við skólabygginguna með framlagi ungmennafélaganna - - fjöldi ungra karla vann mörg dagsverk við bygginguna og virðist sem ekki hafi þurft að kaupa teljandi verkamannavinnu til fyrstu bygginganna sem risu.
Í Tímanum 22. apríl 1936 er greinarstubbur merktur ÞS (væntanlega Þórólfur Sigurðsson í Baldursheimi) þar sem tiltekið er að á 10 ára tímabili hafi kostnaður við skólaframkvæmdir – með íþróttahúsi og rafstöð ) samtals numið kr. 221.500 og hafi ríkið greitt helminginn en héraðsbúar hitt. Fyrstu byggingar 1924 til 1925 voru hins vegar kostaðar að lágmarki 60% af heimamönnum með vinnu og gjafafé. Ekki er fullljóst hvort gjafavinna félagsmanna í ungmennafélögunum er að fullu virt til verðs í þessum tölum.
Samstaða um skólamálið
Það skapaðist á endanum víðtæk samstaða um skólastofnun meðal heimamanna í sýslunni (hópar Mývetninga drógu þó lappirnar og pólitískir úfar voru með fleiri mönnum). Fjöldahreyfingin var á vettvangi ungmennafélaganna og hinir pólitísku hjálparmenn voru sem fyrr Sigurður í Ystafelli – einn af stofnendum Framsóknarflokksins - sem sat á Alþingi frá 1916 til dauðadags 1926 og ráðherra frá 4. jan 1917- 20. feb 1920, og Ingólfur Bjarnarson í Fjósatungu sem varð Þingmaður S-Þingeyinga 1923 og var fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárveitingarnefnd 1924 þegar styrkurinn til Laugaskóla fékkst í gegn. Sigurður lifði það að sjá Laugaskóla rísa - en hann lést árið 1926.
Stærsta gjöfin til stofnunar Laugaskóla er hins vegar ótvírætt framlag Sigurjóns Friðjónssonar bónda á Litlu-Laugum – með lóð og hitaréttindum fyrir skólann. Sú gjöf er ómetanleg á alla lund - - og þótt metin væri á einar 640 krónur á sínum tíma - þá eru réttindin enn í dag það sem tryggir skólanum tilveru á nýju stigi í breyttum heimi.
Ekki er vafi á að tveir menn voru ótvíræðir forgöngumenn skólastofnunarinnar öllum hinum fremur: Þessir menn eru annars vegar Þórólfur Sigurðsson í Baldursheimi sem leiddi saman ungmennafélögin gekk ötullega fram um að safna fjármunum og stuðningi og var formaður SÞU/HSÞ 1914-1924 og hins vegar Arnór Sigurjónsson á Litlu-Laugum, sem menntaði sig sem kennara og lagði faglegan og skipulagslegan grunn að stofnskrá og kennslu Laugaskóla og var skólastjóri hans 1925-1933.
Arnór Sigurjónsson
Arnór Sigurjónsson menntaði sig innanlands og erlendis – beinlínis til að geta tekið að sér verkefni við forstöðu ungmennaskóla eins og ungmennafélagarnir höfðu hugmyndir um - allt frá 1912. Arnór steig mjög ákveðin skref til að sýna fram á hversu raunhæft skólamálið væri – með því að stofna Breiðumýrarskólann með formlegri reglugerð og viðurkenningu fræðslumálayfirvalda. Arnór var sjálfkjörinn skólastjóri og óumdeildur til þess verkefnis við stofnun Laugaskóla. Það hins vegar fór svo að leiðir skildu með þeim Arnóri og Skólaráði Laugaskóla (Þórólfur Sigurðsson, Jón Sigurðsson og Kristján Sigurðsson) og þeim yfirvöldum fræðslumála sem voru við völd 1930-1933. Arnór hvarf því frá skólastjórn á miðjum vetri 1932-33.
Þórólfur Sigurðsson
Þórólfur Sigurðsson í Baldursheimi var útskrifaður frá Akureyrarskóla/Möðruvallaskóla. Þórólfur var mjög virkur í félagsmálum og stjórnmálaorðræðu þessarra áratuga, hann kom inn í forystu Kaupfélags Þingeyinga, stofnaði og gaf út þjóðmálatímarið Réttur; árin 1916 til 1926, sótti námskeið og fyrirlestra í Háskóla Íslands. Þórólfur var róttækur samfélagssinni og ákafur talsmaður kenninga Henry George um þjóðfélagsþróun og rétt almennings til lands og auðlinda. Þórólfur var með einhverjum hætti þáttakandi í þeirri skipulagningu stéttarsamtaka og stjórnmála sem Jónas frá Hriflu átti ma. með Jóni Baldvinssyni og Jörundi Brynjólfssyni og fleirum við stofnun ASÍ, Alþýðuflokksins og þingflokki Framsóknarflokksins árið 1916. Þáttur Þórólfs í því að ná ungmennafélögunum saman um „skólamálið“ var einmitt skýrast viðurkenndur með því að fela honum formennsku í Skólaráði Laugaskóla frá fyrsta degi.
