Fara í efni
Umræðan

Heimili er ekki „fjárfestingarvara“

Húsnæðismarkaður í klessu – 1

Húsnæðismál og öruggt heimili eru stóru mál allra tíma - bæði samtímans og framtíðarinnar. Það er þess vegna gleðiefni að núverandi ríkisstjórn hefur stigið inn í hörmulegt ástand á yfirverðlögðum markaði - með verðtryggð okurlánakjör frá Helvíti - og viðurkennt í orði að réttur til öruggs heimilis eigi ekki að skoðast sem einhver útgáfa af spákaupmennsku með fjárfestingar – eins og íbúðir séu hver önnur „vara“ til að innleysa hagnað af fjármagninu.

Í næstum 100 ár hefur húsnæðiskreppum á Íslandi einungis verið mætt með tímabundnum „átaksverkefnum“ en aldrei hefur tekist að koma á varanlegu og hagkvæmu/fjölskylduvænu kerfi – þar sem breytilegir valkostir hafa staðið öllum til boða – bæði bjargálna fjölskyldum og lakar settum. Nú er ástandið fyrir löngu orði fullkomlega óþolandi fyrir meira en helming landsmanna - eftir markvissan yfirgang viðskiptavæðingar og pólitískrar kreddu frjálshyggjunnar. Öll form neytendalausna eru meira og minna alveg blokkeruð í stærri þéttbýlisstöðum landsins. Samvinnufélög og sjálfseignarfélög fá ekki lóðir eða viðunandi fjármögnun og geta því ekki varið hagsmuni almennings gagnvart fákeppni og yfirgangi fjármagnseigenda.

Litið til baka

Húsnæðisskorti í kjölfar Fyrri Heimsstyrjaldar var loksins mætt með Verkamannabústaðakerfi 1929 – ríkisstyrktu skömmtunarkerfi eignaríbúða – sem bauð vissulega upp á verulega meiri gæði en snauður vinnandi almúginn hafði áður séð; - klósett og bað og rafmagnseldavélar í Reykjavík. Gegn um Kreppuárin og að Seinni Heimsstyrjöld voru sett lög um byggingarsamvinnufélög – sem einnig voru (illu heilli) einangruð við séreignaríbúðarhúsnæði. Þessar framfarir í húsnæðismálum voru afrakstur af pólitísku samstarfi Framsóknarflokksins við ASÍ og Alþýðuflokkinn. Skýring á því hvers vegna þessi samfélagslegu íbúðakerfi voru eingöngu miðuð við séreign hérlendis - en ekki eins og í nágrannalöndum meira miðað við leigu- og búsetusamvinnufélög - kann að liggja í því að gamla Kaupmannaíhaldið réði öllum lóðaveitingum í Reykjavík og tók ekki í mál að leggja til lóðir undir „kommúnískar leigublokkir né heldur eitthvert SÍS-hverfi brottfluttra sveitamanna“ eins og ég get vitnað í gamlan Framsóknarmann sem gjörþekkti valdspillta ranghala Reykjavíkurpólitíkurinnar á síðustu öld.

Eftir Seinna Stríð tóku stéttarfélög opinberra starfsmanna BSRB að vinna að lausn á húsnæðismálum - - í gegn um byggingarsamvinnufélög í sínu skjóli sem áfram voru séreignaríbúðir – með gagnkvæmu ábyrgðarkerfi; -„einn fyrir alla og allir fyrir einn“ og gegn því fengust bæði hærri lán og einnig betri kjör. Póstmannablokkir og kennarablokkir, löggublokkir og fleiri frábærar íbúðir risu og tryggðu fjölskyldum öryggi og varanlegt skjól.

