Fara í efni
Umræðan

400 milljónum meira í fasteignaskatt

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Tekjur Akureyrarbæjar af fasteignaskatti verða um 400 milljónum króna meiri á næsta ári en því sem er að líða. Fasteignaskattur skilar bæjarfélaginu 2,6 milljörðum króna á þessu ári en 3 milljörðum árið 2023.

Fasteignamat hækkar verulega um áramót eins og komið hefur fram í fréttum. Samkvæmt drögum að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins sem lögð voru fram til fyrri umræðu í byrjun nóvember átti fasteignaskattur að standa í stað. Hins vegar var ákveðið við síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði um 9,4%  á milli ára; álagningin verður 0,31% af fasteignamati í stað 0,33%. Álagningarprósenta á annað húsnæði er óbreytt.

Þrátt fyrir að álagningarprósentan lækki aukast tekjur bæjarins verulega – um 400 milljónir kr. skv. áætluninni – vegna þess hve fasteignamatið hækkar mikið. Fasteignamat hérlendis hækkar á milli ára um 19,9% að meðaltali en hækkunin var 7,4% á milli áranna 2021 og 2022. Hækkun fasteignamats á íbúðarhúsnæði á milli áranna 2022 og 2023 á Akureyri er 22,1% að meðaltali en um 10% á atvinnuhúsnæði.

  • Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs, sagði á fundi bæjarstjórnar að helsta ástæða þess að hægt sé að lækka álagningarprósentu af íbúðarhúsnæði sé hækkun framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga; upphæðin hækkar um 800 milljónir og Akureyrarbær fær um 5 milljarða króna úr Jöfnunarsjóði á næsta ári.
  • Hækkun framlags úr Jöfnunarsjóði er einkum til komin vegna breyttrar tekjuskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga til að mæta auknum kostnaði við málefni fatlaðra.
  • Samþykkt var á fundi bæjarstjórnar að elli- og örorkulífeyrisþegar fái afslátt af fasteignaskatti.
  • Útsvarprósenta verður óbreytt á Akureyri – 14,52% af launum. Það er hæsta leyfilega hlutfall og hefur verið óbreytt á Akureyri síðan 2014. Útsvar er helsti tekjustofn sveitarfélaga. Svk. fjárhagsáætluninni verða útsvarsstekjur Akureyrarbæjar 13,2 milljarðar króna á næsta ári.
  • Gjaldskrár Akureyrarbæjar hækka almennt um 7,5 til 10% á næsta ári, í samræmi við verðlagsbreytingar að því er segir í plöggum með fjárhagsáætlunni. Þar segir að leikskólagjöld standi í stað.
  • Áætluð rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins (samstæðunnar, A- og B-hluta) árið 2023 er jákvæð um 228 milljónir króna sem er talsverður viðsnúningur til hins betra frá þessu ári þegar niðurstaðan var neikvæð um 624 milljónir. Jafnvægi er í rekstri sveitarfélagsins og er gert ráð fyrir enn betri afkomu til ársins 2026, segir í greinargerð með fjárhagsáætlunni. 

Stærsti hluti útgjalda sveitarfélagsins fer til fræðslu- og uppeldismála, næstmest fer í félagsþjónusta og þar á eftir koma æskulýðs- og íþróttamál. Áætlun fyrir næsta ár gerir ráð fyrir að útgjöld verði mest til þessara málaflokka:

Fræðslumál – 10 milljarðar króna

  • Undir málaflokk fræðslumála fellur rekstur leik- og grunnskóla auk tónlistarskólans og annarrar fræðslustarfsemi.

Félagsþjónusta – 5 milljarðar króna

  • Félagsþjónusta samanstendur af þjónustu við fatlaða, þjónustu við börn og unglinga, þjónustu við aldraða og ýmissri annarri félagslegri þjónustu.

Æskulýðs- og íþróttamál – 2,6 milljarðar króna

  • Undir æskulýðs- og íþróttamál fellur m.a. rekstur íþróttamannvirkja Akureyrarbæjar, styrkir til íþróttafélaga, rekstrarframlög til Hlíðarfjalls, rekstur félagsmiðstöðva, forvarnastarfsemi og vinnuskólinn.

Umferðar og samgöngumál – 1,2 milljarðar króna

  • Til umferðar- og samgöngumála heyrir m.a. rekstrarframlag til Strætisvagna Akureyrar, snjómokstur og leiga og viðhald gatna.

Menningarmál – 1 milljarður króna

  • Til menningarmála telst ýmis menningartengd starfsemi, rekstur safna s.s. Amtsbókasafnsins og Listasafnsins sem og framlög til Menningarfélags Akureyrar, MAk.

Áherslur ráðherra skipta máli

Heimir Örn Árnason skrifar
20. september 2024 | kl. 09:40

Dansaðu vindur

Berglind Ósk Guðmundsdóttir skrifar
19. september 2024 | kl. 14:00

Hvaðan kemur verðbólgan?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
17. september 2024 | kl. 16:30

Hvert er hlutverk sveitarfélaga í þjóðarátaki gegn ofbeldi meðal barna?

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
15. september 2024 | kl. 13:30

Hver er Akureyri framtíðar?

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:30

Hverfist allt um lokamarkmiðið

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
10. september 2024 | kl. 13:30