Fara í efni
Umræðan

Af aðgerðaleysi í málefnum aldraðra hjá Akureyrarbæ

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur gefið út að á næstkomandi árum muni ellilífeyrisþegum fjölga mjög mikið. Þeirri staðreynd fylgja bæði tækifæri og miklar áskoranir. Árið 2018 kom samantekt frá landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem farið var yfir hlutverk sveitarfélaga í framtíðar öldrunarþjónustu. Þar kom fram að samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir að árið 2038 verði 18.6% þjóðarinnar 67 ára eða eldri. Árið 2018 var þetta hlutfall 12%. Við þessari staðreynd þarf Akureyrarbær að bregðast. Síðastliðið ár setti Akureyrarbær fram aðgerðaáætlun í málefnum aldraðra. Ekki þótti þó ástæða til að ráðast strax í heildræna stefnu í húsnæðismálum. Einmitt þau mál hafa brunnið mjög á ellilífeyrisþegum enda mikill skortur á íbúðarhúsnæði með þjónustukjarna fyrir þann hóp. Aðgerðaráætlunin sem um ræðir var sett fram í þrettán liðum og átti hún eingöngu að taka til heilsueflingar, félagsstarfs og upplýsingagjafar. Áætlaður kostnaður við aðgerðaráætlunina var 20,3 milljónir króna. Skipaður var samráðshópur sem átti að eiga gott samstarf við öldungarráð og Félag eldri borgara á Akureyri.

Þegar farið er ofan í saumanna á aðgerðaráætluninni kemur á daginn að nánast ekkert hefur verið aðhafast í málaflokknum hjá Akureyrarbæ.

Þegar hver liður í áætluninni er skoðaður í styttu máli má sjá að:

1. Akureyrarbær kanni möguleika á því að verða aldursvænt samfélag. Ekki er gert ráð fyrir kostnaði við þennan lið.

Ekki hefur verið hafist handa við verkefnið og engar fréttir af því borist eldri borgurum.

2. Félagsmiðstöðvar fólksins verði heilsueflandi félagsmiðstöðvar. Þar eigi að bjóða upp á fjölbreytta heilsutengda afþreyingu með virkri þátttöku notenda allt árið um kring. Standa eigi reglulega fyrir fræðslu um heilsu og mataræði í samstarfi við fræðslunefnd Félags eldri borgara á Akureyri.

Þetta verkefni kom einungis til framkvæmda í s.l. nóvembermánuði einu sinni í viku. Annað hefur ekki verið gert. Þessi liður átti að kosta Akureyrarbæ tvær milljónir.

3. „Virk efri ár“ Farið verði í samstarf við íþróttafélög á Akureyri í anda verkefnisins „Virkni og vellíðan“ í Kópavogi, með samstarf við Heilsugæsluna á Akureyri (HSN) og Háskólann á Akureyri í huga. Verkefninu verði ætlað að auka stuðning við íþróttastarf eldra fólks og fjölga í hópi þeirra sem stunda heilsurækt við hæfi. Verði það gert með auknu framboði námskeiða fyrir eldra fólk, í samstarfi við íþróttafélög bæjarins og niðurgreiðslu þátttökugjalda eldra fólks að námskeiðunum. Gert var ráð fyrir 16 milljónum króna í þetta verkefni.

Ekkert hefur gerst ennþá í þessu máli og enginn starfsmaður hefur verið ráðinn til að sinna því, svo vitað sé.

4. Hreystitæki fyrir fullorðna. Sett verði upp á tveimur stöðum í bænum hreystitæki. Byrjað verði á a.m.k. þremur tækjum á hvorum stað. Gert er ráð fyrir 3.5-5 milljónum króna í þetta verkefni.

Félag eldri borgara hefur upplýsingar um að verkefnið sé komið til umhverfis og mannvirkjasviðs. Ekki hefur verið ráðist í útboð og því augljóst að tækin verða ekki komin í notkun í haust eins og lagt var upp með.

5. Upplýsingar um framboð á heilsueflingu eldra fólks verði aðgengilegar á heimasíðu Akureyrarbæjar. Tekið verði saman framboð heilsueflingar sem stendur til boða á vefsvæði bæjarins, þar sem Akureyrarbær og einkaaðilar hafa tækifæri til að auglýsa hvað er í boði. Þetta atriði ætti ekki að kosta bæinn neitt.

Ekki hefur frést af neinum undirbúningi hvað þetta varðar.

6. Félagsleg- og andleg heilsuefling. Boðið verði upp á kynningar, dagskrár og heimsóknir og ferðir á söfn á Akureyri í samvinnu við félagsmiðstöðvar og Félag eldri borgara. Ekki er gert ráð fyrir neinum kostnaði í þessum lið.

Þetta atriði hefur ekki komið til framkvæmda enda kostar inn á söfn og einnig hefði þurft að reikna með aksturskostnaði.

