Fara í efni
Umræðan

Akureyrarbær og íþróttamannvirkin

Akureyrarbær og íþróttamannvirkin

Í aðdraganda ársins 2009 fór Akureyrarbær í stórar framkvæmdir á félagssvæði Þórs fyrir Ungmennafélag Akureyrar. Þar átti að halda landsmót. Til þess var byggður frjálsíþróttavöllur undir starfsemi UFA með öllu sem því fylgdi. Til þess þurfti að rífa upp fótboltavöll Þórs en hann var svo lagður aftur betri en hann var fyrir. Stúkan sem byggð var fyrir mótsstjórn og búningsaðstöðu mátti Þór svo samnýta með UFA eftir landsmótið og hefur gert síðan þá.

Fyrir utan íþróttahúsið í Síðuskóla, sem hefur gólfflöt handboltavallar en er ekki löglegt til keppnishalds, ríkir algjört aðstöðuleysi í öllu deildarstarfi á starfssvæði Þórs. Það er ekki fyrir tilviljun heldur er það tilkomið vegna pólitískrar stefnu bæjarstjórnenda. Hvað annað gæti skýrt stöðuna? Fyrir utan fótbolta þá fara allir kappleikir afreksfólks félagsins fram upp á brekku. Reyndar hefur nýleg bragarbót verið gerð á aðstöðu rafíþróttadeildar sem hefur komið sér fyrir í geymslurými undir lekri vallarstúkunni. En það er dæmigerð sjálfsbjargarviðleitni Þórs, að koma sér fyrir í húsum og skúmaskotum hér og hvar í bænum. Þannig hefur félaginu verið gert að stunda sína starfsemi hingað til.

Með vaxandi og breyttu hlutverki íþróttafélaga í félagsmótun unga fólksins í bænum eykst umfang starfsins sem kallar á aukna samræmingu deilda, jafnvel félaga, og samnýtingu rekstrarþátta til að ná sem mestri hagkvæmni í rekstri og hámarks félagslegum afrakstri. Sú pólitíska áhersla bæjarstjórnenda í gegnum tíðina að Þór skuli sæta því að starfa í bráðabirgða starfsaðstöðu víða um bæinn og sem minnst á starfssvæði sínu beinlínis vinnur gegn eigin markmiði bæjarins um félagslegt hlutverk íþróttafélagsins. Þetta er alveg furðulegur en ekki nýr háttur hjá bæjarvaldinu. Horfum bara til íþróttamannvirkja bæjarins sem mörg hver liggja undir skemmdum vegna vanrækslu sömu stjórnvalda og eru að semja um smíði nýrra. Þeim er svo sem vorkunn, það er dýrt að byggja og dýrara að starfrækja og viðhalda en á móti kemur allt starfið sem að mestu er unnið af umfangsmiklu sjálfboðastarfi bæjarbúa. Sá virðisauki gleymist oft í umræðunni um uppbyggingu íþróttamannvirkja. En því miður sýnist það frekar regla en undantekning að bærinn gangi frá verkum sínum hálfköruðum og tregðist í allt viðhald sem svo veldur skemmdum og skertri starfsemi í þessum mannvirkjum sem hefur aftur neikvæð áhrif á alla starfsemi. Hér verður bærinn að gera betur.

Gott og heilbrigt íþróttastarf er félagslega mikilvægt bæjarfélaginu því þótt það sé fjármagnsfrekt þá gefur það af sér félagsauð inn í samfélagið og er ein ástæða þess að gott er að búa á Akureyri. Tímabær uppbygging á svæði Nökkva er myndarleg og nú var KA að gera þarfan samning við bæinn um frekari uppbyggingu aðstöðu til iðkunar knattspyrnu. Upptökusvæði þeirra hefur stækkað mikið sem krefur þá um rýmri félagsaðstöðu til að mæta þeim vexti. Eftir þennan nýja samning má segja að KA búi vel. Tveir upphitaðir og upplýstir gervigrasvellir, grasvellir, vallarmannvirki, áhorfendastúka og rífleg stækkun á félagsaðstöðu auk löglegs keppnishúss fyrir innanhúsíþróttir þeirra. Til viðbótar búa þeir að íþróttahúsi Naustaskóla eftir skólatíma og öðru löglegu keppnishúsi á starfsvæði þeirra sem þeir að vísu nýta ekki í augnablikinu en eiga svo að segja á lager.

Í þessu ljósi verður félagsaðstaða Þórs hlægileg. Fyrir utan grasvellina og áhorfendastúku er gervigrasvöllur í Boganum. Félagsaðstaðan er löngu sprungin. Félagið hefur aðgang að íþróttahúsi Síðuskóla eftir skólatíma og að einhverju leyti leikfimissal Glerárskóla. Þar með er það upptalið. Annað á svæðinu tilheyrir UFA og því starfi sem það íþróttafélag stundar. Þór sem rekur handboltadeild, körfuboltadeild, knattspyrnudeild, pílukastdeild, taekwondodeild, hnefaleikadeild og rafíþróttadeild. Keiludeildin lagðist í dvala þegar aðstaðan lagðist af. Að meginstofni til er þetta starf á tvist og bast um bæinn í bráðabirgðaplássum. Það má líkja þessu við að félagið búi og starfi í pappakössum.

Það blasir við að næsta verkefni sem ráðist verður í á vegum bæjarins hlýtur að vera uppbygging á íþróttahúsi sem hýsir starfsemi íþróttadeilda Þórs og þessari hallærisútgerð sem bæjaryfiröld standa fyrir á félagsstarfinu ljúki. Og það merkilega er að bygging íþróttahúss á félagssvæði Þórs getur af sér tvöfaldan ávinning. Þór kemst heim með sitt starf og styrkir félagslegt hlutverk sitt í Þorpinu, á því græða allir. KA tekur í notkun seinna keppnishúsið á svæðinu sínu og færir vaxandi starfsemi inn í Íþróttahöllina sem Þór hefur nýtt til bráðabirgða, enda er Íþróttahöllin ekki nema í stuttri göngufjarlægð frá félagsheimili KA. Hagkvæmari framkvæmd í uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum fyrirfinnst varla því þetta eina hús myndi leysa aðstöðuvanda beggja félaga. Bygging íþróttahúss Þórs er lausnin á vaxandi húsnæðisþörf KA fyrir innanhúsíþróttir félagsins.

Og af þessu hlytust merkileg tímamót, í fyrsta skipti í ríflega 100 ára sögu Þórs væru innanhúsíþróttir félagsins stundaðar á félagssvæði þess. Líklega langsíðast allra íþróttafélaga á landinu sem næði þeim tímamótum. Einfaldasta lausnin væri að lengja aðeins í vestari gafli Bogans og þá er húsið komið. Ég er þess handviss að Þórsarar gætu leyst það mál á hagkvæman hátt fyrir bæinn, þar er fjármögnun ekki undanskilin.

Geir Hólmarsson er áhugamaður um íþróttastarf.

Réttindi neytenda á tímum Covid

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
13. nóvember 2020 | kl. 13:00

Jónas Hallgrímsson

Tryggvi Gíslason skrifar
16. nóvember 2020 | kl. 07:15

Jón Sveinsson - Nonni

Haraldur Þór Egilsson skrifar
17. nóvember 2020 | kl. 10:30

Matthías Jochumsson

Tryggvi Gíslason skrifar
18. nóvember 2020 | kl. 17:09

Íslenska, nútími og lestur

Sverrir Páll skrifar
19. nóvember 2020 | kl. 10:10

Bílastæðaklukkur í miðbæ Akureyrar

Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar
20. nóvember 2020 | kl. 10:00