Fara í efni
Umræðan

Gómsæt markasúpa KA og ÍBV í Eyjum

Ingimar Torbjörnsson Stöle gerði fyrsta mark KA í dag með stórglæsilegu skoti. Mynd: Ármann Hinrik

KA-menn tryggðu sér efsta sæti neðri hluta Bestu deildarinnar í knattspyrnu – sjöunda sæti deildarinnar – með 4:3 sigri á ÍBV í Vestmannaeyjum í dag. Þriðja árið í röð verða KA-menn efstir í neðri hlutanum.

Lítið var í húfi í Eyjum í dag nema sjöunda sætið, sem Eyjamenn áttu möguleika á með sigri, en í stóra samhenginu er ekki mikill munur á því að verða í sjöunda eða áttunda sæti. Og bikar sem manni úti í bæ dettur í hug að gefa og afhentur er þeim sem enda í sjöunda sæti á Íslandsmótinu skiptir varla sköpum.

Það mikilvæga fyrir KA-menn er að þeir ljúka Íslandsmótinu á mjög jákvæðum nótum, leika vel og vinna þrjá af leikjunum í „framlengingu“ deildarkeppninnar – og stóra málið er að halda áfram þar sem frá er horfið, þegar alvaran hefst á ný í vor. Að liðið byrji mótið næsta sumar vel, því afleitur fyrri hluti sumars kom í veg fyrir viðunandi árangur að þessu sinni og í fyrra.

Leikurinn í dag var bráðfjörugur, ef til vill ekki varnarlega að mati þjálfaranna en áhorfendur hljóta að hafa kunnað vel að meta þá bragðmiklu markasúpu sem liðin buðu upp á.

Vicento Valor kom ÍBV í 1:0 með stórkostlegu skoti fyrir utan vítateig, en Eyjamenn fengu boltann á silfurfati í aðdraganda marksins eftir afleitan varnarleik Ívars fyrirliða KA. Markið kom á 23. mín. en gleði Eyjamanna var skammvinn því Ingimar Torbjörnsson Stöle svaraði strax í næstu sókn; jafnaði með frábæru skoti, einnig fyrir utan teig.

Hermann Þór Ragnarsson kom heimamönnum í 2:1, að þessu sinni eftir ótrúleg mistök KA-mannsins Rodri. 

Hallgrímur Mar Steingrímsson jafnaði fyrir KA úr víti seint í fyrri hálfleik eftir að brotið var á Ásgeiri Sigurgeirssyni og strax í upphafi kom Markús Máni Pétursson KA yfir með skalla af stuttu færi, eftir að Rodri fleytti boltanum til hans með höfðinu eftir hornspyrnu; þetta var fyrsta mark þessa 19 ára bráðefnilega leikmanns í Bestu deildinni

Sigurður Arnar Magnússon jafnaði fyrir Eyjamenn með frábæru marki, skoti fyrir utan teig, þegar um 20 mínútur voru eftir en KA-menn réðu ríkjum það sem eftir var, fengu nokkur tækifæri til að skora og Birni Snæ Ingasyni tókst það á síðustu andartökunum. Setti boltann í markið af stuttu færi eftir góðan undirbúning Hallgríms Mars og Dags Inga Valssonar.

Leikskýrslan

Staðan

Er ofbeldi gagnvart eldri borgurum vandamál á Íslandi?

Björn Snæbjörnsson og Sigurður Ágúst Sigurðsson skrifa
23. október 2025 | kl. 14:00

Sýnum samstöðu, látum rödd okkar heyrast

Heiðrún Hafdal skrifar
23. október 2025 | kl. 10:00

„Í augsýn er nú frelsi …

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar
23. október 2025 | kl. 10:00

Krónan býr sig ekki til sjálf

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
21. október 2025 | kl. 22:30

Laugaskóli í Þingeyjarsýslu 100 ára

Benedikt Sigurðarson skrifar
19. október 2025 | kl. 06:00

Hafa foreldrar skoðun á leikskólagjöldum og skráningardögum?

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson skrifa
14. október 2025 | kl. 15:30