7. Betri næring fyrir eldra fólk. Á matseðlum verði innihaldslýsingar þar sem merktir verði þekktir ofnæmisvaldar bæði í heimsendum mat og þeim mat sem boðið er upp á í félagsmiðstöðvum. Boðið verði upp á fræðslu um næringu eldra fólks. Þessi liður átti ekkert að kosta og hefur heldur ekki komið til framkvæmda.

8. Hádegismatur í félagsmiðstöðvum verði betur auglýstur og kannaðir möguleikar á að draga úr kostnaði. Vakin verði athygli á að hægt sé að kaupa sér mat í félagsmiðstöðvum. Farið verði í auglýsingaátak á netmiðlum, heimasíðu og í bæklingnum. Skoðað verði að fara í stærra sameiginlegt útboð þannig að hægt sé að lækka verð til neytenda. Þessi liður átti heldur ekkert að kosta.

Ekkert hefur gerst í þessum málum og því síður verið dregið úr kostnaði en máltíðirnar þykja mjög dýrar, u.þ.b. 1800 krónur í samanburði við 1100 -1200 krónur í Reykjavík.

9. Markvisst verði tekið á móti nýjum gestum félagsmiðstöðvanna með aukinni fræðslu. Unnið verði eftir verklagi við móttöku nýrra gesta þar sem beitt verði jafningjafræðslu og jafningjastuðningi. Sérstakur tími verði í hverri viku þar sem nýliðar eigi kost á að fá fræðslu um starfsemina. Auglýst verði sérstaklega í dagskránni, tvisvar sinnum á ári, kynning fyrir nýja gesti með það að markmiði að auka virkni og rjúfa einangrun. Áætlaður kostnaður var 100 þúsund krónur.

Ekkert hefur verið verið gert í þessu málefni.

10. Endurbætur á heimsíðu Akureyrarbæjar www.akureyri.is Haldið verði áfram endurbótum og undirsíður um þjónustu við aldraða gerðar skilmerkilegri og myndrænni. Í þessu máli hefur verið unnið og kom Félag eldri borgara og öldungaráðið sjálft að því málefni. Engin útlagður kostnaður var áætlaður.

11. Upplýsingar um þjónustu við eldra fólk verði hægt að fá á einum stað. Allar upplýsingar verði hægt að nálgast í þjónustuanddyri og í einu símanúmeri. Enginn útlagður kostnaður var áætlaður við þetta atriði.

Erfitt hefur reynst að koma þessu í gagnið og er brýn þörf á einhverskonar umboðsmanni aldraðra sem leiðbeint gæti þeim áfram. Þessu máli er heldur ekki lokið hjá Akureyrabæ.

12. Upplýsingablöð. Upplýsingablöð fyrir eldri borgara verði gefin út. Áætlaður kostnaður er 200 þúsund krónur.

Ekkert hefur ennþá gerst í þessu máli, svo vitað sé.

13. Heilsuefling í heimaþjónustu. Fagmaður verði ráðinn inn í heimaþjónustu til að sjá um heilsueflingu fyrir eldra fólk sem býr heima og kemst ekki til að sækja almennt félagsstarf og heilsueflingu. Áætlaður kostnaður er um tvær milljónir.

Engar fréttir hafa borist af þessu atriði.

Af þessum staðreyndum má sjá að Akureyrarbæ hefur ekki tekist sérlega vel að halda sig við þessa áætlun og greinilegt er að það gætir ákveðins áhugaleysis í málefnum aldraðra hjá Akureyrarbæ. Í næsta áfanga stóð til að fara í enn stærri mál sem snúa að heimaþjónustu og samhæfingu við aðra þjónustu, húsnæðismál og búsetu eldra fólks (þar með talin skipulagsmál). Samgöngur þ.e. strætó, ferlisþjónusta, frístundaakstur og loks verðlagning þjónustu (upplýsingasöfnun og kannanir).

Ljóst er að taka þarf mun kröftuglegar á málum, sem varða þjónustu við eldri borgara, en gert hefur verið og að gefnu tilefni þarf að veita bæjarstjórn Akureyrar strangt aðhald svo hún haldi gefin loforð.

Málfríður Stefanía Þórðardóttir skipar 2. sæti á lista Flokks fólksins í komandi sveitastjórnarkosningum

Fyrsti þjónustusamningur Akureyrarbæjar við Grófina geðrækt!

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar
22. nóvember 2023 | kl. 15:45

Sammála en þó á móti

Jón Hjaltason skrifar
20. nóvember 2023 | kl. 17:40

Áhugaverð hugmynd að nýtingu Tjaldsvæðisreitsins

Benedikt Sigurðarson skrifar
18. nóvember 2023 | kl. 15:00

Vakning um ofbeldi gagnvart verslunarfólki

Eiður Stefánsson skrifar
17. nóvember 2023 | kl. 12:35

Erfið staða bænda nú er okkur sem samfélagi að kenna

Hólmgeir Karlsson skrifar
15. nóvember 2023 | kl. 10:00

Sex gjaldfrjálsir klukkutímar og tekjutenging

Hulda Elma Eysteinsdóttir skrifar
10. nóvember 2023 | kl. 17:25