Konráð Erlendsson
Aðrir skólafrömuðir sem settu mark á starf Laugaskóla er skylt að nefna Konráð Erlendsson einn af fyrstu kennurum skólans. Konráð hafði bundist fastmælum með Arnóri áður en kom að stofnun Breiðumýrarskólans 1919.
Hermann Hjartarson sóknarprestur á Skútustöðum hafði áður kennt við Þinghússkóla í Mývatnssveit, hann studdi vel við skólastofnun og kom að kennslu tímabundið – og seinna réðist hann sem skólastjóri og gegndi til dauðadags.
Hjónin Helga Kristjánsdóttir og Arnór Sigurjónsson
Helga Kristjánsdóttir eiginkona Arnórs tók þátt í að undirbúa sig fyrir kennslu með námsdvöl þeirra beggja erlendis, lagði upp tillögu að teikningu skólahúss og lagði mikið að mörkum til skólans með kennslu og „húsmóðurhlutverki“ - auk þess sem hún stýrði skólalokum vorið 1933 þegar Arnór hafði horfið frá störfum við skólann.
Björn Jakobsson
Björn Jakobsson frá Narfastöðum hafði menntaði sig erlendis til íþróttakennslu og forystu og vann að skólamálinu þegar það tók á sig mynd. Með Birni og Laugaskóla skildu hins vegar leiðir og fékk Björn fóstur fyrir hugmyndir sínar um íþróttakennaraskóla á Laugarvatni sem síðan varð um langt skeið setur fyrir menntun íþróttakennara og þjálfara Íslands.
Þórhallur Björnsson á Ljósavatni lagði skólanum krafta sína frá fyrstu dögum og lengi síðan. Þórhallur var að segja má alinn upp í Ljósavatnsskólanum sem byggður var inn í æskuheimili hans. Þórhallur menntaðist í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, Lærðaskólanum og sótti til Kaupmannahafnar í dýrlækningar (sem hann gat ekki lokið vegna augnkvilla), og Listaháskóla og tækniskóla án þess að ljúka prófum. Varð húsgagnasmiður og bóndi á Ljósavatni alla ævi samhliða störfum sínum við Laugaskóla frá 1925 og til æviloka.
Bak við byggingarmálið og rekstur Laugaskóla er auk Þórólfs klárlega Kristján Sigurðsson á Halldórsstöðum í Köldukinn öðrum mikilvægari. Kristján var sá sem best hélt um fjárhagslegan undirbúning skólabyggingar – tók fyrstur persónulega ábyrgð á sig á láninu sem SÞU tók til skólabyggingarinnar - ásamt hópi góðra samverkamanna um Þingeyjarsveitir. Kristján sat í skólaráði við stofnun skólans og lengi síðan.
Jón Sigurðsson í Ystafelli
Jón Sigurðsson í Ystafelli sat í skólaráði við stofnun Laugaskóla og fyrstu áratugi. Jónas Jónsson telur að framlag hans hafi verið eitt það mikilvægasta til að festa skólann í sessi innan héraðsins á fyrstu árum enda þótti honum að svo vel hefði Jón staðið sig að hann var kallaður til að setja Héraðsskólann á Reykjum í Hrútafirði af stað og veita honum forstöðu fyrstu tvö árin.
Sigurgeir Friðriksson frá Skógarseli
Áður er minnst á Sigurgeir Friðriksson frá Skógarseli, seinna bókavörður í Reykjavík, sem gaf umtalsvert fé af takmörkuðum efnum og fylgdi málinu með mælsku sinni og hugviti.
Björn Sigtryggsson á Brún
Björn Sigtryggsson á Brún (frá Hallbjarnarstöðum) sat í fyrsta Skólaráði Laugaskóla eftir tilnefningu Sýslunefndar.
Arnór Sigurjónsson telur í grein í Rétti (3. árg. 2. hefti) að Björn á Brún og Jón í Yztafelli hafi ásamt Þórólfi verið áhrifamestu drifkraftarnir í að koma Laugaskóla á koppinn.
Ketill Indriðason á Ytra-Fjalli var einnig áberandi í forystu ungmennafélaganna og lá vissulega ekki á liði sínu í skólamálinu.