Viðreisnarstjórnin 1959 til 1971 jók handvirkt á flótta fólks af Landsbyggðunum og með því á húsnæðiskrísuna og hlóð upp húsnæðisvanda í Reykjavík, en neyddist samhliða til að láta undan kröfum ASÍ/Dagsbrúnar um aðgerðir í húsnæðismálum – og Breiðholtið var byggt. Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar náði bara til Reykjavíkur og áherslan var lögð annars vegar á félagslegar íbúðir Reykjavíkurborgar til útrýmingar á heilsuspillandi Braggahverfum og hins vegar á verkamannabústaði í fjölbýlishúsum. Ekkert sambærilegt var byggt úti á Landsbyggðunum - með stuðningi ríkisvaldsins - og jók það verulega á fólksstrauma frá dreifbýli og úr sveitum – samfara síldarhruni og hafísharðæri bæði Norðanlands og Austan.

Ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar var sett saman með gamla sósíalistageiranum (Alþýðubandalag) og forsetum ASÍ (Samtök frjálslyndra og v.m) og Framsókn, - hófst handa um útfærslu landhelgi og atvinnuþróun Landsbyggðanna. Sú ríkisstjórn lagði grunn að fjölbreyttari uppbyggingu húsnæðis – með öflugri Húsnæðismálastjórn og Byggingarstofnun landbúnaðar heldur en verið hafði um skeið fyrir þann tíma. Samvinnufélög neytenda um leigu- og búseturéttaríbúðir komust samt ekki á kortið hér á landi í þeirri syrpu sem stóð ekki eiginlega yfir nema fram að þeim tíma að verðtrygging allra lána var keyrð yfir almenning 1979. Skelfileg holskefla stökkbreytingar lána skall á almúga með því að vísitölubinding launa var tekin úr sambandi við lánaþróun með hroðalegu ofbeldi árið 1983. Greiðslubyrði lána meira en tvöfaldaðist og margar fjölskyldur lentu í gjaldþrotum sem enn ganga aftur í arf til barna og barnabarna í gegn um langtíma fátækt og heilsubrest og þá óhamingju sem slíku fylgir.

Hnökrar og kreppur til skiptis í gegn um húsbréfakerfi og hremmingar - þar til að verðtryggingin gerði Verkamannabústaðakerfið gjaldþrota og Íbúðalánasjóður tók yfir 1998. Veikburða tilraun með „Leiguíbúðaátaki Páls Péturssonar“ – var að mestu einkavædd innan 5 ára. Innreið einkavæddra banka á íbúðalánamarkaðinn - - 2003-2004 lofaði gósentíð fyrir íbúðafjárfestingar; og Geir Haarde fjármálaráðherra lagði grunn að gjaldþroti Íbúðalánasjóðs með því að láta sjóðinn gefa út óuppgreiðanleg skuldabrét sem lífeyrissjóðunum gafst áfram kostur á að kaupa; - skuldabréf sem sjóðurinn hafði ekki neina vitræna þörf fyrir þar sem uppgreiðsla lána safnaði upp lausafé hjá sjóðnum. Loksins árið 2025 var Alþingi að staðfesta ríkisuppgjör á þessarri fráleitu vanræksluskuld gamla-Íbúðalánasjóðs frá óráðssíu Sjálfstæðisflokksins og í gegn um Efnahagshrunið 2008.

Efnahagsáföll rústa fjölskyldur og ganga í arf

Já og svo varð Efnahags-Hrunið stóra árið 2008 og síðan hefur heil kynslóð vaxið úr grasi. Rétt er að rifja upp að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin þverskölluðust við að frysta vísitölu lána í gegn um Hrunið í október-nóvember 2008 - á meðan sett voru sérlög fyrir ríka fjármagnseigendur um fullar innistæðutryggingar í bönkunum á kostnað almannasjóða. Stökkbreyting verðtryggðra lána rændi eiginfé almennings í húsnæði - - og sama var með gengistryggðu lánin sem síðar voru að vísu dæmd ólögmæt. Ríkisvæddir bankar og Íbúðalánasjóður (ríkisins) beittu þvingunum og fáránlegri innheimtuhörku gagnvart fólki og félögum þess og yfirtóku eignir í hundraða og þúsundatali sem erfitt er að rekja til baka og finna nákvæma tölu á – auk þess voru líklega nærri 10 þúsund eignir settar í innheimtufasa – og ítrustu fantabrögðum beitt til að hrekja fjölskyldur úr heimilum sínum. Þótt eignir væri teknar af fólki sat fjölmennur hópur uppi með aðrar skuldir eða eftirstöðvar - og áralanga ofurþunga greiðslubyrði – og fjöldagjaldþrot voru staðreynd.

Þúsundir einstaklinga hafa alls ekki náð fjárhagslegri heilsu nú árið 2025 – og augljós vísbendi eru um að fátækt leggist á næstu kynslóðir þeirra sem þarna voru brotnir niður. Ömurlegt er til þess að hugsa að ríkisvaldið og dómstólarnir skuli hafa tekið stöðu með gráðugum hagsmunum kröfueigenda og fjármálakerfið verið endurreist á forsendum hinnar mjög svo vafasömu hugmyndafræði og lagt hafði grunn að Efnahagshruninu árið 2008. Ömurðin speglast á sama tíma ekki síst í þeirri staðreynd að kvóta-erfingjar og aflandseignarfólkið færir tugi og hundruð milljarða næstum skattfrjálst á milli kynslóðanna og kaupir upp meira og minna allar rekstrartengdar eignir - í samvinnu við lífeyrissjóðina sem líka haga sér meira og minna eins og aðrir rustakapítalistar. Þessa haustdaga er að birtst ein viðbjóðslegasta mynd af þessum viðskiptum ríksvæddu bankanna í samstarfi við lífeyrissjóðina - þar sem Bakkavararbræðrum var nánast gefið fyrirtækið út úr banka ríkisins – og þeir nú innleysa tugi eða hundruð milljarða í hagnað sem með réttu hefði fremur átt að falla í hlut ríkisins og almennings í landinu.

Önnur birtingarmynd ömurðarinnar er gríðarlegur hagnaður bankanna ár hvert - - þar sem tugir milljarða eru kreistir út úr minni atvinnufyrirtækjum og frá heimilum almennings. Nú síðast þverskallast bankarnir við að koma til móts við eðlilegar siðferðiskröfur og mæta neytendum með hófsemd í vaxtakjörum og viðurkenningu á að sjálfdæmi þeirra hefur aldrei verið lögum samkvæmt – eins og sést á viðbrögðum bankanna við nýlegum Hæstaréttardómi um ólögmæti vaxtaskilmála.

Framhald á morgun

Benedikt Sigurðarson er eftirlaunamaður á Akureyri og fv. framkvæmdastjóri Búfestis hsf. Hann hefur talsverða sérþekkingu á málefnum samvinnufélaga og neytendadrifins rekstrar og heldur áfram að láta sig skipulags- og byggingarmál varða.

Opið bréf til heilbrigðisráðherra

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
08. desember 2025 | kl. 17:30

Stafrænt kynbundið og kynferðislegt ofbeldi: alvarlegt og vaxandi samfélagsmein

Tryggvi Hallgrímsson skrifar
06. desember 2025 | kl. 11:00

Opið bréf til stjórnvalda

Hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og aðrir starfsmenn lyflækningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri skrifa
03. desember 2025 | kl. 10:00

Fundur á Akureyri um hættulega úrelta stjórnarskrá Íslands

Hjörtur Hjartarson og Katrín Oddsdóttir skrifa
28. nóvember 2025 | kl. 18:00

Jákvæð áhrif millilandaflugs til Akureyrar eru miklu meiri en þú heldur

Lára Halldóra Eiríksdóttir skrifar
27. nóvember 2025 | kl. 10:30

Opið bréf til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
26. nóvember 2025 | kl. 17:30