Jónas Jónsson frá Hriflu
Um áhrif og liðsinni Jónasar frá Hriflu í undirbúningi skólamálsins er ekki að deila. Jónas var sjálfur afar virkur í skólamálum þjóðarinnar og öllum stjórnmálum áratugina frá því hann kom frá námi erlendis 1908; - hann kenndi við Kennaraskólann, ritstýrði Skinfaxa, átti þátt í að ASÍ og Alþýðuflokkurinn voru stofnuð og var vissulega samverkamaður Sigurðar í Ystafelli og Einars á Eyrarlandi og Sveins í Firði og fleiri þingmanna þegar þeir formlega stofnuðu Framsóknarflokkinn sem Þingflokk á haustdögum 1916. Jónas var forgöngumaður Samvinnuskólans og skólastjóri frá 1919 og landskjörinn Alþingismaður frá 1923. Jónas hins vegar gerir ekki tilkall til að teljast sjálfur til frumkvæðisaðila að stofnun Laugaskóla. Fyrir liggur hins vegar að Jónas ásamt Þorkeli Jóhannessyni frá Syðra Fjalli í Aðaldal áttu mjög virkan þátt í að sannfæra Arnór og Sigurjón föður hans á Litlu-Laugum um að tryggja Alþýðuskóla Þingeyinga staðsetningu og hlunnindi þar sem skólinn síðan reis og stendur enn á Skiphóli.
Jónas frá Hriflu stofnaði ekki Laugaskóla
Af því sem hér að framan er rakið þá er það mikill misskilningur eða þekkingarleysi að halda því fram að Jónas frá Hriflu hafi stofnað Laugaskóla; hann hins vegar varð ráðherra kennslumála í ríkisstjórn Framsóknarflokksins – með þingmeirihluta árið 1927. Þá tók hann til óspilltra mála að útbreiða skólamódel Alþýðuskólans á Laugum til annarra landshluta – og beitti sér fyrir því að sett voru lög um „héraðsskóla“ 1929. Þar með urðu ungmennaskólar að lögbundnum verkefnum ríkisins - um land allt. Skólar risu á Laugarvatni og Núpi í Dýrafirði og seinna á Reykjanesi við Djúp, á Reykum í Hrútafirði, Reykholti í Borgarfirði, og Skógum undir Eyjafjöllum og á Eiðum. Skólar fyrir bæði pilta og stúlkur – við hlið þeirra kvennaskóla/húsmæðraskóla sem kvenfélög og sýslur komu á fót með styrkjum ríkisins.
Alþýðumenntun í dreifbýli tók stökk fram á við með þessu frumkvæði Jónasar frá Hriflu að útfæra skólamódel Þingeyinga frá Laugaskóla - með löggjöfinni 1929 og fjárframlögum í kjölfarið. Líka má skjóta því inn - að Jónas frá Hriflu heimilaði Menntaskólanum á Akureyri að útskrifa stúdenta árið 1930 - - sem einstaka afkomendur embættis- og borgarstéttanna í Reykjavík þess tíma hafa enn ekki fyrirgefið.
Þannig þarf ekki að deila um gríðarleg áhrif Framsóknarflokksins, - auðvitað Jónasar sérstaklega, og Ungmennafélagshreyfingarinnar í heild á samfélagsþróun áratuganna sem á eftir komu – 1930-1970 - þegar önnur bylting í skólamálum tekur við með „menntaskólasprengingunni“ og grunnskólalögum fyrir öll börn árið 1974.
Á veturnóttum 1925 afhentu forráðamenn Sambands Þingeysku Ungmennafélaganna „Alþýðuskólann“ - sem sjálfseignarstofnun og Skólaráð tók við stjórn hans og rekstri - undir skólastjórn Arnórs Sigurjónssonar. Tvær burstir skólahússins, með eldhúsi og matsal – sundlaugarkjallarinn og herbergi fyrir nemendur og kennara.
Laugarhitað hús - - þar sem mönnum þótti jafnvel nóg um hitann - - og nemendur og starfsfólk tók til við að smíða rúm, borð, stóla og skápa og koma sér fyrir.
Næsta árið var sundlaugin tekin í notkun – svo austurburstin kláruð - bráðum íþróttahús (Þróttó) – fjós og rafstöðin í Reykjadalsá komust í notkun á árunum þarna á eftir. Þriggjabursta skólahúsið varð einkennismerki alþýðumenntunar í dreifbýli gegn um miðja 20. öldina.
Skólahúsin, aukin og endurnýjuð standa enn - með breyttum hlutverkum – og skólahaldið í Reykjadal fagnar 100 árum. Framhaldsskólinn á Laugum/Laugaskóli dafnar í samtímanum og sinnir verðugu hlutverki í menntun þjóðar.
Mér finnst ég enn velkominn „heim að Laugum“ og vona að fjölskylda mín og frændgarður allur muni geta sagt það sama eftir önnur hundrað ár.
Benedikt Sigurðarson á Grænavatni var nemandi í Laugaskóla 1966-1968. Benedikt er sérfræðingur í stjórnsýslu og skólastjórnun og fv. skólastjóri.


Bjartsýni á Norðurlandi

Fáni – ekki fyrir hvern sem er

Byggingarlist fyrir aldraða

Drenglyndi kvartar til Persónuverndar
